Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 14:37:05 (5613)

1998-04-21 14:37:05# 122. lþ. 108.3 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál. 18/122, 509. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (gjald af flugvélabensíni) frv. 56/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[14:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég er sammála þeirri afstöðu sem fulltrúar minni hlutans hafa lýst til þessa máls og í útskýringum á sínum fyrirvörum. Mér finnst ástæða til að nefna lítillega nokkur atriði í tengslum við umfjöllun um þessa breytingu á flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum, kannski að sumu leyti meira af sögulegum ástæðum en þeim að það sé endilega úrslitaatriði í sambandi við þessar breytingar sem hér eru. En mér finnst ástæða til þess við þetta tækifæri að rifja aðeins upp hvernig þessi mál hafa gengið fyrir sig frá því að flugmálaáætlunin hin fyrsta og lög um fjáröflun til framkvæmda í flugmálum voru afgreidd á Alþingi fyrir rétt rúmum áratug síðan. Eins og reyndar hefur stundum verið rifjað upp áður í tengslum við skerðingar á mörkuðum tekjustofnum til framkvæmda í flugmálum var sá siður tekinn upp í tíð núverandi hæstv. samgrh. að skerða í verulegum mæli eða vaxandi mæli ár frá ári þennan markaða tekjustofn til framkvæmda í flugmálum og draga hann inn í rekstur Flugmálastjórnar og nú síðast inn í rekstrarkostnaðinn eða hítina á Keflavíkurflugvelli og því hefur verið full ástæða til að rifja upp hvernig fjáröflunin kom til á sínum tíma.

Þá sættu menn sig við það að lagðar voru viðbótarálögur ofan á alla þá skatta og gjöld sem fyrir voru á flugreksturinn og flugfarþega í landinu til þess gagngert að standa straum af metnaðarfullri áætlun um uppbyggingu í flugmálum sem var þá áætlunarbundin og tímasett. Það átti að taka um tíu ár að koma ástandinu á flugvöllum og flugsamgöngumannvirkjum í landinu í fullnægjandi horf, m.a. þannig að það uppfyllti alþjóðlega staðla Alþjóðaflugmálastofnunar, ICAO-staðla og annað slíkt. Það verður að segja það eins og er, herra forseti, að fyrir daga þessarar áætlunar og þessa átaks var ástandið í þessum málum í raun og veru alveg skelfilegt. Flugöryggismál voru í hreinum ólestri ef svo má að orði komast ekki vegna þess að menn reyndu ekki af góðum vilja að gera eins og þeir gátu heldur ósköp einfaldlega vegna þess að mannvirkin sem notast var við voru víðs fjarri því að uppfylla þær kröfur sem þurfti að gera. Það var þetta neyðarástand, herra forseti, og það voru þessar alvarlegu aðstæður og fjársvelti til framkvæmda á þessu sviði árin þar á undan sem ollu því að menn sættust á þær miklu viðbótarálögur sem fólust í upptöku hinna mörkuðu tekjustofna flugmálaáætlunarinnar eða framkvæmda í flugmálum á árinu 1987.

Herra forseti. Ég held þegar svo er komið að verulegum hluta þessara tekna er nú ráðstafað til annarra þátta en upphaflega stóð til og að á undanförnum árum hefur verið í gangi samfelld aukning á þeirri skerðingu hinna mörkuðu tekjustofna sem beitt er eða öllu heldur þeim tekjum sem renna þá til annarra þarfa, til rekstrarkostnaðar hjá Flugmálastjórn og núna til Keflavíkurflugvallar, að ástæða sé til að minna á þetta og sérstaklega nú þegar leggja á niður gjaldið af eldsneytinu --- fyrir því eru ákveðnar ástæður sem menn þekkja --- en hækka í staðinn hvað varðar innanlandsflugið, álögurnar í lendingargjöldunum eða á flugfarþegana sem auðvitað að endingu bera þennan kostnað og engir aðrir geta gert. Ég hefði ekki séð eftir því, herra forseti, þó að þetta aldsneytisgjald hefði ósköp einfaldlega verið fellt niður í ljósi þessarar stöðu án þess að hækka álögurnar á móti á innanlandsflugið og að munurinn hefði einfaldlega verið brúaður úr ríkissjóði vegna þess að það er í reynd búið að létta þarna stórfelldum útgjöldum af ríkissjóði á undanförnum árum í gegnum þá skerðingu á mörkuðum tekjum sem hafa runnið þangað nú þegar.

Ég vil í öðru lagi minna á það, herra forseti, að það er því miður ekki þannig að rökin fyrir þessari stórfelldu skerðingu á framkvæmdafénu séu þau að öllu sé lokið sem lýtur að uppbyggingu í flugsamgöngumannvirkjum í landinu. Þar er eitt stærsta verkefnið enn þá algerlega eftir og það er að koma Reykavíkurflugvelli í viðunandi horf og byggja flugstöð á eða við Reykjavíkurflugvöll. Það er stórfellt óhagræði að því að hafa þann rekstur í þeim kofum á tvist og bast í kringum flugvöllinn sem hann er í nú, húsnæði sem nánast nálgast það að vera til skammar fyrir land og þjóð, gamlir braggar frá Bretatímanum við flugvöllinn, svo ekki sé minnst á það óhagræði að hafa þetta ekki á einum stað í sæmilega myndarlegu húsnæði þar sem allar samgöngurnar tengdust í einum punkti, leiguflug og áætlunarflug innan lands og tenging við millilandaflugið í Keflavík. Best hefði auðvitað verið ef sérleyfisbílaþjónustan á suðvesturhorninu hefði átt sér samastað í sömu byggingu eða í byggingu á sama svæði.

