Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 13:57:26 (5608)

1998-04-21 13:57:26# 122. lþ. 108.3 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál. 18/122, 509. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (gjald af flugvélabensíni) frv. 56/1998, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[13:57]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Við venjubundnar aðstæður hef ég ekki óskað eftir því sérstaklega að ráðherrar yrðu viðstaddir 2. umr. mála þegar þingnefndir hafa farið um þær höndum en ég held að óhjákvæmilegt sé að hæstv. ráðherra leggi við hlustir að þessu sinni vegna þess að hann hefur komið beint að þessum málum í meðhöndlun nefndarinnar, en hv. 1. þm. Vestf., Einar K. Guðfinnsson, gerði grein fyrir ástæðum þess arna.

Það væri að sönnu líka ástæða til þess, ég geri ekki kröfu um það, að hæstv. utanrrh. legði við hlustir því að nú eins og fyrri daginn er Flugstöð Leifs Eiríkssonar orðin eins konar afstemmningartala í flugmálaáætlun. Ég rifja upp að ekki eru mörg ár síðan Flugstöð Leifs Eiríkssonar fann sér leið inn í þessa áætlun. Ýmsir höfðu efasemdir um það hvort hún ætti þar heima í ljósi þess að þar var um sjálfstæða og sértæka ákvörðun að ræða á sínum tíma þegar í þær framkvæmdir var ráðist og ævinlega við það miðað að það sem þar ætti að verja til þeirra gífurlegu fjárfestinga sem þar liggja fyrir, ætti að fjármagna með sértækum hætti. Það hefur ekki gengið eftir og þess hefur því miður orðið vart í auknum mæli að í hinni hefðbundnu flugmálaáætlun sem lýtur að uppbyggingu flugvalla hringinn í kringum landið hafa verið að renna í stórum stíl fjármunir til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

Ég sagði að sú tala væri eins konar afstemningartala og auðvitað er hún það vegna þeirrar breytingar sem hefur orðið að gera á tekjuáætlun flugmálaáætlunar sökum þess að tekjustofnum hefur þurft að breyta í ljósi ábendinga Samkeppnisstofnunar. Er rétt að rifja upp að stundum hlustar hæstv. samgrh. á Samkeppnisstofnun og stundum ekki. Í þessu tilfelli átti hæstv. samgrh. engan annan kost en taka mið af þeim ábendingum sem þar komu fram og því hafa þær tilfærslur orðið sem hv. 1. þm. Vestf. og formaður nefndarinnar gerði ráð fyrir.

[14:00]

Til að endar svo gott sem nái saman hafa menn enn á ný notað Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem stuðpúða til að jafna sveiflurnar. Framlög til þeirrar stofnunar eru lækkuð og síðan hækkuð aftur að hluta. Því er einfaldlega haldið fram að samkvæmt mati yfirstjórnar Keflavíkurflugvallar megi ætla að sértekjur vallarins muni hækka um 18 millj. ár hvert til ársins 2001. Ég vil að gefnu tilefni spyrja hæstv. samgrh., þó að hæstv. utanrrh. ætti auðvitað að svara. Ég hygg að gott samspil sé milli þessara tveggja ráðherra þótt hvor sé í sínum flokki og ekki síst í seinni tíð þegar þeir hafa verið að renna saman í eitt. Viðhlítandi svör hafa ekki fengist í nefndinni og því vildi ég að hann gerði mér grein fyrir því í hverju þessi hækkun sértekna er fólgin. Hvaða nýju peningum er gert ráð fyrir að komi af rekstri vallarins.

Málefni Keflavíkurflugvallar hafa verið rædd frá ýmsum hliðum á umliðnum missirum og árum. Skemmst er að minnast þeirra kerfisbreytinga sem gerðar voru og verið er að gera þar syðra. Þar er einkavæðingarmúsin farin að læðast og menn höfðu stór orð um þær breytingar sem þar voru gerðar. Þær höfðu veruleg áhrif á Íslenskan markað og eiga eftir að hafa frekari áhrif á Fríhöfnina. Breytingarnar áttu að leiða til stóraukinna tekna flugstöðvarinnar þá og jafnframt í framtíð. Þessu hefur verið haldið fram og hnykkt á þessu aftur og aftur þó ég hafi litla tölfræði séð upp á síðkastið sem styður þær staðhæfingar.

