Skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 18:13:50 (5522)

1998-04-15 18:13:50# 122. lþ. 104.11 fundur 304#B skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands# (munnl. skýrsla), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[18:13]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það eru vissulega tímamót að bankastjórar Landsbankans hafa axlað þá ábyrgð sem þeir báru og sagt störfum sínum lausum. En það eru fleiri sem bera ábyrgð í Landsbankamálinu. Bankaráðið ber þar ábyrgð og greinargerðin sem liggur frammi frá þeim er kattarþvottur. Ráðherra bankamála, hæstv. viðskrh., ber einnig ábyrgð.

Það er ástæða til að minnast á dótturfyrirtæki bankans. Hæstv. forsrh. benti í fjölmiðlum réttilega á mun meiri áföll sem dunið hafa á Landsbankanum en laxamálið þar sem bankinn hefði tapað stórfé við gjaldþrot sem lent hafa á bankanum. Hann nefndi á Stöð 2 10. apríl sl. gjaldþrot fjármögnunarfyrirtækisins Lindar og upplýsti að gjaldþrot þess dótturfyrirtækis Landsbankans hafi kostað hann og um leið almenna skattgreiðendur 1 milljarð eða svo eins og hann sagði orðrétt sem væri hlutfallslega eins og Barings bankamálið á sínum tíma. Forsrh. sagði einnig að þetta mál hefði einhverra hluta vegna ekki vakið mikla athygli.

[18:15]

Herra forseti. Það var vissulega reynt að kalla fram upplýsingar og viðbrögð við þessu mesta útlánatapi Landsbankans. Þann 6. mars 1996 óskaði ég eftir upplýsingum í þingsölum um þetta stærsta tap Landsbankans frá stofnun hans sem þá var talið samkvæmt upplýsingum fjölmiðla vera 600 milljónir. Það var í fyrirspurn til hæstv. viðskrh. og ég spurði einnig hvort bankastjórar og yfirmenn fyrirtækisins yrðu látnir sæta ábyrgð.

Fátt var um svör hjá hæstv. viðskrh. um útlánatapið og ábyrgð stjórnenda. Hæstv. viðskrh. sem er ábyrgur fyrir bankamálum gerði lítið úr öllu saman, máli sem fyrrverandi bankastjóri Sjálfstfl. í Landsbankanum kallar í Morgunblaðinu í dag ,,skelfilegt mál og greinilegt spillingarmál, eins og þau mál gerast verst``, með leyfi forseta.

Voru þessir hálauna embættismenn sem kostað hafa skattgreiðendur einn milljarð í útlánatapi í Landsbankanum látnir bera ábyrgð? Nei. Yfirmaður Lindar bar ekki meiri ábyrgð en svo að hann var fljótlega eftir milljarðsgjaldþrotið kominn í gott starf í utanrrn. og er nú á leið utan sem sendifulltrúi íslenska ríkisins í Genf. Og stjórnarformaðurinn, þá einn af bankastjórum Framsfl. í Landsbankanum, var þar áfram þrátt fyrir þetta en samkvæmt hlutafélagalögum er ábyrgð stjórnarformanna mjög mikil í svona málum. Þó svo að Ríkisendurskoðun telji í skýrslu sinni að hann hafi verið innan marka í laxaspillingarmálinu þá skrifaði hann þó undir bréf með röngum upplýsingum til viðskrh. um laxveiðikostnað sinn og hinna bankastjóranna og þar skeikar á þriðja tug milljóna. Það eru þokkaleg skilaboð frá æðsta manni banka að undirskrift sé ekkert að marka eins og hann sagði, bara formsatriði eða hefð.

Herra forseti. Hún er víða, spillingin í opinbera kerfinu og löngu tímabært að menn axli þá ábyrgð sem þeir eru kjörnir til eða ráðnir til að bera. Siðvæðingar er vissulega þörf. Í kjölfar þessarar umræðu þarf að ræða hvaða reglur og hefðir við viljum hafa í samfélaginu um afsögn og ábyrgð. Þjóðin lætur ekki bjóða sér þetta lengur.