Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 15:46:12 (5563)

1998-04-16 15:46:12# 122. lþ. 106.12 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 122. lþ.

[15:46]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér er vissulega um mjög athyglisvert og stórt mál að ræða sem mjög margir hafa jákvæð viðhorf til. En hinu verður ekki neitað að hæstv. ráðherra skýrði frá því opinberlega að hæstv. ráðherra hefði ekki í hyggju að málið yrði afgreitt á þessu þingi heldur mundi einungis leggja málið fram til kynningar. Það hefur orðið til þess, herra forseti, að alþingismenn hafa ekki búið sig undir efnislega umræðu eins og þeir þurfa að gera ef það ætti að afgreiða málið nú á þessu vori. Þá hefðum við farið í það verk að ræða við ýmsa aðila sem hafa tjáð sig um þetta mál og afla okkur upplýsinga og undirbúa okkur undir efnislega umræðu um málið strax við 1. umr. Þetta höfum við ekki gert. Ekki vegna þess að við höfum ekki áhuga á málinu heldur einfaldlega vegna þess að hæstv. ráðherra, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði grein fyrir áðan, sendi okkur þau skilaboð að hér yrði ekki um að ræða afgreiðslubeiðni af hennar hálfu heldur aðeins framlagningu til kynningar. Því höfum við ekki getað undirbúið okkur, herra forseti, efnislega til þess að ganga til 1. umr. undir þeim forsendum sem allt í einu virðast vera komnar upp núna.

Þetta bið ég hæstv. forseta að taka til umhugsunar.