Gæludýrahald

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 14:13:51 (5509)

1998-04-15 14:13:51# 122. lþ. 104.20 fundur 644. mál: #A gæludýrahald# frv., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[14:13]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um gæludýrahald. Frv. þetta er á þskj. 1117, 644. mál þingsins og hefur verið flutt einu sinni áður hér á Alþingi ef ég man rétt. Kannski tvívegis en þá í fyrra skiptið einvörðungu til kynningar. Í hittiðfyrra var þetta mál lagt fram á þingi og fór til nefndar en hlaut þá ekki afgreiðslu.

Ég sem flm. þessa frv. hef farið yfir þær umsagnir sem bárust um frv. á 120. löggjafarþingi. Ég hef fengið erindi frá aðilum sem láta sig þessi mál varða, þar fyrir utan, og hef endurskoðað í nokkru það frv. sem þá var flutt og legg það fyrir þingið í því formi.

[14:15]

Frv. sem upphaflega var flutt um gæludýrahald vakti nokkra athygli og fékk jákvæðar undirtektir hjá mörgum sem tjáðu sig um það sem halda gæludýr og láta sig gæludýrahald varða. Fram komu þau sjónarmið m.a. á opnum fundum sem haldnir voru á vegum Dýraverndunarsambands Íslands, ef ég man rétt, til þess að kynna málið og ræða, þau viðhorf að æskilegt væri að sett yrði sérstök löggjöf um gæludýrahald. Þó að heimildir væri að finna í lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit um að setja reglur þar að lútandi á vegum sveitarfélaga þá væri ástæða til þess að um þetta gilti sérstök löggjöf þar sem tekið væri á ýmsum þeim efnum sem snerta þetta dýrahald. Það er reynt að gera með þessu frv. Markmiðið er eins og kemur fram í 1. gr., að lögfesta reglur um gæludýrahald í þéttbýli, kveða á um réttarstöðu eigenda þeirra og annarra og veita sveitarfélögum skýrar heimildir til að setja nánari reglur í samþykktir um gæludýrahald.

Það einmitt einkennir frv. að fyrir utan nokkur almenn ákvæði er gert ráð fyrir því að það sé í hendi sveitarstjórna að fylla upp í með sérstökum samþykktum.

Í 2. gr. frv. fjallað um það til hverra frv. nær og skilgreiningin á gæludýrum samkvæmt því. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Með gæludýrum samkvæmt lögum þessum er átt við hunda og ketti og önnur þau dýr sem einstaklingar halda sér til afþreyingar og hleypt er út undir bert loft um lengri eða skemmri tíma. Einnig teljast til gæludýra samkvæmt lögunum dýr af öðrum tegundum, telji heilbrigðisyfirvöld að þau geti valdið heilsutjóni eða viðlíka ama og af þeim orsökum sé rökstudd ástæða til afskipta af þeim í almannaþágu. Lögin taka ekki til búfjárhalds í þéttbýli, sbr. lög nr. 46/1991.

Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn samkvæmt lögum þessum. Sveitarstjórn er heimilt að ákveða með samþykkt, sem staðfest skal af umhverfisráðuneyti, að takmarka eða banna að haldnar séu tilteknar tegundir gæludýra í sveitarfélagi eða setja um það nánari skilyrði.``

Þá er samkvæmt 3. gr. frv. sveitarstjórn heimilt að halda skrá yfir gæludýr í sveitarfélaginu og gera grein fyrir þeim ef óskað er eftir af yfirvöldum.

Í 4. gr. eru ákvæði sem vissulega heyra til álitamála eins og fleira sem varðar þessi efni. Í 4. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Eigendur gæludýra skulu gæta þess að þau gangi ekki á annarra manna lendum og sjá til þess að dýrin valdi öðrum hvorki óþægindum né tjóni. Eiganda gæludýrs er skylt að bæta það tjón er dýrið veldur. Ef tjónþoli hefur á einhvern hátt stuðlað að því að tjón varð er heimilt að lækka bætur eða láta þær niður falla. Dýrin skulu auðkennd eða merkt eiganda sínum í samræmi við nánari ákvæði í samþykkt sveitarfélags.``

Hér er sem sagt reynt að marka þá stefnu að gæludýrahald sé heimilt innan þeirra marka sem sveitarfélag setur enda valdi þau ekki grönnum óþægindum eða tjóni. Og samkvæmt 5. gr. er heimilt að handsama gæludýr sem ganga laus utan lóðarmarka í þéttbýli og eigendur skulu greiða kostnað við töku þeirra og geymslu o.s.frv.

