Réttarfarsdómstóll

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 11:24:02 (5538)

1998-04-16 11:24:02# 122. lþ. 105.3 fundur 656. mál: #A réttarfarsdómstóll# frv., Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[11:24]

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir góðar undirtektir við málið. Það er alveg rétt sem hann segir að ég reikna með því að þetta þurfi einhvern tíma. Ég hef lært það á langri þingsetu að temja mér þolinmæði en það má samt ekki vera allt of langur tími því að það er eiginlega alveg til skammar að hafa það kerfi að t.d. Hæstiréttur verði sjálfur að kveða upp úrskurð í eigin málum.

Ég ætla svo sem ekki að vera að þreyta þingheim á löngum ræðum um þetta mál, Guðmundar- og Geirfinnsmál sem er upphafið að þessu öllu saman, en það er alveg hræðilegt mál. Það er umhugsunarefni fyrir þingið og þjóðina að svona mál skuli hafa komið upp með þeim hætti sem það gerðist. Það var ekki þinginu til sóma hvernig það tók á þessu máli, ef hægt er að tala um að það hafi tekið á málinu á sinni tíð. Málið varð því miður bitbein pólitískra átaka í stað þess að reynt væri að fella málið inn í sanngjarnan, faglegan farveg strax í upphafi og það tel ég að hafi bitnað á þessu fólki, m.a. þeim manni sem óskaði eftir endurupptöku máls síns, þ.e. Sævars Ciesielskis, í fyrrasumar.

Ég vil misnota aðstöðu mína, herra forseti, til hvetja þingmenn til að lesa bók Þorsteins Antonssonar, sem heitir Réttur er settur, og er 500 síðna doðrantur um þessi mál þar sem tekið er mjög rækilega á þeim og sýnt fram á hvernig með þessi mál var farið. Hvað sem öllu öðru líður þá er ég algerlega sannfærður um að það var ekki nógu vel að þessum málum staðið af hálfu íslenska réttarkerfisins. Ég er algerlega sannfærður um að það er ekki of mikið sagt að segja að það er ekki réttarþjóðfélag sem lýkur máli eins og við gerðum í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum á sínum tíma, það er ekki réttarþjóðfélag. Þess vegna er brýnt að taka á málinu. Þess vegna flutti ég þetta frv., skrifaði þetta frv., og þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir góðar undirtektir.