Eru það fjármunir sem koma frá nýju starfseminni sem hér er um að ræða og yfirstjórn Keflavíkurflugvallar telur að megi nýta til flugmálaáætlunar? Varla er það nú. Hér hlýtur að vera um aðrar tekjur að ræða sem mér er ókunnugt um. Ég vil því spyrja hæstv. samgrh. hve tryggar þessar nýju tekjur frá Leifsstöð eru og hvort treysta megi því að tekjuliður samgönguáætlunar standist.

Ég vil rifja það upp, virðulegi forseti, í þessu samhengi verður ekki hjá því komist, að það er ákaflega tilviljunarkennt hvernig flugmálaáætlun kemur að Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Út af fyrir sig hefur engin pólitísk stefnumörkun verið sett fram af hálfu ríkisstjórnar né þingmeirihlutans um það hvernig búa eigi um hnútana. Nú liggja fyrir áætlanir, áform og ákvarðanir um verulega stækkun þessarar flugstöðvar. Um það er allt gott að segja og ég hygg að almenn sátt sé um að brýn nauðsyn sé á því af ýmsum orsökum. Núverandi flugstöð er að springa vegna aukinnar umferðar og Schengen-samningurinn kallar á nýjar og breyttar áherslur. Ég geri engar athugasemdir við það. Í samgn. hef ég kallað eftir upplýsingum frá utanrmn. um þessi efni og spurt:

Með hvaða hætti á að greiða upp skuldahalann á núverandi flugstöð? Hvaðan eiga þeir fjármunir að koma og hvenær lýkur þeirri uppgreiðslu?

Mér var send tafla sem sýndi fram á að núverandi flugstöð og skuldir hennar vegna ættu að standa á sléttu einhvern tímann á næstu öld, 2015 ef ég man rétt. Í því dæmi eru auðvitað þeir fjármunir sem eru á þessari fjögurra ára áætlun og gert var ráð fyrir samkvæmt upphaflegri áætlun 60 millj. 1998 og 73 millj., 82 millj. og 92 millj. árin þrjú á eftir. Nú hafa þessar tölur breyst, bæði tekna- og gjaldamegin. Því veltir maður því fyrir sér hvaða áhrif þetta hafi á jöfnunarstuðulinn sem ég nefndi áðan og þau áform stjórnvalda að borga flugstöðina upp á næstu 20 árum eða þar um bil.

Ég hef einnig leitað eftir því hvernig menn ætluðu að standa straum af nýjum kostnaði við stækkun og nýbyggingar. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að svörin til mín og annarra þingmanna hafa verið ákaflega óljós svo ekki sé fastar að orðið kveðið. Það er auðvitað mjög mikilvægt, virðulegi forseti, ekki síst í ljósi reynslunnar frá 1987 og árunum þar á undan þegar núverandi flugstöð var byggð, að menn hafi vaðið fyrir neðan sig og viti hvert þeir stefna með fjárfestingu af þessari stærðargráðu. Við höfum vítin til að varast og Leifsstöð er okkur víti til varnaðar. Þar réðust menn fram í þykkum moldarmekki og luku verkinu í einu hendingskasti fyrir vorkosningarnar árið 1987. Ákveðnir þingmenn Sjálfstfl. létu þar mynda sig, glaðhlakkalega fyrir framan þessa myndarlegu byggingu, og ætluðu að vinna kosningar á því. Sumir þeirra þingmanna sitja ekki lengur á þingi en hafa í endurminningum og ýmsum spjallþáttum rifjað upp þennan atburð en komu þar hvergi nærri. Þó var nú öðru að heilsa ef ég man rétt. Margar fallegar litmyndirnar voru teknar af frambjóðendum Sjálfstfl. í Reykn. fyrir framan þetta glæsimannvirki sem þá var verið að taka í notkun. Þá vissi enginn að ekki væri búið að borga eina einustu krónu í þetta mannvirki og ekki búið að finna út hvernig ætti að gera það. Það er önnur saga og þó ekki.

Hér er að hefjast ný saga á mjög svipuðum nótum um stækkun þessarar flugstöðvar. Eins og ég gat um áðan er það að mörgu leyti sérmál en þó ekki. Í seinni tíð hefur það beinlínis tengst þeirri flugmálaáætlun sem við erum að ræða hér enda er farið að hræra þessum hlutum meira saman en áður var varðandi gjaldahlið áætlunarinnar. Með öðrum orðum er farið að taka af fjármunum flugmálaáætlunar sem áður voru notaðir til að byggja upp innanlandsflugvelli, þar með talinn Reykjavíkurflugvöll en Keflavíkurflugvöllur var skoðaður sérstaklega.

