Skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 17:54:05 (5517)

1998-04-15 17:54:05# 122. lþ. 104.11 fundur 304#B skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[17:54]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Af þessu máli þarf að draga lærdóma og ætla ég að vekja máls á þremur atriðum. Þau eru samtvinnuð og snerta stjórnsýsluna, pólitíkina og peningana.

Í fyrsta lagi er nú deginum ljósara að Ríkisendurskoðun og hugsanlega fleiri sjálfstæða rannsóknaraðila á vegum Alþingis ber að efla. Ríkisendurskoðun hefur sýnt vönduð vinnubrögð í þessu máli og sannast hefur gildi þess að Alþingi geti leitað til aðila sem eru sjálfstæðir gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Í öðru lagi hefur þetta mál sýnt brotalöm í samskiptum framkvæmdarvaldsins og Alþingis en þar hefur skort aðhald en aðhaldið gerir tvennt í senn: Dregur úr hættu á misnotkun og spillingu og stuðlar að því að gera menn ábyrga orða sinna og gerða í stjórnkerfinu. Í þessu sambandi vil ég ítreka það sem ég sagði þegar Landsbankamálið kom áður til umræðu á Alþingi að rangar og villandi upplýsingar í því máli ættu að verða okkur tilefni til að taka fleiri mál til skoðunar þar sem ætla má að gefnar hafi verið misvísandi upplýsingar. Sá hinn sami hæstv. ráðherra, Finnur Ingólfsson, sem varð það á að fara með rangar staðhæfingar um laxveiðar bankastjóra Landsbankans, svaraði hér í þinginu fyrir fáeinum vikum fyrirspurn um afleiðingar af einkavæðingu rafmagnseftirlitsins í landinu. Ráðherrann flutti þinginu þann boðskap að allt væri þar í himnalagi og ásakanir og gagnrýni um bruðl með almannafé og að eftirlitið væri í molum ætti ekki við nokkur rök að styðjast.

Margt bendir til að hið sama hafi gerst í því máli og í bankamálinu nú að þeir aðilar sem gagnrýndir voru hafi undirbúið svar ráðherrans, með öðrum orðum eigin málsvörn sem jafnframt þjónaði þeim tilgangi að styrkja pólitíska óskhyggju ráðherrans án þess að hann gerði nokkuð til að kalla til óvilhalla aðila og er kominn tími til að svo verði gert, enda mun það vera til umræðu nú í iðnn. þingsins.

Þriðja atriðið sem ég ætla að nefna er að gagnvart ríkisbönkunum hafa fulltrúar almennings brugðist. Það hefur sýnt sig í þessu máli. En það er mikilvægt að gleyma því ekki að á meðan fjármálastofnanir eða aðrar mikilvægar samfélagsstofnanir eru í almannaeign og undir almannastjórn er hægt að gera kröfur um upplýsingar og allt sem snertir stefnumótun og ráðstöfun fjármuna. Með hlutafélagavæðingu og einkavæðingunni eru kastljós opinberrar skoðunar hins vegar dempuð og við tekur viðskiptaleyndin eins og feluleikurinn heitir á fínu máli. Einkavæðingin dregur þannig úr aðhaldi auk þess sem hún flytur til fjármagn og það hefur verið gert í milljarðavís á þessum áratug án þess að fá verðskuldaða umræðu í þjóðfélaginu.

Að lokum þetta, herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu ber vott um hroka, það ber vott um siðblindu og ótrúlega spillingu, enda er andrúmsloftið í landinu rafmagnað. Hafa menn hugleitt líðan þeirra sem hafa ekki peningaráð til að framfleyta sér og sínum þegar þeir skoða þessa (Forseti hringir.) sukkreikninga yfirstéttarinnar? Laxamálið er siðferðilegt stórmál og það er peningalegt stórmál. Efnahagslega er það hins vegar smátt í sniðum sé það skoðað í ljósi þeirrar eignatilfærslu sem átt hefur sér stað í landinu með einkavæðingu undangenginna ára. (Forseti hringir.) Það er löngu tímabært að snúa af þessari braut og þau mál sem hér eru til umræðu ættu að verða okkur að kenningu um nauðsyn þess að stuðla að lýðræðislegu og opnu samfélagi (Forseti hringir.) í stað þess að færa það á bak við lokuð tjöld með hlutafélaga- og einkavæðingu.

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að gæta tímans því margir eru á mælendaskrá.)