Aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 12:16:45 (5548)

1998-04-16 12:16:45# 122. lþ. 105.4 fundur 579. mál: #A aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum# þál., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[12:16]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leiðinlegt ef umburðarlyndi mitt kemur hv. þm. á óvart. (ÖS: Öllum.) Enn þá leiðinlegra þykir mér þó ef það kemur hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni á óvart. Hv. þm. nefndi lánastofnanirnar. Það hlýtur að vera hluti af hefðbundinni og venjulegri starfsemi hverrar lánastofnunar að ef sá sem skuldar í stofnuninni vegna atvinnurekstrar síns lendir í tímabundnum erfiðleikum, þá er tekið á því og það skoðað í lánastofnuninni. Það þarf ekki sérstaklega að tala um það sem einhverja opinbera aðstoð eða opinberan styrk við heila atvinnugrein. Það þarf ekki að setja merkimiða á atvinnugreinina, að nú sé hrossaræktin búin að fá opinberan styrk og opinbera aðstoð vegna þess að Byggðastofnun og Lánasjóður landbúnaðarins fresta afborgunum af lánum hjá viðskiptavinum sem lenda í erfiðleikum vegna sjúkdóma. Mér finnst þetta vera hluti af eðlilegri og hefðbundinni starfsemi þessara stofnana. Og að setja þann stimpil á heila atvinnugrein að hún þurfi opinbera aðstoð tel ég að vera ekki rétt.

En ég endurtek það sem ég sagði áðan að ef menn ætla sér að fara út í opinbera aðstoð vegna sjúkdómsins, vegna þess að um tekjuleysi er að ræða til langframa, þá held ég að mjög erfitt verði að finna formúluna fyrir þeirri aðstoð. Ég held að réttara sé fyrir okkur að einbeita okkur að öðrum verkefnum og öðrum vandamálum í sambandi við þessa hitasótt en þá að fara að leita eftir opinberum styrkjum. Ef við viljum nota peninga til að leysa vandamálið þá eiga þeir peningar að fara fyrst og fremst í rannsóknirnar því þar liggur lausnin.