Því árétta ég spurningar mínar til hæstv. samgrh. um þessi efni. Ég geng út frá að hann sé vel með á nótunum á þessum vettvangi þótt þetta sé á umráðasvæði hæstv. utanrrh. Samgrh. veit auðvitað upp á sína tíu fingur hvernig Leifsstöðin nú, fyrr og í framtíð kemur til með að hafa áhrif á áætlunartímabili flugmálaáætlunar. Sér hann, ekki síst til lengri tíma litið, hvort þess sé að vænta að liðurinn ,,Flugstöð Leifs Eiríkssonar 60--92 millj.`` verði á þessu róli eða hvort þess megi vænta að upphæðin jafnvel tvöfaldist eða þrefaldist þegar í stækkunina verður ráðist og að sama skapi minnki tekjur og fjárframlög til flugvalla hringinn í kringum landið?

Auðvitað er alveg bráðnauðsynlegt að við áttum okkur á því og glöggvum okkur á því hvernig við sjáum framtíðina í þessum efnum. Því geri ég þetta að umtalsefni og hef nokkur orð um þennan þátt mála að hann segir okkur nokkuð um það hvernig þetta plagg hér sem hefur verið hefðbundið í áranna rás gæti komið til með að breytast með hliðsjón af milljarðaframkvæmdum á Miðnesheiði.

Ég ætla að segja örfá orð um eldsneytisgjaldið. Staðan er þröng og þurfti að grípa til einhverra ráða eftir ábendingu Samkeppnisstofnunar. Ég geri svo sem engar athugasemdir við þá leið sem hér er farin, svo langt sem hún nær, en vil þó nefna og halda því til haga, enda rétt að allir skilji að auðvitað er verið að auka álögur á innanlandsflug, á fólk úti á landsbyggðinni. Álögur eru auknar á það fólk sem ferðast innan lands og að sama skapi lækkar álagning á flugfarþega til útlanda. Hér er auðvitað ,,landsbyggðarskattur`` á ferðinni en hann er að sönnu mjög lágur. Rétt er að benda á að þetta eru örfáar krónur sem leggjast á hvern einasta flugfarseðil. Þetta er þó engu að síður slík tilfærsla sem ég hef haft orð á og rétt að vekja alveg sérstaka athygli á því.

Það er alveg nauðsynlegt að það komi skýrt fram því það kemur ekki fram í bréfi hæstv. samgrh. til samgn. þar sem hann lýsir ákvörðunum sínum og viðhorfum til hækkunar flugvallagjaldsins og þeim áhrifum sem það hefur síðan á tekjuhlið flugmálaáætlunar, hvernig láta eigi enda ná saman. Um það var spurt í nefndinni, fulltrúi ráðuneytisins ítrekað spurður, hvort ekki væri alveg skýrt að þessar milljónir sem vanta mun, þrátt fyrir þessar tilfærslur á ári hverju, kæmu ekki beint af fjárlögum. Hvort þær væru ekki einfaldlega framlag ríkissjóðs til að ekki þyrfti að skerða framkvæmdir og nauðsynlega þjónustu. Fulltrúi ráðuneytisins gat engu um þetta svarað. Hv. þm. ríkisstjórnarflokkanna fullyrtu að þessir fjármunir kæmu af fjárlögum hvers árs úr ríkissjóði og fyrirheit væru um það frá hæstv. samgrh.

Ég vil hins vegar að það sé algerlega skýrt. Það er ekki vegna þess að ég vantreysti ágætum kollegum mínum í samgn. Ég tel hins vegar eðlilegt og sjálfsagt að hæstv. ráðherra segi það berum orðum í þessum ræðustól og bið hann að svara því fyrir fullt og fast, án allra útúrsnúninga, eins berorður og hann getur nú verið, hvort ekki sé alveg ljóst að þeir fjármunir, sem vantar til að flugmálaáætlun gangi eftir, komi úr ríkissjóði. Er víst að ekki verði gerð krafa, til að mynda á haustdögum, um að Flugmálastjórn eða önnur mikilvæg þjónusta hringinn í kringum landið verði skorin niður svo að þær milljónir, sem hér vantar á, skili sér. Ég geri eðlilega kröfu til að ráðherra taki af öll tvímæli í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Það má auðvitað ræða margt um einstök verkefni í þessari áætlun. Ég ætla þó að sleppa því að mestu. Þó mun ég gera svo ef efni og ástæður standa til þess. Ástæða væri til að fara hringinn í kringum landið því víða eru veruleg vandamál á ferð í flugvallamálum landsbyggðarinnar. Þó margt hafi verið gert hafa framkvæmdir annars staðar beðið of lengi. Viðhald hefur og verið af skornum skammti og aðstæður víða slíkar að brýn þörf hefði verið á að ráðast í fjárfrekar endurbætur. Þróunin er greinilega sú, út af fyrir sig ekki stór ágreiningur um það, að áætlunarflugvöllum fækkar. Það eru ákveðnar miðstöðvar sem menn vilja byggja upp og hafa gert nokkuð myndarlega.

