Áskorun til Alþingis varðandi frv. um skipulag miðhálendisins

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 13:34:29 (5601)

1998-04-21 13:34:29# 122. lþ. 108.92 fundur 312#B áskorun til Alþingis varðandi frv. um skipulag miðhálendisins# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[13:34]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég tek eindregið undir það sjónarmið sem kom fram hjá níutíumenningunum í yfirlýsingu þeirra sem birtist í blöðunum í dag. Við erum að tala um þrjú frv. þar sem verið er að ráðstafa m.a. auðlindum í jörðu og á, hvað varðar eignarhald þeirra, stjórnsýslu á þeim og gjaldtöku fyrir þá sem hyggjast nýta þær auðlindir. Sem dæmi um hvaða verðmæti eru á ferðinni er orkuþátturinn sem menn eru að fjalla um ásamt ýmsu öðru álíka að verðmæti, miðað við orkuverð frá stöðvarvegg, eins og talið er að öll íslensku fiskimiðin séu í dag og menn ætla að afgreiða þetta án nokkurrar umræðu með þjóðinni. Ég er sannfærður um ef svo heldur fram sem horfir að þá verður sú umræða, sem fer nú fram áratug eftir að fiskveiðistjórnarkerfið var afgreitt á Alþingi, hjóm eitt hjá þeirri umræðu sem mun fara fram um þessi mál eftir tíu ár ef vilji ríkisstjórnarinnar um ráðstöfun á eignarhaldi og forræði allra auðlinda íslensku þjóðarinnar í jörð og á nær fram að ganga eins og hæstv. ríkisstjórn vill. Ég vara við þessari þróun og tel nauðsynlegt að þjóðin fái að skoða þessi mál betur og segja álit sitt á þeim. Það verður ekki gert með þeim vinnubrögðum sem hæstv. ríkisstjórn hyggst viðhafa.