Þetta er meginefni frv. fyrir utan það að 6. gr. kveður á um brot gegn lögunum og í 7. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Samþykktir um hunda- og kattahald sem settar hafa verið fyrir gildistöku þessara laga halda gildi sínu brjóti þær ekki í bága við lögin.``

En lögin öðlast þegar gildi samkvæmt frumvarpstexta.

Hér eru í meginatriðum sömu ákvæði og voru í frv. sem lá fyrir þinginu í hittiðfyrra en svolitlu vikið til og í greinargerð og skýringum er að finna nokkur ákvæði fyllri þar sem tekið var tillit til ábendinga sem bárust í umsögnum um frv.

Ég held að það eigi að vera ljóst jafnsjálfsagt sem gæludýrahald er og mörgum til yndisauka að þá er nauðsynlegt að réttarstaðan í þessu máli sé sem skýrust, ekki síst fyrir þá sem halda gæludýr, að þeir viti sinn rétt og hafi sinn rétt. En einnig að ákvæðin sem varða grannaréttinn séu skýrð og kveðið á um það í löggjöf til þess að byggja á við frekari útfærslu af hálfu sveitarstjórna.

Í greinargerð með frv. er vísað til umsagna sem bárust á 120. löggjafarþingi um málið og að í flestum þessum umsögnum hafi komið fram að brýn þörf væri fyrir lagasetningu um gæludýrahald og margir fögnuðu framkomu frv.

Í nýlegum lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir er í 4. gr. að finna heimild fyrir umhverfisráðherra til að setja reglugerð um gæludýr og er það út af fyrir sig góðra gjalda vert. Með þeim lögum voru einnig felld úr gildi lög um hundahald og varnir gegn sullaveiki.

Á 117. löggjafarþingi voru samþykkt eftir langan aðdraganda ný heildarlög um dýravernd. Þau fjalla um ábyrgð manna gagnvart öllum dýrum, en þó einkum þeim sem eru í vörslu eða umsjón manna, og taka bæði til dýraeigenda og hins almenna borgara. Segja má að frumvarpið sem hér er flutt sé eðlileg viðbót við löggjöf á þessu sviði. Með því er dreginn almennur lagarammi um gæludýrahald sem sveitarstjórnum er ætlað að fylla í.

Í greinargerð er að finna upplýsingar um fjölda gæludýra að svo miklu leyti sem um það er vitað og er vísað til rannsókna sem farið hafa fram á tjóni sem rakið er til gæludýra og rannsóknir á sjúkdómum sem rekja má til gæludýrahalds. Sérstakt fylgiskjal er um það efni sem tekið er úr upplýsingum sem komu fram í blaðagrein fyrir tveimur árum.

Þess ber að geta að fram hafa farið sérstakar rannsóknir á gæludýrum og sjúkdómum sem þeim tengjast. Þar vil ég nefna alveg sérstaklega rannsóknir Helgu Finnsdóttur dýralæknis sem hefur rannsakað sérstaklega sjúkdóma í köttum og lagt fram mikilsverðar upplýsingar um það efni og niðurstöður. En það er auðvitað í allra þágu að sjúkdómar af völdum gæludýra verði ekki til tjóns og reynt verði að koma í veg fyrir þá, bæði dýranna vegna og eins vegna almannaheilla.

Hér eins og annars staðar er gæludýrahald í vaxandi mæli í þéttbýli og eins og ég gat um í upphafi míns máls er það mjög eðlilegt og hefur mikið gildi fyrir þá sem halda gæludýr og það getur haft verulegt gildi uppeldislega líka fyrir ungviði. Allir þekkja gildi þess áður fyrr þegar fólk bjó til sveita fyrst og fremst og var í nánu sambýli við húsdýr og fyrir utan dýr í hinni villtu náttúru. Gæludýrahald er auðvitað með vissum hætti svörun borgarbúans við því að þær aðstæður eru ekki lengur til staðar og til þess að lífga upp á lífið og tilveruna og sjálfsagt er að heimila slíkt dýrahald, gæludýrahald í þéttbýli, en hafa jafnframt reglur og réttarheimildir sem skýrastar þar að lútandi. Meginreglan hlýtur að vera sú að slíkt dýrahald sé velkomið á meðan það ekki veldur öðrum tjóni. Það er, má segja, leiðarljósið sem haft hefur verið við samningu þessa frv. sem ég legg til að að lokinni umræðu fari til hv. umhvn. þingsins.