Læknalög

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 15:15:32 (5556)

1998-04-16 15:15:32# 122. lþ. 106.11 fundur 598. mál: #A læknalög# (óvæntur skaði og mistök) frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 122. lþ.

[15:15]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á læknalögum, nr. 53/1988, með síðari breytingum.

Frv. þetta gerir ráð fyrir að fellt verði inn í núgildandi læknalög nýtt ákvæði sem fjallar um hvernig fara skuli með mál þegar upp koma óvænt atvik við meðhöndlun sjúklinga. Markmið frv. er einkum tvíþætt. Að tryggja aukið eftirlit og skráningu þannig að efla megi gæði heilbrigðisþjónustunnar og um leið auka og efla réttindi sjúklinga. Efni frv. styrkir því nýsamþykkt lög um réttindi sjúklinga og í heilbr.- og trmrn. er einnig unnið að frv. til laga um sjúklingatryggingu sem byggir á sama hátt á þeim grundvallarsjónarmiðum að tryggja í auknum mæli réttindi sjúklinga.

Frv. það sem er til umræðu er samið af fulltrúum tilnefndum af landlæknisembætti, Landssambandi sjúkrahúsa, Landssambandi heilsugæslustöðva, Læknafélagi Íslands og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, auk lögfræðinga í heilbr.- og trmrn. Nefndin aflaði upplýsinga um fyrirkomulag tilkynningamála frá öðrum Norðurlöndum og um meðferð slíkra mála hér á landi bæði hjá heilbrigðisstofnunum um land allt og hjá landlæknisembættinu. Óskað var eftir upplýsingum frá heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum um það hvaða hátt þeir hefðu á tilkynningum og óhappaskráningu. Í ljós kom að núgildandi ákvæði 18. gr. læknalaga er nánast óvirkt. Svo virðist sem oftar en ekki berist embætti landlæknis ekki vitneskja um mistök eða vanrækslu fyrr en sjúklingar þeir sem hlut eiga að máli eða aðstandendur þeirra snúa sér til embættisins með kvörtun vegna atviksins.

Í svörum sem bárust kom fram að mál af þessu tagi væru sjaldgæf í heilsugæslunni. Auk þess var á það bent að læknar teldu oft erfitt að standa að formlegum tilkynningum en núgildandi ákvæði læknalaga gera ráð fyrir að verði læknir í starfi sínu var við mistök eða vanrækslu af hálfu lækna eða annarra heilbrigðisstarfsmanna skuli hann tilkynna það landlækni. Bent var á að slíkt væri oft erfitt fyrir lækna, ekki síst í minni heilsugæslustöðvum. Í svörum frá sjúkrastofnunum kom fram að á árinu 1995 hafi farið fram formleg skráning óhappa hjá a.m.k. sex heilbrigðisstofnunum, þar á meðal hjá stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík.

Fram kom að föll voru algengust óhappa meðal sjúklinga, oft með þeim afleiðingum að þeir beinbrotnuðu. Mistök við lyfjagjöf komu einnig fyrir. Af upplýsingunum sem bárust var erfitt að meta hvort eða hvenær þessi óhöpp sjúklinganna voru tilkynnt til landlæknis. Hjá þeim sjúkrahúsum sem halda ekki skipulega óhappaskrá kom fram að allra óhappa sjúklinga ætti að geta í sjúkraskrá þeirra. Í reynd virðist sem það sé undir heilbrigðisstarfsmönnum sjálfum komið hvort mál séu tilkynnt landlækni. Nefndin sem samdi frv. efndi til málþings um feril þessara mála. Til þess var boðið öllum héraðslæknum og fulltrúum frá heilsugæslustöðvum, sjúkrahúsum og öldrunarstofnunum, félögum heilbrigðisstétta, Landssambandi sjúkrahúsa, Félagi forstöðumanna sjúkrahúsa og Landssambandi heilsugæslustöðva. Málþingið var vel sótt og í almennum umræðum kom skýrt fram óöryggi heilbrigðisstarfsmanna og forstöðumanna stofnana gagnvart tilkynningarskyldunni eins og hún er í dag í 18. gr. læknalaga.

Niðurstaða nefndarinnar er sú að semja eigi ítarleg ákvæði um feril þessara mála þannig að mótuð verði skýrari, öruggari og ekki síst aðgengilegri farvegur en nú er. Með frv. er jafnframt lögð áhersla á að tilkynningar af þessu tagi eru hluti gæðaeftirlits í starfi heilbrigðisstarfsmanna. Forsenda þess að bæta megi þjónustu og meðhöndlun sjúklinga er að heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisyfirvöld hafi glöggt yfirlit yfir þau tilvik þar sem eitthvað fer úrskeiðis. Fyrirkomulag af þessu tagi á rætur í hinar sænsku Lex-Maria-reglur sem settar voru á fyrri hluta þessarar aldar en hafa síðan þróast í tímans rás. Í greinargerð með frv. er að finna yfirlit yfir stöðu þessara mála á Norðurlöndum.

