Skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 17:02:29 (5511)

1998-04-15 17:02:29# 122. lþ. 104.11 fundur 304#B skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands# (munnl. skýrsla), viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[17:02]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Málefni Landsbanka Íslands hafa verið mjög til umfjöllunar að undanförnu, m.a. í þingsölum. Ég sagði í þinginu við umræðu utan dagskrár 6. apríl sl. að þegar frekari upplýsingar lægju fyrir um laxveiðimál Landsbanka Íslands hf. mundi ég gera þinginu grein fyrir þeim og það geri ég í þessari skýrslu.

Skýrsla mín skiptist í fjóra meginþætti. Í fyrsta lagi geri ég grein fyrir greinargerð Ríkisendurskoðunar til bankaráðs Landsbanka Íslands um kostnað bankans vegna laxveiðiferða, risnu og fleira og afstöðu bankaráðs Landsbankans til greinargerðarinnar sem lögð hefur verið fram með þessari greinargerð.

Í öðru lagi geri ég grein fyrir frekari skýringum bankaráðs á hinni röngu upplýsingagjöf bankans til viðskrh. að því er varðar laxveiðiferðir á vegum bankans.

Í þriðja lagi mun ég víkja nánar að spurningum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur til mín við utandagskrárumræðuna 6. apríl sl., spurningum sem mér var ekki unnt að svara fyllilega á því stigi.

Í fjórða lagi mun ég fjalla um þær breytingar sem nú hafa orðið á yfirstjórn Landsbankans.

Ef ég vík fyrst að greinargerð Ríkisendurskoðunar þá má rekja upphaf þessa máls, eins og þinginu er kunnugt, til upplýsinga um laxveiðiferðir á vegum bankans, rangrar upplýsingagjafar til ráðherra vegna þeirra og risnukostnaðar vegna bankastjóra almennt. Nú liggur fyrir greinargerð Ríkisendurskoðunar til bankaráðs Landsbanka Íslands um kostnað bankans vegna laxveiðiferða, risnu og fleira, greinargerð sem unnin var að beiðni Sverris Hermannssonar og bankaráðs Landsbankans.

Bankaráð Landsbankans hefur afhent mér greinargerðina í dag ásamt athugasemdum sínum og hef ég sent hana til forseta Alþingis. Í greinargerð Ríkisendurskoðunar koma fram ávirðingar á hendur tveimur fyrrverandi bankastjórum Landsbankans, þeim Björgvini Vilmundarsyni og Sverri Hermannssyni og athugasemdir við bókhald og skipulag bankans sem í meginatriðum má skipta í sex eftirfarandi atriði:

Í fyrsta lagi hefur, eins og hv. þingmönnum hefur þegar verið gerð grein fyrir, komið í ljós að Landsbankinn veitti mér rangar upplýsingar um laxveiðiferðir stjórnenda Landsbankans. Í greinargerð Ríkisendurskoðunar koma fram upplýsingar varðandi þetta atriði sem þegar hefur verið komið á framfæri á Alþingi og geri ég það því ekki að sérstöku umfjöllunarefni hér. Skýrslan sýnir þó að aðrar upplýsingar sem bankinn hefur veitt mér vegna fyrirspurna á Alþingi og Ríkisendurskoðun kannaði virðast hafa verið réttar.

Í öðru lagi eru í skýrslunni gagnrýnd kaup Landsbankans á veiðileyfum hjá Bálki ehf. sem er í eigu fjölskyldu Sverris Hermannssonar, fyrrum bankastjóra. Varðandi þetta atriði vil ég vitna í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta, en þar segir:

,,Athugun á þessum viðskiptum gefur ekki tilefni til að ætla annað en að verð, sem bankinn hefur greitt Bálki ehf. fyrir veiðileyfi, sé í samræmi við markaðsverð á slíkum leyfum í sambærilegum ám. Einnig skal tekið fram að viðskiptin hafa`` --- í flestum tilvikum --- ,,verið staðfest, með áritun aðalbankastjóra Landsbankans á reikninga, en ekki af Sverri Hermannssyni sjálfum. Engu að síður telur Ríkisendurskoðun afar óæskilegt vegna hættu á hagsmunaárekstrum að bankinn eigi viðskipti með þeim hætti, sem hér er lýst, við aðila svo nátengdum einum af æðstu yfirmönnum hans.``

