Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 17:19:32 (5581)

1998-04-16 17:19:32# 122. lþ. 106.12 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 122. lþ.

[17:19]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Vegna þeirra orða hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur um sáttmálann sem gerður var til að vernda mannréttindi og mannlega reisn með tilliti til líffræði og læknisfræði, þá sé ég mig tilneyddan að benda á að sáttmálinn var ekki unninn í þeim anda að koma í veg fyrir að upplýsingar yrðu veittar til að stuðla að framförum í vísindum. Það var hvorki markmið og né andi þessa sáttmála. Þvert á móti er í sáttmálanum tryggt að jafnvel þótt upplýsingar um einstakling séu meðhöndlaðar þannig að þær veiti ekki lausn á hans persónulegu vandamálum en leggi grundvöll að framförum í vísindum, sem verði til þess að það finnist lausnir á þeim veikindum sem hrjá þennan einstakling og aðra sem þjást af sömu veikindum, þá sé það réttlætanlegt.

Með öðrum orðum. Í þessum sáttmála var reynt að finna samnefnara þar sem mannréttindin væru tryggð en jafnframt væri svigrúm fyrir vísindin til að tryggja mannréttindi komandi kynslóða með framförum í læknisfræðinni. Það er því mjög mikilsvert að hv. þm. taki tillit til þess í hvaða anda þessi sáttmáli, sem oft er í stuttu máli kallaður Convention on Human Rights and Biomedicine, var gerður. Þetta kom fram á öllum sviðum þessa samnings. Það tók reyndar tíu ár að ganga frá honum en á öllum stigum þessa samnings kom fram að hann væri gerður á þessum grundvelli.

Annað er nauðsynlegt að segja við hv. þm. þegar hann talar um það í nokkrum hneykslunartón að til standi að fénýta upplýsingar úr heilbrigðiskerfinu. (Forseti hringir.) Ég mun koma að því, ef hv. þm. sér ástæðu til þess að svara andsvari mínu, í næsta andsvari.