Aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 12:02:44 (5544)

1998-04-16 12:02:44# 122. lþ. 105.4 fundur 579. mál: #A aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum# þál., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[12:02]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni gafst mér ekki tími til þess að ræða einn þátt í ræðu hv. flutningsmanns varðandi fjárhagslegan skaða einstaklinga og hvernig hefði verið brugðist við ef sóttin hefði lagst á annan bústofn. Þetta var reyndar líka inntak ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar.

Þetta er ekki auðvelt umfjöllunarefni og ekki auðvelt að ná utan um þann fjárhagslega vanda sem af þessu hlýst og augljóslega er þegar orðinn einhver. Hrossaverslun og hrossasala er ekki atvinnugrein þar sem hægt er að tala um að menn séu með stöðugar og fastar tekjur. Það er ekki eins og með mjólkina, að mjólka tvisvar á dag og það er ekki eins og með sauðfjárfurðirnar, að fénu er að mestu leyti slátrað á haustin. Tekjudreifingin getur verið mjög mismunandi hjá þeim sem í þessari grein eru, getur verið mismunandi milli ára og mismunandi innan ársins þannig að erfitt er að fullyrða hvert tekjutapið er af því að hrossasalan hefur dregist saman innan lands og stöðvast til útlanda núna í tvo mánuði.

Síðan er staða þeirra sem þessa atvinnugrein stunda líka mjög misjöfn. Það er langt frá því að allir sem hana stunda hafi átt innhlaup í opinbera lánasjóði eða til opinberra lánastofnana þannig að frysting á lánum þar hjálpar kannski ekki nema hluta af þeim sem í hlut eiga. Ég er hins vegar ekki að segja að það geti ekki komið til greina en ég held að affarasælast væri, alla vega til að byrja með, að það yrði ákvörðun þeirra sem um þau mál fjalla hvernig standa ætti að því í hverju og einu tilfelli. Ég held að of snemmt sé að tala um að við verðum hér í tveggja ára tekjuleysi í hrossasölu, hvort heldur rætt er um söluna til útlanda eða sérstaklega söluna innan lands. Ég sé ekki fyrir mér ef sjúkdómurinn breiðist út um allt land að salan innan lands muni neitt minnka sérstaklega ein og sér þó að auðvitað hafi salan til útlanda áhrif á innanlandssöluna að einhverju leyti. Ég held að umfjöllunarefnið fjárhagsleg aðstoð vegna skaða af hitasóttinni sé mjög erfitt og að jafnvel sé ótímabært að fara út í þá umfjöllun til þess að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir. En ég útiloka ekki að til þess gæti þurft að koma.

Varðandi viðbrögðin ef annar bústofn hefði átt í hlut er það að segja að þegar um smitandi sjúkdóm er að ræða sem menn vilja halda utan landsins eða utan svæðisins ef þetta er rætt á öðrum landfræðilegum grunni en á grundvelli eyjar, þá er oftast gripið til niðurskurðar. En það er algerlega óhugsandi í þessu tilfelli gagnvart hrossunum. Reyndar á ég mjög erfitt með að ímynda mér þann sjúkdóm sem gæti borist í íslenska hrossastofninn sem væri það alvarlegur að við mundum fara að skera stofninn niður því að niðurskurður á ræktuðum stofni er ekkert smámál og ef við ætluðum að fara að gera það hérna þá held ég að það væri nánast útilokað og skaðinn jafnvel enn þá meiri en það sem við værum að reyna að koma í veg fyrir. Þetta hefur hins vegar verið gert varðandi aðrar dýrategundir en þær eru bara einfaldlega allt annars eðlis. Þar eru afurðirnar öðruvísi. Þar er umgengnin á milli búa öðruvísi en í hrossaræktinni og allt aðrar aðstæður við að eiga. Þar hafa hins vegar komið til opinberar bætur vegna niðurskurðar og vegna tekjuleysis sem orðið hefur vegna niðurskurðarins. Þar er það þekkt hvernig að slíkum málum skal standa, en ég held að ekkert af því sem þar hefur verið gert eigi við um hitasóttina í hrossunum og þær aðstæður sem þar hafa skapast nú og því erfitt að bera þetta saman.

Ég held hins vegar að það sem ég var að leggja áherslu á í fyrri ræðu minni, þ.e. að við reynum að komast að því sem fyrst um hvaða veiru er að ræða, að staðfesta að hún sé til annars staðar og komast að því hvernig hún hegðar sér þar og að smit héðan og til annarra landa muni ekki valda sjúkdómstilfellum þar, sé það sem við þurfum að leitast við að finna út úr og sýna fram á og leggja áherslu á að það sé gert hratt og vel. Og ef okkur tekst vel í því sambandi, þá muni aðrar vangaveltur sem hér hafa komið fram um fjárhagslegan skaða og hugsanlega stöðvun í tvö ár ekki koma til og greinin muni sjálf geta leyst úr þessu að mestu leyti.