Skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 17:50:31 (5516)

1998-04-15 17:50:31# 122. lþ. 104.11 fundur 304#B skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands# (munnl. skýrsla), SighB
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[17:50]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Vissulega eru það alvarleg tíðindi sem hér hafa verið að gerast. Greinargerð Ríkisendurskoðunar staðfestir að Alþingi var sagt rangt frá. Hún staðfestir að við stærsta banka þjóðarinnar höfðu stjórnendur komið sér upp sjálftökukerfi. Hún staðfestir að þeir sem áttu að hafa eftirlit með starfsemi bankans, bæði innra eftirlit og ytra eftirlit, brugðust hlutverki sínu. Hún staðfestir einnig að æðsta stjórn bankans, bankaráð og ráðherra, hefðu mátt haga störfum sínum með nokkuð öðrum hætti og sinna eftirlitsskyldu sinni betur.

Þetta mál er hins vegar ekki búið, það er alveg ljóst. Ríkisendurskoðun tekur sjálf fram að enn hafi hún ekki lokið umfjöllun um ýmis atriði svo sem ferðakostnað og enn hafi hún ekki fengið skýringar á ýmsum athugasemdum sem hún hefur gert. Því vænti ég þess fastlega að hæstv. viðskrh. muni upplýsa Alþingi um framhald málsins.

En það eru ýmsar spurningar sem einnig rísa þó að takmarkaður tími sé til að fjalla um þær. Í áliti Ríkisendurskoðunar kemur fram eins og ég sagði áðan að bæði innra og ytra eftirlitið hefur brugðist. Innra eftirlitinu er stjórnað af yfirmanni sem ráðinn er af bankaráðinu sjálfu og ber ábyrgð gagnvart því en ekki bankastjórninni og verður ekki betur séð af áliti Ríkisendurskoðunar en hann hafi brugðist eftirlitsskyldu sinni og skyldu sinni við bankaráðið. Því spyr ég: Hefur verið gerð breyting hér á?

Það kemur líka í ljós í skýrslu Ríkisendurskoðunar að ytra eftirlitið hefur brugðist. Það eftirlit er í höndum tveggja aðila, endurskoðanda, sem ráðinn er til starfa af viðskrh., og Ríkisendurskoðunar sjálfrar. Ég spyr: Hefur hæstv. viðskrh. sem ræður annan aðilann til starfa gert einhverjar breytingar þar á? (Viðskrh.: Ekki lengur.) Eftir niðurstöðu Ríkisendurskoðunar þar sem Ríkisendurskoðun segir að þessi aðili, sem á að sinna ytra eftirliti og starfar á vegum ráðherra, hafi brugðist ráðherranum, hefur ráðherrann þá gripið til viðeigandi ráðstafana?

Ég spyr ráðherrann einnig í lokin: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að tryggja að það áfall sem ríkisbankakerfið hefur orðið fyrir og það vantraust sem þetta kerfi býr nú við hjá almenningi í landinu verði betrumbætt? Ríkisstjórnin ein getur gripið til þeirra ráðstafana sem nægja til að endurvekja traust almennings á þessu kerfi. Til hvaða ráðstafana mun hún grípa?