Gjaldþrotaskipti

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 11:28:44 (5496)

1998-04-15 11:28:44# 122. lþ. 104.12 fundur 325. mál: #A gjaldþrotaskipti# (greiðsluaðlögun) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[11:28]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Sjálfstfl. reytir eina fjöðrina af annarri úr höfuðbúnaði Framsfl. og við sáum það á hv. þm. Jóni Kristjánssyni að honum líður ekki nema rétt svo þolanlega í vistinni hjá Sjálfstfl. Þetta er eitt af þeim málum sem Framsfl. keyrði hvað harðast fram með fyrir síðustu kosningar. Ég minni á það, herra forseti, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur gert, að þetta var eitt af þeim málum sem ýmsir hinna vöskustu í sveit Framsfl. létu hvað dólgslegast yfir í ræðustól Alþingis fyrir síðustu kosningar. Ég rifja það upp að nokkrir hv. þm flokksins, m.a. núv. hæstv. félmrh., lögðu fram sérstakt frv. um greiðsluaðlögun og skoruðu á þingheim að samþykkja það. Það var enginn annar en hinn drenglyndi forseti Alþingis sem mælti þessi orð: ,,Líf, heill og hamingja þúsunda fjölskyldna veltur á viðbrögðum ríkisstjórnarinnar. Málið þolir enga bið.``

Það er kannski þess vegna sem hæstv. forseti er heldur dapur og hnípinn á svipinn vegna þess að hann sá hér skutlast út úr salnum hv. þm. Sturlu Böðvarsson, sem hann væntanlega ætlaði að kveðja til að sitja í sinn stað í forsetastóli til að geta komið hingað og tekið undir málflutning hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.

[11:30]

Þetta mál sem hér er flutt er nefnilega nánast sniðið, a.m.k. efnislega, upp úr því frv. sem þingmenn Framsfl. lögðu hérna fram. Hv. þm. Jón Kristjánsson kemur og sýnir það glögglega að hann er í eins konar bóndabeygju í hinu kalda faðmlagi Sjálfstfl. Í hjarta sínu vill hann fylgja þessu máli. Í hjarta sínu veit hann að þörf er á því en hann getur ekki fylgt því vegna þess að Sjálfstfl. er á móti málinu eins og hvað eftir annað hefur komið fram.

Mér finnst nauðsynlegt að þeir þingmenn Framsfl. sem tóku hvað ákafast til máls í þessum efnum fyrir nokkrum missirum komi og skýri málið. Það er ekki nægilegt af þeirra hálfu að koma hingað upp í tveimur örstuttum andsvörum og fjasa aðallega um góðærið og efnahagsástandið. Þeir verða að skýra út fyrir þingheimi hvað veldur sinnaskiptum þeirra. Ef það er svo eins og mátti ráða af máli hv. þm. Jóns Kristjánssonar, að ríkisstjórnin hafi gripið til aðgerða sem þeir telja að séu nægar þá þurfa þeir að skýra það út fyrir þingheimi. En hv. 1. flm., Jóhanna Sigurðardóttir, leiddi mjög sterk rök að því í máli sínu að sá vandi sem við er að glíma er ekki leystur. Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til hafa ekki dugað til þess að höggva að rótum þess vanda sem málaður var hvað dekkst af framsóknarmönnum fyrir stuttu síðan.

Hvað veldur því að Framsfl. telur skyndilega að ekki þurfi að grípa til þessara ráða? Við getum öll verið sammála um að efnahagsástandið er miklu betra. Það ríkir góðæri til lands og sjávar og það væri slæm ríkisstjórn sem tækist að klúðra því niður. Þessari ríkisstjórn hefur um margt tekist vel og hún hefur haldið áfram að treysta undirstöður efnahagslífsins. Hún tók við góðu búi og farsælum grunni sem lagður var af fyrri ríkisstjórn og það hefur margsinnis komið fram.

Eftir sem áður er engum blöðum um það að fletta að allt of stór hópur á um sárt að binda. Engir máluðu það jafnsterkum litum og þingmenn Framsfl. á síðasta kjörtímabili sem héldu hér miklar, kappsfullar og oft og tíðum góðar ræður um aðbúnað og kjör þessa fólks. Það kann vel að vera að í þessum hóp hafi fækkað en við vitum eigi að síður að skuldarar og þeir sem hafa lent í greiðsluþroti eru allt of margir. Spurningin er: Er einhvern veginn hægt að lina þjáningar þeirra? Er hægt að lina þær þjáningar sem staðan hefur kallað yfir margar fjölskyldur, yfir börn þessa fólks?

Það var dómur Framsfl. fyrir skömmu að það væri hægt. Þeir lögðu fram frv. um greiðsluaðlögun sem var að mörgu leyti mjög gott þó á því væru vissir efnislegir gallar. En það sýndi a.m.k. skilning þeirra á vandanum. Hvað veldur því núna þegar þeir hafa aðstöðu til þess að ýta málinu í farsæla höfn, að skyndilega skortir þá kraftinn? Hvað veldur því til að mynda að hv. þm. Guðni Ágústsson sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir mærði í hástemmdu lofi áðan og kvað hann vera þann hinn eina þingmann Framsfl. sem enn hefði einhverja félagslega taug aftan úr sér, tekur ekki til máls í þessu mikla máli (Gripið fram í: Liggur hún aftur úr mönnum?) þegar hann tók sér það hlutverk á sínum tíma að berjast fyrir kjörum lítilmagnans í þjóðfélaginu? Það hefur margsinnis komið fram að hann stendur einmitt einn fárra framsóknarmanna enn þá föstum fótum í þeim sverði þar sem fólkið í landinu lifir. Fáir í stjórnarliðinu skilja kjör þess fólks sem hefur orðið krappast úti jafn vel og hann. Menn leita auðvitað eftir afstöðu manna sem hafa sjálfviljugir gert sig að talsmönnum þessara hópa. Menn geta ekki leyft sér það í stjórnarandstöðu að slá sig til riddara með málum eins og þessum og draga sig síðan inn í skuggann, inn í hið notalega skjól forsetadæmisins, þegar þeir skyndilega komast í þá aðstöðu að geta beitt afli sínu til farsældar þessu fólki.

