Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 18:58:03 (5597)

1998-04-16 18:58:03# 122. lþ. 106.12 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 122. lþ.

[18:58]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna síðasta liðar í spurningu hv. þm. hver er áhættan er það alltaf sú áhætta að hægt sé að brjótast inn í þessi kerfi. En í frv. er líka refsiákvæði. Ef sá sem hefur sérleyfi verður uppvís að því að persónulegar upplýsingar eru nýttar missir hann umsvifalaust leyfið og það er mjög mikilvægt atriði.

Hvað er eðlilegur meðgöngutími þessa máls? spyr hv. þm. Ég get ekki sagt að það séu níu mánuðir eins og venjuleg meðganga. En tækifærið er núna. Við eigum tækifæri núna og við eigum að nýta okkur það en þó ekki að fara fram úr sjálfum okkur. Þess vegna var svo mikilvægt að þingið fengi málið til umfjöllunar að opinber umræða gæti orðið um málið en það væri ekki lokuð umræða í einhverri lítilli nefnd. Þó svo að tölvunefnd sem slík hafi ekki opinberlega haft afskipti af málinu þá höfum við auðvitað á ýmsum stigum málsins kallað til fulltrúa tölvunefndar, að sjálfsögðu. En tölvunefnd sem slík er ekki ábyrg fyrir málinu, það er rétt.