Skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 18:17:25 (5523)

1998-04-15 18:17:25# 122. lþ. 104.11 fundur 304#B skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands# (munnl. skýrsla), HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[18:17]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur farið hátt undanfarið í þjóðfélaginu og gerir enn. Það er hiti í því og tilfinningar. Hér hafa fallið stór orð. Ég held að rétt væri að spara sér sem mest stóru orðin meðan svona erfitt er að sjá til og bíða eftir því að rykið setjist svo að hægt sé að fara að tala um næstu skref í málunum.

Reynslan kennir að svona mál koma upp með miklum látum. En svo líður tíminn og þau gleymast og skilja alla jafna lítið eftir sig, það helst að nokkrir einstaklingar og fjölskyldur eiga erfiðara líf en áður en ekkert breytist í meginatriðum.

Það sem mér virðist koma í ljós í þessu máli er ekki það að bankamenn hafi veitt lax. Það vissu allir. Það er ekkert nýtt. Það er annað sem er nýtt, merkilegt og athyglisvert. Það er eins og réttlætiskennd sé að festast í sessi með nýjum hætti. Þjóðfélagið er vissulega orðið opnara og gegnsærra. Það er hægt að skoða málin betur mörg hver. En réttlætiskenndina þarf að treysta í sessi með reglum.

Ég er sannfærður um að enginn þeirra manna sem sagði upp störfum í Landsbankanum í fyrradag er slæmur maður. En við getum ekki byggt opinbert siðferði á mannkostum einum saman. Það þarf að styrkja stjórnsýsluna með því að innleiða skýrari og almennar siðareglur. Bæði styrkist við það ytra aðhald og innra, það sem kemur frá stofnunum sjálfum.

Mér er kunnugt um og það er ágætt að geta haft tækifæri til að segja frá því hér, að Siðfræðistofnun háskólans hyggst hrinda af stað könnun á siðferði í opinberu lífi bæði hérlendis og í nágrannalöndunum, á því hvaða reglur séu í gildi og hvað þurfi og geti betur farið. Mér er kunnugt um það líka að Nýsköpunarsjóður háskólans mun styrkja verkefnið og væntanlega einnig sjálf Ríkisendurskoðun. Þetta gefur eiginlega vonir um að eitthvað gerist til lengri tíma litið. Við erum lítil þjóð sem á að geta búið við skýrar leikreglur þannig að jöfnuður ríki. Með þessu móti er siðbótartal ekki vopn í tímabundinni orrahríð heldur viðleitni til að byggja upp varanlegt lýðræði og réttlæti í samfélaginu. Það má ekki nota ásakanir um siðferðisbresti sem vopn til að ná sér niðri á andstæðingum sínum.

,,Förum við vel með okkar vald?`` spurði hv. þm. Pétur H. Blöndal áðan. Það er réttmætt og nauðsynlegt að við spyrjum okkur þess einnig á þingi. (Forseti hringir.) Og það vantar kannski að einhver segi hér, þó enginn sé verðugur þess og ekki ég frekar en aðrir: Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.