Í þriðja lagi er í greinargerð Ríkisendurskoðunar gagnrýndur óhóflegur kostnaður vegna laxveiðiferða sem ekki hefur tekist að rökstyðja út frá hagsmunum bankans nema að hluta. Svo aftur sé vitnað í greinargerð Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta, segir þar orðrétt:

,,Eftir að hafa farið yfir fyrirliggjandi upplýsingar og skýringar er það mat Ríkisendurskoðunar, að verulegur hluti laxveiðiferða á kostnað bankans, a.m.k. þriðjungur, verði vart rökstuddur með vísan til ofangreindra sjónarmiða um viðskiptahagsmuni.`` Í mörgum tilvikum eru þátttakendur hvorki núverandi né væntanlegir viðskiptavinir bankans heldur menn sem ætla má að tengist viðkomandi bankastjórum með öðrum hætti, svo sem vegna kunningsskapar. ,,Tekið skal fram að þessi athugasemd á ekki við um ferðir á vegum Halldórs Guðbjarnasonar bankastjóra.``

Í fjórða lagi er í skýrslunni gagnrýnd önnur óútskýrð risna sem virðist tengd áfengiskaupum og annarri einkaneyslu bankastjóranna, Sverris Hermannssonar og Björgvins Vilmundarsonar, en Ríkisendurskoðun gerir ekki athugasemd við risnukostnað Halldórs Guðbjarnasonar. Ríkisendurskoðun segist ekki hafa fengið viðunandi skýringar af hálfu bankastjóranna tveggja á stórum hluta þessa kostnaðar. Rétt er að vekja athygli á yfirlýsingu Sverris Hermannssonar sem fram kemur í greinargerðinni en þar setur hann fram sínar skýringar á risnukostnaði honum tengdum.

Þá er rétt að taka fram að sökum veikinda hafði Björgvin Vilmundarson ekki tækifæri til að yfirfara ofangreind fylgiskjöl og koma á framfæri viðeigandi skýringum. Hins vegar reyndi Ríkisendurskoðun að meta þessi útgjöld með hliðsjón af risnukostnaði hinna bankastjóranna og þeim skýringum sem þeir gáfu.

Í fimmta lagi er í skýrslunni lagt mat á bifreiða- og ferðakostnað. Varðandi bifreiðakostnað leiddi sú athugun ekki til sérstakra athugasemda Ríkisendurskoðunar við kostnað vegna bifreiða bankastjóranna. Um bifreiðakostnað segir í greinargerðinni að bankastjórarnir töldu sig hafa rétt til tveggja ferða á ári ásamt maka á kostnað bankans þótt þær tengdust ekki erindrekstri á vegum bankans. Telur Ríkisendurskoðun brýnt að slík starfskjör liggi skriflega fyrir telji bankaráðið eðlilegt að bankastjórarnir njóti kjara sem þessara. Þá telur Ríkisendurskoðun skýringar á tilefni utanlandsferða ófullnægjandi og gerir alvarlegar athugasemdir við risnukostnað vegna utanlandsferða bankastjóranna og ferðakostnaðar maka.

Í sjötta og síðasta lagi vil ég víkja að athugasemdum Ríkisendurskoðunar varðandi skráningu og frágang bókhaldsgagna sem tengjast risnukostnaði Landsbankans, skattframtali sem og athugasemdum er varða endurskoðun á bókhaldi bankans. Stofnunin bendir m.a. á að við skoðun sína hafi vaknað spurningar um hvort og þá að hve miklu leyti og með hvaða hætti kostnaður sá sem hér um ræðir hafi verið færður til frádráttar á skattskyldum tekjum bankans og hvort skilyrði hafi verið uppfyllt í því sambandi. Stofnunin bendir á að eðlilegt sé að skattframtal bankans verði leiðrétt ef frádráttarbær kostnaður hefur verið oftalinn í framtali hans. Þetta þarf bankaráð Landsbankans að taka til sérstakrar umfjöllunar.