Herra forseti. Ég hef áður komið að þessu máli. Ég flutti árið 1993 þáltill. um greiðsluaðlögun með þáv. þingmanni Sigbirni Gunnarssyni og það mál sem hér liggur fyrir er efnilega mjög vel heppnuð útfærsla á því máli. Ég tel að öll rök hnígi að því að við eigum að samþykkja þetta mál. Ég rifja það upp að þeir sem núna hafa Framsfl. í hnappheldunni beittu þeim rökum á sínum tíma gegn þessu máli að það mundi opna flóðgátt. Ég vek þess vegna sérstaka athygli á því að sú opnun sem þetta frv. felur í sér að greiðsluaðlögun er mjög takmörkuð og kemur alfarið í veg fyrir að hægt sé með einhverjum rökum að halda því fram að hér sé verið að opna gátt fyrir sóun á almannafé. Það er síður en svo.

Hér er talað um að þeir sem eiga að fá heimild til greiðsluaðlögunar þurfi í fyrsta lagi að vera einstaklingar sem ekki stunda atvinnurekstur. Hér er um að ræða fólk sem hefur einhverra hluta vegna lent í einhvers konar ógæfu, til að mynda vegna sjúkdóma, til að mynda vegna atvinnuleysis og það væri hægt að telja upp fleiri atriði sem sannanlega er í mörgum tilvikum hægt að sýna fram á að voru ekki í valdi þeirra sem í hörmunginni lentu. Það er sanngirnisatriði að þjóðfélagið reyni einhvern veginn að koma þeim til aðstoðar sér í lagi vegna þess að þetta frv. mun líka bæta rétt þeirra sem eiga kröfurnar. Það mun líka bæta stöðu kröfuhafa. Það er verið að reyna að koma því svo til vegar að skuldararnir sem eru í verulegum greiðsluerfiðleikum fái sér í fyrsta lagi faglega aðstoð og í öðru lagi þarf að vera ljóst að þeir sæta hvorki greiðslustöðvun né hafa tekið þátt í nauðarsamningum né verið undir gjaldþrotaskiptum. Og stjórnvald þarf að meta það svo að aðstæður viðkomandi skuldara mæli að öðru leyti með því að hann fái greiðsluaðlögun. Þetta mun leiða til þess að viðkomandi einstaklingur og viðkomandi fjölskylda mun eiga miklu auðveldara með að vinna sig út úr vandanum. En þetta þýðir líka að kröfuhafarnir eiga meiri líkur á því að fá eitthvað upp í sínar kröfur. Þannig að þegar málið er skoðað í heild má segja að allir græði á því, sá sem í erfiðleikunum er, sá sem kröfurnar á og þjóðfélagið sem ella þarf einhvern veginn að hlaupa undir bagga, þess vegna með félagslegri aðstoð. Og ekki síst, herra forseti, græðir Framsfl. á því að þetta mál komist í gegn vegna þess að þá er ekki hægt að ásaka hann fyrir að hafa svikið þetta loforð. En ég gæti, herra forseti, í lengra máli rifjað upp þann hluta kosningaloforða Framsfl., þ.e. stefnuskrá flokksins sem samþykkt var í október 1994 minnir mig, sem laut einmitt að þessum atriðum. Þar var því lýst í hástemmdum orðum hvernig Framsfl., kæmist hann til valda, ætlaði sér að gjörbreyta stöðu skuldara. Sumir þeirra sem núna sitja í ríkisstjórn fyrir Framsfl. gengu svo langt að þeir ræddu bókstaflega um að frysta vissa tegund skuldar og jafnvel að lækka hana. Ekkert af þessu hefur auðvitað séð dagsins ljós.

Góðærið sem búið var að leggja drög að og sem að verulegu leyti á rætur sínar að rekja til breyttra aðstæðna í umhverfinu og erlendis, en líka vegna þess að ríkisstjórnin hefur staðið sig alveg ágætlega við að gera gott úr málunum, hefur valdið því að líkast til eru þeir færri nú sem eiga um sárt að binda. En þeir eru til. Og það er ekkert sem heimilar okkur eða þeim sem áður mæltu til stuðnings við þetta fólk að falla frá þeim stuðningi. Mér finnst að þeir sem áður héldu þessar miklu ræður um nauðsyn þess að mál af þessu tagi yrði að lögum hljóti að skulda þinginu skýringu og ekki síst því fólki sem batt miklar vonir við stuðning Framsfl., skýringu á þessum sinnaskiptum sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur kallað svik aldarinnar.

Ég skil það, herra forseti, þegar ég horfi yfir salinn að þá er ekki að sjá nokkurn einasta framsóknarmann. Þeir eru auðvitað hræddir við málflutning hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Þeir vita að þegar hún bregður vendi réttlætisins á loft þá hljóta ranglátir að sviptast undan á flótta. Við sjáum, herra forseti, hvernig bankastjórar Landsbankans hafa feykst eins og sprek fyrir vindi undan þeim sóp og það má vera að hv. þm. Framsfl. óttist að ef þeir reyti hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur til reiði í þessu máli þá bíði þeirra sömu örlög og bankastjóra Landsbankans. Kannski er það skýringin á því að þeir flýja unnvörpum úr salnum og hér er enginn eftir.