Víkjum þá að efni nýrrar 18. gr. a í læknalögum sem frv. þetta kveður á um. Í ákvæðinu er lýst nýju viðbragðskerfi þegar óvæntan skaða ber að höndum. Annars vegar er fjallað um hvernig með slík mál skuli fara innan heilbrigðisstofnana og hins vegar hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum. Heilbrigðisstofnunum er ætlað að rannsaka slík mál sjálfar en tilkynna mál strax til landlæknis ef forstöðumaður og faglegir yfirstjórnendur telja ástæðu til. Þá er stofnunum jafnframt gert að skila landlækni tvisvar á ári skýrslu um óvænta skaða og viðbrögð við þeim. Sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn eiga að tilkynna óvæntan skaða til landlæknis sem tekur síðan ákvörðun um hvernig staðið verður að rannsókn málsins.

Í 1. mgr. 18. gr. eru almenn fyrirmæli ef meðferð heilbrigðisstarfsmanns hefur óvæntan skaða í för með sér, þ.e. að þegar árangur eða afleiðingar meðferðar verða aðrar en gert var ráð fyrir í upphafi skuli mál rannsakað til að finna á því skýringar og tryggja eftir því sem kostur er að atvik eigi sér ekki aftur stað. Upplýsa skal sjúkling um hinn óvænta skaða sé þess kostur en hugsanlegt er að eðlilegt sé að bíða um sinn vegna ástands sjúklings og er þá gert ráð fyrir að nánasta vandamanni sjúklings sé greint frá því sem gerst hefur.

Varðandi skilgreiningar á hugtökunum ,,heilbrigðisstarfsmaður`` og ,,meðferð`` er vísað til 2. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga.

Á heilbrigðisstofnunum bera yfirlæknir og hjúkrunardeildarstjóri ábyrgð á að óvæntur skaði sé tilkynntur faglegum yfirstjórnendum og að þeir tilkynni hann forstöðumanni. Það er síðan sem fyrr segir forstöðumanns að meta í samráði við þá hvort tilvikið skuli þegar tilkynnt landlækni. Frv. gerir ráð fyrir að það sé forstöðumaður sem beri ábyrgð á að skaðinn sé rannsakaður, afgreiddur og tilkynntur í samræmi við ákvæði. Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um þennan feril í reglugerð en drög að henni eru birt sem fylgiskjal með frv. þessu.

Verði óvænt dauðsfall á heilbrigðisstofnun ber yfirlæknir ábyrgð á að málið sé tilkynnt lögreglu í samræmi við ákvæði frv. til laga um dánarvottorð sem er nú til umfjöllunar í hv. heilbr.- og trn. Loks er gert ráð fyrir að heilbrigðisstofnanir sendi landlækni tvisvar á ári skýrslur um alla óvænta skaða af meðferð ásamt niðurstöðum rannsókna mála. Landlæknisembættið metur síðan hvort og í hvaða mæli nauðsynlegt er að koma þeim upplýsingum áfram til annarra stofnana. Landlæknir skal jafnframt árlega senda ráðherra samantekt um óvæntan skaða í heilbrigðisþjónustu og afdrif mála. Verði frv. þetta að lögum mun það öðlast gildi 1. jan. 1999 en nauðsynlegt er að kynna ákvæði laganna og reglugerðar sem sett yrði á grundvelli þeirra rækilega fyrir þeim sem eftir þeim eiga að starfa.

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að fylgja úr hlaði málum sem hafa það að markmiði að tryggja réttindi sjúklinga og að bæta gæði heilbrigðisþjónustunnar og þar af leiðandi það starfsumhverfi sem heilbrigðisstéttir starfa í frá degi til dags. Ég legg mikla áherslu á að við meðferð frv. og reglum sem settar verða er ætlunin að móta öflugt gæða- og eftirlitskerfi. Það er mikilvægt að öll framkvæmd takist vel og að markmiðin nái fram að ganga. Það er hlutverk heilbrigðisyfirvalda að stuðla að því og verði frv. þetta að lögum mun undirbúningur þegar hefjast en drög að reglugerð þar sem kveðið er á um framkvæmd laganna liggja sem fyrr segir þegar fyrir og eru birt sem fylgiskjal með frv. þessu.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að frv. þetta fái jákvæða umfjöllun og legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.