Þar sem greinargerð Ríkisendurskoðunar hefur verið dreift til þingmanna mun ég ekki fara efnislega í einstaka þætti að öðru leyti en því sem fram kemur að framan og í umfjöllun minni um tiltekin atriði á eftir.

Næst vil ég víkja sérstaklega að frekari skýringum bankaráðs á rangri upplýsingagjöf bankans til viðskrh. vegna laxveiðiferða, en bréf þess efnis hefur einnig verið sent Alþingi. Eins og ég kynnti í utandagskrárumræðu 6. apríl sl. óskaði ég eftir nánari skýringum bankaráðs á hinni röngu upplýsingagjöf bankans til mín. Bankaráðið hefur nú komið nánari skýringum á framfæri. Í þeim skýringum koma fram þrjár ástæður misræmis í upplýsingum í viðkomandi veiðiferðum.

Í fyrsta lagi hafði kostnaður vegna ferða á vegum dótturfyrirtækja ekki verið tekinn með. Í öðru lagi hafði kostnaður vegna hlutdeildarfyrirtækja og kostnaður vegna sameiginlegra ferða með öðrum bönkum ekki verið tekinn með. Í þriðja lagi hafði ýmis kostnaður verið vantalinn, kostnaður vegna veiðiferða sem yfirstjórn bankans tók ekki þátt í og nánar tiltekinn kostnaður sem bókfærður hafði verið á tiltekin útibú bankans.

Um svör við öðru misræmi í svörum bankans vísar bankaráð til greinargerðar Ríkisendurskoðunar. Fram kemur að venjan sé sú að öll veigameiri upplýsingagjöf til opinberra aðila sé yfirfarin af innri og ytri endurskoðendum bankans áður en bakinn sendi hana frá sér. Í þessu tilviki virðist ekki hafa verið talin þörf á slíkri yfirferð. Það er mat bankaráðsis að það séu ekki ásættanleg vinnubrögð.

Það er mitt mat einnig, með vísan til þeirrar umfjöllunar sem nú hefur átt sér stað um málið, að þessar skýringar séu nægjanlegar.

Í utandagskrárumræðu 6. apríl sl. um ranga upplýsingagjöf Landsbankans beindi hv. málshefjandi til mín nokkrum spurningum um málið. Leitaði ég svara við þeim á grundvelli upplýsinga sem ég hafði undir höndum. Hins vegar var mér ekki unnt að svara öllum spurningum eins og ég hefði viljað þar sem ég beið enn skýringa. Nú hef ég hins vegar fengið frekari upplýsingar og vil af því tilefni taka fram nokkur atriði.

Hv. þm. spurði hvort ég teldi að bankaráð Landsbankans hefði brotið gegn starfsskyldu sinni í laxveiðimálinu varðandi eftirlit með risnu-, ferða- og bifreiðakostnaði. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef nú undir höndum liggur það fyrir að bankaráðið hafi ekki brugðist starfsskyldum sínum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er ekki að finna slíkar athugasemdir við starfsemi þáverandi þingkjörins bankaráðs ríkisviðskiptabankans. Vakin er athygli á skýringum bankaráðs á hlutverki sínu og ábyrgð sem fram kemur í athugasemdum sem fylgja greinargerð Ríkisendurskoðunar og hefur verið dreift til þingmanna.

Ég vil einnig að það komi skýrt fram að ég tel að núverandi bankaráð hafi haldið á þessu máli af ábyrgð og festu eftir að það kom upp. Það hefur leitast við að varpa eins skýru ljósi á þetta mál og nokkur kostur er. Þannig kom það réttum upplýsingum á framfæri um leið og ríkisendurskoðandi hafði greint þeim frá því að fyrri upplýsingar væru rangar, óskaði viðbótarathugana af hálfu ríkisendurskoðanda og hefur nú komið nánari skýringum á framfæri. Þá hefur bankaráðið nú horft til framtíðar með ráðningu nýs aðalbankastjóra.

