Almannatryggingar

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 14:09:43 (5508)

1998-04-15 14:09:43# 122. lþ. 104.18 fundur 534. mál: #A almannatryggingar# (umönnunarbætur í fæðingarorlofi) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[14:09]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ástu B. Þorsteinsdóttur sérstaklega fyrir að flytja þetta mál hér á Alþingi. Hún hefur ekki verið lengi á Alþingi en hefur mælt fyrir fjöldamörgum málum af þessu tagi til að rétta stöðu þeirra sem höllustum fæti standa í þjóðfélaginu. Hún vill bæta stöðu foreldra og barna sem sérstaklega eiga undir högg að sækja í lífsbaráttunni og ég vil færa henni bestu þakkir fyrir það.

Þegar fatlað barn fæðist í fjölskyldu er það auðvitað óskaplegt áfall og mikil röskun á högum fólks sem hefur átt sér einskis ills von. Fjölskyldan hefur ekki vænst neins nema góðs af tilverunni og svo fæðist þetta barn sem þarf jafnvel á báðum foreldrum að halda allan sólarhringinn um ófyrirséðan tíma. Ég þekki þess mörg dæmi að slíkt hafi raskað högum fólks svo alvarlega að það hafi jafnvel misst eignir sínar í kjölfarið.

Ég hafði ekki gert mér grein fyrir að þessi gloppa væri í lögum um almannatryggingar. Til viðbótar því sem fólk þarf að takast á við undir þessum kringumstæðum væri fólk svipt fæðingarorlofi í þrjá mánuði ef það kysi að fara yfir á umönnunarbætur. Þetta eru ekki þær fjárhæðir að þær mundu raska fjárhag ríkisins mjög þó þeir foreldrar sem lenda í þessum alvarlegu hremmingum nytu þessa þrjá mánuði bæði umönnunarbóta og fæðingarorlofs. Eins og ég segi er ekki hægt að lýsa þeim ósköpum sem þetta fólk þarf oft og tíðum að ganga í gegnum og alveg óskiljanlegt að vera skuli svona gildrur til að gæta þess að fólk fái ekki það sem það á vissulega rétt á samkvæmt mínum skilningi.

Ég vona að hv. heilbr.- og trn. taki nú rösklega við sér þegar þetta frv. berst til nefndarinnar og afgreiði málið. Ég vona að það fáist samþykkt á þeim þingdögum sem eftir eru. Eins og ég segi er þetta mikið réttlætismál, þetta er sanngirnismál og gríðarleg hjálp fyrir þá foreldra sem þarna eiga í hlut. Þetta eru ekki þær fjárhæðir að það raski fjárhag ríkisins.