Smærri flugvellir hafa ekki fengið jafnmikla uppbyggingu og viðhald og þjóna ekki jafnmiklu hlutverki og áður. Ég veit auðvitað að víða um landið er takmörkuð ánægja með þetta allt saman og á smærri stöðum finnst mönnum þeir vera út undan. Á sama tíma hafa menn reynt að byggja upp vegakerfið þó það hafi gengið hægt líka. Ferðir til og frá flugvelli hafa orðið auðveldari en áður hefur verið.

Ég held það sé almennt nokkuð sæmileg sátt um þessa stefnumörkun, hvernig svo sem hæstv. ráðherra hefur náð að vinna úr því. Það er auðvitað önnur saga sem er löng og stundum ekki allt of skemmtileg. Hins vegar er ekki hægt að víkja frá þessari áætlun öðruvísi en að minnast á Reykjavíkurflugvöll sem er svarti bletturinn í þessu öllu saman.

[14:15]

Því er nú verr og miður að þessi áætlun til næstu fjögurra ára gerir því sem næst ekki nokkurn skapan hlut til að takast á við það geigvænlega vandamál og þá --- ég verð að segja það, virðulegi forseti, --- þá slysagildru sem þessi flugvöllur er senn að verða og er kannski orðinn. Menn hafa verið að vinna undirbúningsvinnu sem er komin vel á veg og út af fyrir sig er ekkert það í þeirri undirbúningsvinnu sem hamlar að í endurbætur verði ráðist með miklum myndarbrag og á kraftmikinn hátt. Auðvitað væri ástæða til að fara í sértæka lántöku af þessum sökum, jafnvel til hliðar við flugmálaáætlun því þar er naumt skammtað. Ég hygg að enginn hér inni vilji vera í raun óbeint ábyrgur fyrir því ef eitthvað kemur upp á á þessum flugvelli okkar í höfuðborginni, sem er jafnmikið notaður og raun ber vitni og Íslendingar fara um í jafnríkum mæli og raun ber vitni.

En þetta er auðvitað mjög stórt verkefni og sér ekki fyrir endann á því með þeim hraða sem þessi flugmálaáætlun gerir ráð fyrir hvað fjárframlög varðar. Mér er skapi næst að halda að menn verði að dunda við þessar mikilvægu endurbætur á flugvellinum eitthvað fram eftir næstu öld ef þetta verður hraðinn á framkvæmdatímanum. Því er það af þessari ástæðu einni sem ég fyrir mína parta get ekki samþykkt þá áætlun eins og hún er lögð upp. Þess vegna hafði ég fyrirvara á undirskrift minni við 2. umr., auk þeirra atriða annarra sem ég nefndi hér til sögunnar fyrr í ræðu minni. En Reykjavíkurflugvöllur er auðvitað skilinn eftir, um það er engum blöðum að fletta og málið er ekkert flóknara en það.

Í þessu samhengi, þó að það sé út af fyrir sig ekki beinlínis varðandi flugmálaáætlunina, þá nefndi ég flugvelli til sögunnar, því að framkvæmdir á flugvöllum eru auðvitað ekki eingöngu bundnar því að gera flugbrautir breiðar og góðar, og annan lendingarbúnað heldur eru þær líka fólgnar í að byggja aðstöðu fyrir farþega flugstöðva hringinn í kringum landið.

