Réttarfarsdómstóll

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 11:19:03 (5537)

1998-04-16 11:19:03# 122. lþ. 105.3 fundur 656. mál: #A réttarfarsdómstóll# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[11:19]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson flytur mál sem hann hafði boðað að hann mundi koma með fram á þinginu í kjölfar þess að Hæstiréttur hafnaði endurupptöku á máli Sævars Ciesielskis og ég þakka hv. þm. fyrir það. Hér er hið merkasta mál flutt fram. Enda þótt það byggist á einu sértæku atriði sem hefur hent í réttarsögunni er málið þó miklu stærra en að hægt sé að láta það nema við eitt tiltekið atvik.

Hv. þm. bendir réttilega á það í máli sínu að nauðsynlegt sé að Hæstiréttur njóti víðtæks trausts. Ég er sammála honum um það. Þess vegna ríður á miklu að hann sé ekki settur í þá stöðu að það sé með einhverjum hætti hægt að varpa rýrð á störf hans. Ég tel hins vegar óhjákvæmilegt þegar málum er svo háttað í dæmum eins og þessum að þá felur aðkoma Hæstaréttar í rauninni í sér að hann er að dæma í eigin málum, hann er að kveða upp úrskurð í eigin málum. Við slíkar aðstæður er ekki hægt að segja að niðurstaðan sé hafin yfir gagnrýni.

Þess vegna hygg ég að það sé mjög mikilvægt að fara þá leið sem hv. þm. leggur hér til, þ.e. settur sé á stofn sérstakur réttarfarsdómstóll sem mun hafa það með höndum að fjalla um kröfur sem koma fram um að opinber mál verði tekin upp á nýjan leik. Þá yrði Hæstiréttur í rauninni losaður við það slaverí að þurfa að fella úrskurð í eigin málum eins og núna háttar til.

Við þekkjum öll tilurð málsins. Málið tengist einum mesta og alvarlegasta atburði í dómsögu síðari ára, þ.e. Geirfinns- og Guðmundarmálunum. Hvernig sem þeim málum var háttað á sínum tíma er alveg ljóst að þau kurl voru ekki öll til grafar tínd. Ég minni t.d. á það, herra forseti, að ekki er langt síðan að roskinn rannsóknarlögreglumaður, sem hafði yfirumsjón með stórum hluta rannsóknarinnar á Geirfinnsmálinu, sagði í viðtali við Morgunblaðið að hvernig sem atburðirnir hefðu gerst væri alveg ljóst af rannsókn málsins að þeir hefðu ekki gerst með þeim hætti sem dómur byggði úrskurð sinn á. Það skiptir auðvitað verulega miklu máli, herra forseti, þegar menn ræða þetta mál. Ég held að það hafi komið fram á seinni árum, m.a. í heimildarþætti sem Sigursteinn Másson gerði og sýndur var í Ríkissjónvarpinu, að margar af þeim ásökunum sem Sævar Ciesielski bar fram á hendur réttarkerfinu höfðu við rök að styðjast. Ég hika ekki við að fullyrða að það sem í ljós kom um harðræðið gagnvart Sævari Ciesielski stappar mjög nærri því að vera pyndingar, ekkert annað. Menn vissu til að mynda að Sævar Ciesielski var vatnshræddur maður og hvað var gert við hann? Það voru hafðir í frammi drekkingartilburðir við hann í fangelsinu, það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Hann sætti jafnframt barsmíðum í viðurvist vitna eins og fram kom.

Ég verð að segja það, herra forseti, að þær ásakanir sem Sævar Ciesielski bar fram á sínum tíma reyndust hafa við rök að styðjast og það vekur auðvitað spurninguna: Ef þetta var rétt hjá honum var þá ekki ýmislegt fleira rétt? A.m.k. voru nýju upplýsingar sem komu fram í málinu þannig að ég sjálfur er þeirrar skoðunar að það hefði verið afar farsælt fyrir dómskerfið í landinu og fyrir samfélagið í heild að málið yrði tekið upp aftur. Ég held að það sé alveg ljóst að niðurstaðan sem Hæstiréttur komst að á sínum var ekki rétt, ég hika ekki við að fullyrða það. Ég tek mér í munn, herra forseti, orð eins hinna dæmdu, séra Guðjóns Skarphéðinssonar, sem sagði: ,,Galdramennirnir játuðu líka.``

Það er alveg nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir eitthvað svipað í framtíðinni, til að koma í veg fyrir að það sé ekki hægt að uppræta mál fyllilega, þegar það koma fram nýjar upplýsingar í þeim, að þá sé til einhver leið til þess að taka málin upp aftur. Það hefur komið í ljós að lögunum er áfátt að þessu leyti og þess vegna er flutt þetta frv. til laga um sérstakan réttarfarsdómstól. Frv. mun gera það að verkum, ef það verður að lögum, að það verður miklu auðveldara að fjalla um kröfur um endurupptöku opinberra mála. Ég fagna þess vegna frv. og ég segi eins og hv. þm. Svavar Gestsson: Hér er um það mikið nýmæli að ræða að vafalaust þarf talsverðan tíma fyrir þingheim til að skoða þetta. Ég held að það sé rétt að menn gefi sér þann tíma en ég mæli með því þegar þing kemur saman aftur að loknu sumri að þetta mál verði lagt fyrir þing aftur og reynt að gera það að lögum á því þingi.