Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 17:22:45 (5583)

1998-04-16 17:22:45# 122. lþ. 106.12 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 122. lþ.

[17:22]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Andi þessa samnings var ekki einungis að tryggja réttindi einstaklinga heldur einnig að tryggja svigrúm vísindanna. Og það vill svo til að það verða engar framfarir í vísindum eða læknisfræði án upplýsinga. Allar framfarir í læknisfræði og vísindum byggja á aðgangi að upplýsingum. Þrengi menn þennan aðgang um of, þá er verið að koma í veg fyrir það að í framtíðinni njóti menn góðs af framförum í læknavísindum.

Að því er varðar fénýtinguna vil ég aðeins benda á að þróunarstarf í lyfjafræði er að langmestu leyti unnið af einkafyrirtækjum. Þau fjárfesta stórkostlega í þróunarstarfinu áður en þau fá ávinning af því sem fæst út úr lyfjunum. Að sjálfsöðgu er þetta gjörsamlega ómögulegt öðruvísi en að þessi fyrirtæki geti fénýtt sé upplýsingarnar. Það er ekkert í þeim samningi sem var vitnað í, sem hindrar að slíkt þróunarstarf geti átt sér stað. Þvert á móti er reiknað með því sem sjálfsögðum hlut að einkafyrirtæki, sem eru rekin á grundvelli hagnaðar, séu virk í framleiðslu lyfja og virk í tækniframförum á sviði læknisvísindanna.