Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 15:51:12 (5566)

1998-04-16 15:51:12# 122. lþ. 106.12 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 122. lþ.

[15:51]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að mótmæla þessari túlkun hv. þm. sem talaði áðan. Ég er ekki að reyna að stöðva þetta mál. Ég hef í meginatriðum jákvæð viðhorf til þessa frv. Ég er eingöngu að vekja athygli á því að þingmenn hafa verið grunlausir um að þeir þyrftu að búa sig undir efnislega umfjöllun málsins því að hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að ekki standi til að leggja málið fram á vorþingi öðruvísi en til kynningar. Sú efnislega umræða sem þyrfti að fara fram um það við 1. umr. getur ekki farið fram af þeirri einföldu ástæðu, virðulegi forseti, að við höfum ekki búið okkur undir það vegna þess að hæstv. ráðherra hafði skýrt frá því að ekki væri tilgangurinn að reyna að taka málið til afgreiðslu á þessu þingi.