Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 15:37:42 (5558)

1998-04-16 15:37:42# 122. lþ. 106.12 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., ÁE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 122. lþ.

[15:37]

Ágúst Einarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Samkvæmt dagskrá á nú að ræða frv. hæstv. heilbrrh. um gagnagrunna. Ég sé ástæðu til þess, herra forseti, að áður en umræðan hefst að spyrjast fyrir um fyrirætlanir hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar. Málið sjálft er viðamikið og flókið og felur í sér mikið nýmæli, tækifæri og spurningar og það hefur verið lífleg umræða um málið í þjóðlífinu. Hæstv. ráðherra hefur í fjölmiðlum rætt um að málið verði varla afgreitt á þessu þingi, það sé það viðamikið, og stefnir að afgreiðslu á haustþingi. Hæstv. forsrh. hefur lýst gagnstæðum skoðunum og telur brýnt að málið nái fram að ganga núna.

Það er mjög mikilvægt, herra forseti, fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að vita hvort ráðherrann hæstv. knýi á um afgreiðslu málsins nú eða hvort málið verði lagt fram til kynningar og 1. umr., enda málið sjálft seint fram komið. Það er lítið eftir af þessu þingi eins og hæstv. forseti veit. Þótt málið sé vitaskuld á forræði þingsins þá veit hæstv. ráðherra að vilji hans og stjórnarþingmanna ræður för. Það skiptir því miklu máli, herra forseti, hvernig umræða og úrvinnsla verður gagnvart þessu máli, hvor leiðin verður farin. Þess vegna sé ég ástæðu til að spyrjast fyrir um þetta áður en umræðan hefst.