Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 15:47:59 (5564)

1998-04-16 15:47:59# 122. lþ. 106.12 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., BH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 122. lþ.

[15:47]

Bryndís Hlöðversdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það mál sem nú á að ræða í þinginu er vissulega stórt og mikið mál sem hefur á sér margar hliðar og sem full ástæða er til að skoða mjög ítarlega áður en það er afgreitt frá þinginu. Ég verð að segja að ég er mjög undrandi yfir því að hæstv. ráðherra skuli láta sér detta í hug að málið fari í gegnum þingið á þeim skamma tíma sem er eftir af þessu þingi.

Málið er umdeilt. Það felur í sér mjög veigamikil atriði sem krefjast umfjöllunar, ekki aðeins í þinginu heldur ekki síður úti í þjóðfélaginu.

Ég vil benda á það hér af því að hv. þm. Tómas Ingi Olrich segir að þetta mál hafi fengið óvenjumikla umfjöllun úti í þjóðfélaginu sem er rétt, þ.e. í fjölmiðlum, að sú umfjöllun átti sér að mestu leyti stað áður en frv. kom inn í þingið þannig að þingmenn áttu þess aldrei kost að kynna sér málið út frá því frv. sem fyrir lá, hvernig það væri útfært. Það var ekki fyrr en stuttu fyrir páska sem þingheimur fékk að sjá frv. í þeirri mynd sem það er þó að flestir hafi vissulega heyrt talað um þessa hugmynd í nokkurn tíma. Það er gífurlegur munur þar á og mér finnst fráleitt að vísa til umræðu sem á sér stað um frv. áður en það er lagt fram sem einhver rök fyrir því að það geti hlotið skjóta afgreiðslu í þinginu.

Umræðan á eftir að fara fram úti í þjóðfélaginu líka. Það er ekki síður nauðsynlegt. Fram hafa komið margar efasemdir frá hinu íslenska vísindasamfélagi vil ég segja. Þar eru menn mjög efins. Vissulega eru margir mjög jákvæðir alveg eins og í þinginu og ég held að það sé algerlega óháð pólitískum skoðunum manna að öðru leyti. Hér er í raun ekki um flokkspólitískt mál að ræða þannig að ég vil hvetja til þess og ég ætla rétt að vona að það sé meining hæstv. heilbrrh. að hér verði málið einungis lagt fram til kynningar en ekki afgreitt á þessu þingi.