Réttarfarsdómstóll

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 11:26:15 (5539)

1998-04-16 11:26:15# 122. lþ. 105.3 fundur 656. mál: #A réttarfarsdómstóll# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[11:26]

Össur Skarphéðinsson:

Það er auðvitað rétt hjá hv. þm. að það var réttarríkinu til vansa hvernig á þessum málum var tekið. Hann rifjar það upp að málið hafi komið til kasta þingsins einhvern tíma fyrr á öldinni. Nú vill það svo til að það er einhver örlítill áramunur á okkur hv. þm. þannig að ég fylgdist ekki svo grannt með því, ég var ekki alveg kominn til þess pólitísks vits og þroska sem ég vænti að við getum fallist á að ég sé nú kominn til. En hitt verð ég að segja að ekkert mál sem ég man eftir hefur kastað jafnlöngum skugga yfir jafnmörg ár og þetta. Eiginlega má segja að þetta mál hafi kannski haft veruleg áhrif á tvær kynslóðir sem hafa vaxið upp og ég held að allir sem hafa komið að málinu, kynnt sér það með einhverjum hætti, séu sammála um að niðurstaða dómstólanna var ekki hin rétta. Vel má vera að það unga fólk sem lenti í þessu skaðræði hafi orðið sekt um einhvers konar glæp en það er alveg ljóst að það bar ekki sökina á þeim hræðilegu glæpum sem það var dæmt fyrir. Játningar lágu fyrir vissulega en ég ítreka aftur þau orð sem einn sakborninga sagði: Galdramennirnir játuðu líka.

Þegar réttarríkið svokallaða fer með fólk eins og farið með þessa vesalings einstaklinga, sem var haldið í einangrun mánuðum saman, fengu ekki að sjá nokkurn mann, fengu ekki að fylgjast með fréttum, varla að lesa, var hrellt með margvíslegum tilburðum sem virtust beinlínis miða að því að brjóta niður sálarþrek þess, við hverju eiga menn að búast? Það vill svo til að Íslendingar eiga einhvern frægast réttarsálfræðing sem nú er starfandi, hann er sérfræðingur í málum af þessu tagi. Hann hefur farið aftur og aftur nákvæmlega í mál af þessu tagi og sýnt fram á að þessi umbúnaður sem fólki er búinn leiðir til þess að það er hægt að toga út úr því hvaða játningar sem er.

Ég tel mikilvægt að við drögum einhvern lærdóm af þessu máli. Við höfum ekki gert það, við höfum aldrei gert þetta mál upp innan samfélags okkar. En nú er hv. þm. og þeir sem styðja þetta mál þó að reyna að draga lærdóm af því og þar með að kvitta fyrir að vissu marki fyrir hönd samfélagsins. Ég tel að það sé nauðsynlegt. Menn geta þá sagt að til einhvers hafi þetta þó verið ef það verður til þess að þessir atburðir geti ekki orðið aftur. Ef frv. hv. þm. verður að lögum þá tel ég að það sé a.m.k. búið að skapa farveg til þess að gera endanlega upp við svona mál og láta réttlætið ná fram að ganga á grundvelli nýrra upplýsinga. Nú sýnist mér bara að það sé ekki hægt.