Hlutafélög

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 10:53:36 (5534)

1998-04-16 10:53:36# 122. lþ. 105.1 fundur 634. mál: #A hlutafélög# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[10:53]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Sú hugsun sem hér er sett fram í frv. til laga um breytingu á lögum um hlutafélög er gömul og út af fyrir sig góð og gild svo langt sem hún nær. Ég óttast að það fyrirkomulag sem þarna er vísað til veki meiri vonir en innstæða er fyrir. Auðvitað kann það að vera misjafnt eftir aðstæðum hversu miklum áhrifum er hægt að ná í gegnum það fyrirkomulag sem hér er lagt til, þ.e. að fulltrúar starfsmanna hlutafélaga eða fyrirtækja fái aðild að stjórnum þeirra.

Í þessu sambandi vildi ég sérstaklega vekja athygli á þeim gerbreyttu aðstæðum sem skapast hafa á undanförnum árum. Þær má svo sem rekja nokkuð langt til baka en ber þó á þeim í vaxandi mæli. Þær tengjast tökum fjármagnseigenda á atvinnulífi að því er snýr að starfsmönnum. Þar er ég sérstaklega að vísa til þeirrar svokölluð hnattvæðingar sem felst í algerri opnun fyrir fjármagnsflutninga heimshorna á milli og þar er um gerbreyttar aðstæður að ræða frá því sem var fyrr á öldinni. Hinar nýju aðstæður auðvelda fjármagnseigendum gífurlega, frá því sem var, viðskiptin við seljendur vinnuaflsins. Þær breytingar sem þarna eru í gangi hafa nú þegar gjörbreytt aðstæðum til hins verra fyrir starfsfólk og af þeim sökum má segja að allt sem lýtur að því að styrkja aðstöðu starfsmanna á einhvern hátt sé af hinu góða.

Varðandi hnattvæðingu fjármagnsins þá sjá menn margvíslegar afleiðingar hennar. Það birtist m.a. í því að launum og kjörum er þrýst niður, í víðtækum skilningi, hjá launafólki nánast um allan heim. Hin frjálsa för fjármagnsins hefur ekki nein landamæri lengur. Alþfl. átti nú drjúgan þátt í því að afnema þær hindranir sem voru varðandi fjármagnsflæði inn og út úr þessu landi. Viðskrh. Alþfl. afnam það með einni reglugerð 1990, ef ég man rétt, það síðasta sem eftir stóð. Þetta var síðan innsiglað með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem er hluti af hnattvæðingu fjármagnseigendanna.

Þetta birtist í því, virðulegur forseti, að rauntekjur fólks, ekki í Evrópu en mjög víða, t.d. í Norður-Ameríku, hafa færst niður á sama tíma og framleiðni í atvinnurekstri hefur aukist. Þau tök verkalýðsfélaga í hinum iðnvædda hluta heimsins voru allsterk en hafa veikst það mikið að það er langt frá því að launafólkið haldi í sinn hlut af skiptingu arðsins af atvinnurekstrinum, þó það hafi tekist hér áratugina áður. Fyrir þessu liggja upplýsingar, m.a. hjá Alþjóðabankanum sem hefur safnað upplýsingum um þessi efni og auðvitað kemur þetta skýrt fram á vegum einstakra þjóðríkja.

Við erum á hraðferð í þessum breytingum sem er engan veginn séð fyrir endann á. Það sem vonir standa til að geti þó fylgt og verið sárabót í þessum efnum er að jafnhliða fjármagnsflutningum til þróunarríkja nái fyrirtæki sem þar eru að koma sér fyrir að hagnast af hræbillegu vinnuafli sem þar er í boði. Mikið af því sem er að gerast í sambandi við fjölþjóðfyrirtækin felst í því að þau koma sér fyrir á annarri slóð en þar sem vinnuaflið er dýrast. Þessar breytingar hafa hins vegar ekki orðið til þess að staða launafólks í þróunarríkjum hafi batnað til neinna muna. Því miður eru ekki horfur á því að menn komi þar undir sig fótunum til þess að verjast því arðráni sem er í fullum gangi, róttækara en við höfum áður séð.

[11:00]

Þessar aðstæður hafa þegar barið að dyrum hér á landi, þó ekki með sama þunga og sums staðar erlendis. Bandaríki Norður-Ameríku eru auðvitað það ríki sem í iðnvædda hluta heimsins þar sem kapítalið hefur komist lengst með launafólkið sem eltir atvinnutækifærin er réttindalítið eða réttindalaust og býður niður vinnu sína vegna þess að verkalýðsfélög eru þar mjög veikburða og ná ekki að skjóta skildi fyrir verkafólkið. Þetta hefur leitt til þess að í Bandaríkjunum hefur atvinnuleysi m.a. verið minna en í Evrópu af þeim sökum að menn bjóða vinnuafl sitt á lægri kjörum en áður og færa sig miklu meira til en annars staðar og þetta er hluti af hnattvæðingunni sem á eftir að berja að dyrum hér eins og horfir með auknum þunga einnig hér á landi og gerir launafólkinu mun örðugra fyrir í baráttunni við fjármagnseigendur og eigendur og ráðamenn fyrirtækja en áður var.

Ég óska hv. flutningsmönnum þessa máls alls hins besta í viðleitninni til þess að styrkja, þó með veikum hætti sé, stöðum launafólks inni í stjórnum fyrirtækja. Það fær þá kannski upplýsingar um stöðuna áður en því er húrrað út og rekið á dyr þar eins og gerist í auknum mæli með uppsögnum og meira að segja í opinberum fyrirtækjum sem verið er að einkavæða. Þar þekkja menn hvernig gengið er að starfsfólkinu. Það sem er aðalatriðið hér og ég vil leggja áherslu á að lokum er þessi stórfellda breyting hin allra síðustu ár til að veikja stöðu launafólks á heimsmælikvarða og ekki síst í hinum þróuðu ríkjum heimsins sem horfir til mikils ófarnaðar að mínu mati því að til hvers er þessi brjálaða samkeppni sem haldið er uppi? Hverju á hún að þjóna? Þar sem í leiðinni er gengið á auðlindir jarðar með þeim hætti sem við þekkjum og umhverfi jarðar stafar mikil hætta af. Þetta er mikil hættuslóð og ef áhrif verkalýðshreyfingar og starfsmanna mættu styrkjast til þess að andæfa gegn þessu er það sannarlega vel.