Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 17:41:48 (5586)

1998-04-16 17:41:48# 122. lþ. 106.12 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 122. lþ.

[17:41]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er varla að ég nenni að vera að elta ólar við hálfgerða útúrsnúninga í máli hv. þm. sem talaði síðast en engu að síður ætla ég að gera það. Það sem hv. þm. kallar styrkleika þjóðarinnar kalla ég auðlind. Það er auðlind fólgin í smæð okkar, einsleitni og ættfræðiþekkingu. Það er auðlind sem við eigum að eiga í sameiningu og ég tel mjög mikilvægt að það sé tryggt að þjóðin sé eigandi að þeirri auðlind og það þarf að setja það í lög.

Aftur á móti talaði ég einnig um það að gagnagrunnurinn, sem ég efast ekki um að verði unninn, mun verða mjög verðmætur. Það verður auðlind þegar búið verður að vinna þann gagnagrunn og ástæðulaust að vera að snúa út úr því. En ég tel líka mikilvægt að það verði skýrt hver eigi þann gagnagrunn og það verði þjóðin sem eigi hann og það þarf líka að vera skýrt.

Varðandi það að ríkið ætti að sjá um að vinna gagnagrunninn var það ekki skoðun mín heldur var það spurning sem ég varpaði til hæstv. ráðherra og ráðherra hefur ekki svarað. Ég setti ekki fram neina skoðun um hver ætti að vinna þetta, ég var bara með nokkrar spurningar sem ég vil gjarnan fá svör við vegna þess að ég hef ekki myndað mér skoðun um það nákvæmlega hver eigi að vinna þennan gagnagrunn. Ég ætla ekkert að efast um að fyrirtækið sem hér hefur verið rætt um geti séð um það ágætlega en hefði gjarnan viljað fá upplýsingar eða fá svör við þeim spurningum sem ég varpaði fram.