Skattlagning framlaga úr kjaradeilusjóðum

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 13:12:22 (5504)

1998-04-15 13:12:22# 122. lþ. 104.21 fundur 631. mál: #A skattlagning framlaga úr kjaradeilusjóðum# þál., Flm. SJóh (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[13:12]

Flm. (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt fram á hinu háa Alþingi till. til þál. um skattlagningu framlaga úr kjaradeilusjóðum en ásamt mér flytja tillöguna hv. þm. Alþb. Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon. Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að kanna hvernig breyta eigi skattalögum til að framlög úr kjaradeilusjóðum verkalýðsfélaga verði ekki tvísköttuð eins og nú. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar verkalýðshreyfingar og stjórnvalda og skili hún áliti fyrir 1. október 1998.``

Með tillögunni fylgir svohljóðandi greinargerð:

,,Á undanförnum missirum hefur nokkuð borið á því að einstaklingar sem fengið hafa framlög úr kjaradeilusjóðum hafa leitað réttar síns fyrir dómstólum vegna meintrar tvísköttunar þeirra. Ljóst er að framlög launþega í kjaradeilusjóði eru hluti af félagsgjöldum viðkomandi og eru meðhöndluð sem laun og skattlögð samkvæmt því. Þegar launþegi fær framlag úr kjaradeilusjóði sem hann hefur áður greitt í af launum sínum er það framlag skattlagt eins og launatekjur og er það því tvískattað.

Flutningsmenn telja þetta mikið óréttlæti og leggja til að kannað verði hvernig ráða megi bót á þessu. Virðast einkum tvær leiðir koma til greina, annars vegar að breyta lögum um tekjuskatt og eignarskatt á þann veg að framlög úr kjaradeilusjóðum séu sérstaklega undanþegin skatti eða hins vegar að undanþiggja sjálf framlögin í kjaradeilusjóðina skatti. Það væri sams konar aðferð og viðhöfð er við greiðslur í lífeyrissjóði en þær eru nú undanþegnar skatti. Var sú breyting gerð til þess að koma í veg fyrir tvísköttun lífeyrisgreiðslna. Virðist eðlilegt að líta á framlög úr kjaradeilusjóðum á sama hátt.``

Forsaga þess að ég flyt þessa þáltill. er að ég hef lengi verið félagi í Kennarasambandi Íslands og við kennarar höfðum þegar við fórum í verkfall 1995 árum saman greitt 1% af launum okkar í kjaradeilusjóð. Við höfðum alltaf staðið í þeirri meiningu sjálf að þarna værum við að leggja inn á nokkurs konar bankabók og í þessa sjóði gætum við svo gengið ef við lentum í kjaradeilum og engum manni datt í hug að þetta yrði skattlagt eins og svo kom á daginn.

[13:15]

Árið 1995 lentum við í sjö vikna verkfalli og var mikið greitt út úr sjóðnum til verkfallsmanna eftir ákveðnum reglum. Það var lagt ríkt á við þá sem fengu styrkina að þeir yrðu að gefa þá upp á skattskýrslu en það mundi ekki verða skattlagt. Annað kom svo á daginn.

Félagsmenn töldu þetta skilmerkilega fram á skattskýrslum sínum en þetta var svo bara skattlagt eins og hverjar aðrar launatekjur og fólki var gert árið eftir að borga af þessu skatt sem þá var 43%. Þetta olli mikilli reiði og sárindum í félagi okkar og síðan hef ég fylgst með að svipað hefur komið á daginn varðandi greiðslur úr kjaradeilusjóðum sjúkraliða og síðast á Vestfjörðum í haust. Væntanlega hefur það samt ekki komið þeim jafnmikið á óvart og það kom okkur í Kennarasambandi Íslands vegna þess að við vorum alveg handviss um það allan tímann að við værum bara að leggja inn á bók sem við ættum svo inni á þegar við lentum í kjaradeilum og þetta væru peningar sem við værum búin að borga staðgreiðslu af.

Ég tel mjög brýnt að úr því fáist skorið, hvað er rétt og hvað er lögmætt í þessu atriði. Lögmenn túlka þetta mjög upp á sinn hvorn veginn. Sumir segja að það sé alveg greinilegt að við eigum ekki að borga skatt af þessu, aðrir segja að ákvæði í lögum séu ekki nógu skýr og meðan svo sé verði að greiða af þessu skatt. Ég tel mjög brýnt að lögum verði breytt og að í annan stað verði ákvæðin gerð skýrari þannig að það sé alveg skilyrðislaust að fólk sem fær úr sjóði, sem það er búið að greiða framlag í árum saman sem hefur alltaf verið skattlagt, þurfi ekki að borga skatt af þessum framlögum, en hins vegar verði, eins og stungið er upp á í greinargerðinni, framlag í kjaradeilusjóð frádráttarbært frá skatti. Ég legg til að eftir þessa umræðu verði þáltill. vísað til hv. efh.- og viðskn. til meðferðar og vonast til að þó mjög sé liðið á þinghaldið komi hún þaðan fljótt og verði samþykkt fyrir vorið.