Við ræðum á eftir við 3. umr. frv. til laga um loftferðir, feikilega mikilvægt, sem því miður hefur enga athygli fengið í almennri þjóðmálaumræðu, og fjölmiðlamenn, ekki einn einasti þeirra hefur látið svo lítið að taka upp eitt aukatekið atriði hvað það varðar. En það kemur auðvitað beint inn á þennan málaflokk hér því um er að ræða algjörlega grímulausa áætlun og grímulaus áform hæstv. samgrh. og ríkisstjórnarinnar um að heimilt sé að selja, búa til hlutafélög, eða hafa hvern þann hátt á sem hæstv. samgrh. kýs hverju sinni um rekstur flugvalla hringinn í kringum landið. Með öðrum orðum, hæstv. samgrh. væri það heimilt ef honum dytti það í hug að láta Flugleiðir --- eða Sjálfstfl. --- hafa flugvöllinn á Neskaupstað, og stofna hlutafélag með Sjálfstfl. eða hverjum sem væri eða einstaklingum þaðan. Það er nú ekki óþekkt svo sem.

Þetta kemur hér óbeint inn á þessa flugmálaáætlun. Ef það frv. verður samþykkt við 3. umr. í dag, þá gætum við fyrst séð verulegar breytingar á þessari flugmálaáætlun því ég vænti þess að í öllum þeim stóru einkavæðingaráformum hljóti líka að fylgja sameiginleg fjáröflun um tiltekin verkefni, sameiginlega ábyrgð margra eða lítilla hlutafélaga, dótturfyrirtækja, hlutdeildarfyrirtækja eða hvaða nafni menn vilja nefna það, sem gerir það auðvitað að verkum að fjármögnun ríkisins í, við skulum segja einkaflugvöllum hlýtur að taka verulegum breytingum. Við erum kannski hér, virðulegi forseti, í síðasta skipti að fjalla um og afgreiða flugmálaætlun með hefðbundnum hætti vegna þess að í lögum um loftferðir ætli menn sér að breyta algjörlega um svip, stíl, vinnubrögð og verklag. Það ræðum við nánar á eftir undir þeim lið sem næstur er á dagskrá.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu að svo komnu máli að orðlengja þetta. Það vantar meiri fjármuni í þennan mikilvæga þátt samgangna sem flugmálin eru. Við lifum í strjálbýlu landi og þó að vegakerfið hafi batnað og skánað, þá gegna loftflutningarnir geysilega mikilvægu hlutverki. Það er auðvitað allt breytingum háð, sjóflutningar með fólk tilheyrir liðinni tíð þannig að fólk fer landshorna á milli í lofti eða á föstu landi. Það verður því ekki sagt, virðulegi forseti, að þessi flugmálaáætlun sé uppspennt af metnaði eða stórum áformum og að menn þurfi að setja á langar ræður til að hæla hæstv. samgrh. fyrir metnað, kraft, dug og þor í þessum málaflokki. Hér er flest allt með svipuðum hætti og verið hefur, þröngt skammtað. Og það sem meira er, það hefur dregið úr frekar en hitt, ekkert gert með langstærsta einstaka verkefnið, sem er Reykjavíkurflugvöllur, tekjuhlið flugmálaáætlunar í hálfgerðu klúðri og menn að redda sér á síðustu stundu á hundasundi, enn þá óljóst hvernig eigi að klára þennan enda málsins þannig að flugmálaáætlun megi klára á núllinu án þess að koma þurfi til feikilegs niðurskurðar á tímabilinu, við skulum ekki segja feikilegs heldur niðurskurðar í rekstri á tímabilinu. Hlutirnir eru ekkert alveg eins og þeir eiga að vera en oft hafa þeir verið verri. Satt að segja á ég eftir að gera það upp við mig hvernig ég kem til með að greiða atkvæði við endanlega afgreiðslu málsins. Það fer dálítið eftir því, virðulegi forseti, hvernig hæstv. ráðherra leggur upp sína sýn í þessum málaflokki því að það er auðvitað feikilega mikilvægt. Þá á ég við hin stóru verkefni, Reykjavíkurflugvöll, og líka hvernig Leifsstöðin, fortíðarvandi og framtíðarvandi væntanlegur, muni spila inn í flugmálaáætlun framtíðarinnar. Þá skiptir einnig máli hvernig einkavæðingarárátta hans í frv. til laga um loftferðir gæti komið til með að hafa áhrif á flugmálaáætlun til lengri eða skemmri tíma. Allt þetta kemur til með að hafa áhrif á afstöðu mína. En ekki er metnaðinum fyrir að fara, það verður ekki sagt.