Þá spurði hv. þm. hvort eftirliti endurskoðunardeildar bankans, kjörinna endurskoðenda eða bankaeftirlits hafi verið ábótavant. Það er mat ríkisendurskoðanda að skort hafi á að eftirlitsaðilar hafi sinnt eftirlitsskyldu sinni gagnvart viðskrh. og bankaráði varðandi eftirlit með kostnaðarliðum sem eru til umfjöllunar í skýrslunni. Það ber að taka skýrt fram að með undirbúningi að stofnun hlutafélags um bankana var stjórnskipulag bankans skýrt verulega frá því sem var á þeim tíma þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar er tekin saman. Undirbúningsnefnd um stofnun hlutafélags lagði á það ríka áherslu að tryggja sjálfstæði innri endurskoðunardeildar gagnvart bankastjórn en stjórnskipulag bankans hafði ekki verið nægjanlega skýrt með tilliti til þessa. Ég tel því, að því er innri endurskoðunardeildina varðar, að nú hafi orðið þar breytingar frá þessu tímabili sem hér er til umfjöllunar.

Bankaráðið hefur jafnframt gert mér grein fyrir að það hafi ákveðið að gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja að upplýsingar sem bankanum beri að veita opinberum aðilum um rekstur sinn séu yfirfarnar og staðfestar af innri endurskoðanda sem beri ábyrgð í þeim efnum. Þannig verði valdsvið innri endurskoðanda skýrt og sjálfstæði hans gagnvart bankastjórn tryggt enn frekar. Þá verði lagður af sá háttur að halda risnu og ferðabókhaldi utan fjárhagsdeildar sem fer með almennt bókhald bankans.

Ég vil að síðustu ítreka í þessu sambandi að ég tel miklar breytingar hafa orðið til batnaðar samhliða breytingum á rekstrarformi bankans að því er varðar kostnaðareftirlit og endurskoðun í því sambandi. Nefna má að stjórnskipulag hefur verið skýrt auk þess sem settar hafa verið reglur um risnukostnað og greiðslu kostnaðar vegna ferðalaga bankastjóra eins og þinginu hefur áður verið gerð grein fyrir. En vitaskuld má alltaf gera betur og ég tel að stjórnendur bankans muni hafa vakandi auga fyrir þessum atriðum í framtíðinni.

Ég vil að lokum víkja að þeim breytingum sem nú hafa orðið á yfirstjórn bankans.

[17:15]

Óþarfi er að rekja í löngu máli atburði síðustu tveggja sólarhringa í þeim efnum. Ítarlega hefur verið fjallað um þau mál í fjölmiðlum. Björgvin Vilmundarson aðalbankastjóri, Sverrir Hermannsson bankastjóri og Halldór Guðbjarnason bankastjóri hafa hætt störfum við bankann. Í athugasemdum bankaráðs við greinargerðina kemur fram að Jóni Steinari Gunnlaugssyni hæstaréttarlögmanni hafi verið falið að kanna réttarstöðu bankans að því er varðar hugsanlegar endurkröfur á hendur bankastjórunum.

Bankaráðið hefur ákveðið að ráða Halldór J. Kristjánsson í starf aðalbankastjóra. Þeir sem þekkja til verka Halldórs geta vitnað um hæfni hans sem stjórnanda og til þess að leiða erfið mál til lykta. Ég tel því að vel hafi verið ráðið í starf aðalbankastjóra Landsbankans á erfiðleikatímum í starfi bankans. Mitt mat er að þessar breytingar hafi tekist vel til. Ég tel að óhjákvæmilegt hafi verið að gera þessar breytingar eins og málum var komið. Ég fagna sérstaklega því að bankastjórarnir skuli sjálfir hafa haft frumkvæði að því að víkja til hliðar í því skyni að tryggja hagsmuni bankans til framtíðar.

Herra forseti. Ég tel að nú hafi skapast aðstæður til þess fyrir Landsbankann að efla hag sinn og ímynd og að ná betri árangri í rekstri sínum en áður. Með því eykst samkeppni á hinum íslenska fjármagnsmarkaði en við þurfum einmitt á því að halda ef við ætlum að telja okkur í hópi velmegandi þjóða.