Auðvitað má segja að öll saga Reykjavíkurflugvallar sé ein stórfelld skipulagsmistök og dreifingin á samgönguhúsakostinum í kringum völlinn endurspeglar það að þessu var hrækt niður á sínum tíma til allt annarra þarfa en þeirra sem það þjónar nú í dag. Auðvitað þýðir ekki að fást um það sem liðið er eða þau mistök sem þegar hafa verið gerð í þessu og verða ekki upp tekin og eru þó kannski þau stærst að leyfa íbúðabyggð á Álftanesi þannig að þar var eyðilagður eini góði kosturinn sem til var til að byggja einn flugvelli í næsta nágrenni höfuðborgarinnar sem hefði getað þjónað bæði áætlunarflugi innan lands og millilandaflugi á fullnægjandi hátt. Ekki þarf að fara neinum orðum um það stórfellda hagræði sem hefði orðið af því fyrir landsmenn að hafa einn flugvöll sem hefði getað leyst bæði hlutverkin af hendi. En það fór sem fór og Reykjavíkurflugvöllur er staðreynd þar sem hann er og ekkert er í sjónmáli annað en að hann verði notaður um langt árabil til að sinna a.m.k. áætlunarfluginu innan lands enda er það hagstætt að ýmsu leyti að hafa hann þar sem hann er í þeim skilningi að hann er inni í borginni og það mun styrkja samkeppnisstöðu áætlunarflugsins í samkeppni við samgöngur á landi í sjálfu sér að hann er þó ekki fjær þeim stöðum sem menn koma til að sækja þegar þeir koma til höfuðborgarinnar en raun ber vitni.

Þá verður að ráðast í það og er vonum seinna að reyna að koma því í gang, að gera þær úrbætur á bæði flugbrautunum og þó ekki síður á þjónustumannvirkjunum í kringum flugvöllinn sem er alveg bráðnauðsynlegt að gera. Það er því ekki svo, herra forseti, því miður að menn séu búnir að ljúka þannig þessari uppbyggingaráætlun í flugsamgöngumálum okkar að það séu sérstök rök fyrir þessari miklu skerðingu.

[14:45]

Reyndar var flugmálaáætlun á sínum tíma þannig uppbyggð að ætlunin var að stórverkefnin væru sérframkvæmdir og fjármögnuð af viðbótartekjum en ekki tekið af hinum mörkuðu tekjustofnum. Það átti við um Egilsstaðaflugvöll, varaflugvöll og flugstöðvarbyggingu í Reykjavík.

Að lokum, herra forseti, af því þetta mál tengist einnig stöðu mála í Keflavík. Þarna verður nokkur breyting á þeim fjárveitingum sem flugmálaáætlunin gerði áður ráð fyrir að rynnu til Keflavíkur en það var tekið upp eins og kunnugt er við gerð síðustu flugmálaáætlunar ef minni mitt svíkur ekki, að nokkrar fjárhæðir skyldu á hverju ári á gildistíma áætlunarinnar renna til Keflavíkur.

Herra forseti. Ég vil af þessu tilefni spyrjast fyrir um það í ljósi þess að svonefnt Schengen-mál sem tengist mjög áformum um uppbyggingu í Keflavík er í upplausn og uppnámi og engin svör fást frá hæstv. ríkisstjórn um það hvað verður gert í því máli, hvort ekki sé tilefni til að endurmeta áform um framkvæmdirnar í Keflavík og þó kannski ekki síður tilhögun þeirra, hvernig staðið verður að uppbyggingu þar í ljósi þess sem liggur nú fyrir í Schengen-málinu eða þegar einhver botn fæst í það. Mér sýnist sjálfum að það gæti verið fullkomin óvissa um að þau áform sem hæstv. utanrrh. hefur barist fyrir með oddi og egg í þessu máli, að troða Íslandi inn í þetta Schengen-samkomulag með góðu eða illu, aðallega með illu því það hefur ekki verið kostur á öðru, gangi yfir höfuð upp, jafnvel þótt Íslendingar sem eru þó ekki eins og kunnugt er aðilar að Evrópusambandinu og ekki er á dagskrá a.m.k. að sögn hæstv. forsrh. að við verðum, vilji endilega halda áfram sem aðilar að þessu samkomulagi sem er nú orðið hluti af stofnsamþykktum Evrópusambandsins, búið er að innlima í Evrópusambandið og réttarregluverk þess, þar á meðal að hluta til í fyrstu stoð, því Evrópusambandið muni ósköp einfaldlega ekki ljá máls á því, eða að það finnist engar lausnir sem bjóði upp á það burt séð frá því hvort menn eru því fylgjandi eða ekki fylgjandi. Það er mál sem hefur heilmikil áhrif á það hver framkvæmdaþörfin verður í Keflavík og þá kannski sérstaklega hvernig á og þarf að standa að hönnun mannvirkja þar og jafnvel að einhverju leyti að framkvæmdahraða. Ég sakna þess að upplýsingar séu veittar um þennan þátt málsins í tengslum við þá umræðu sem hér hefur farið fram m.a. og það sem kemur fram í þessu máli sem tengist fjárhagsstöðu flugstöðvarinnar í Keflavík og rekstrarins þar og framkvæmdanna sem þar eru fram undan og ég vil taka fram fyrir mitt leyti að er að sjálfsögðu að verulegu leyti bráðnauðsynlegt að ráðast í. Ég er ekki að mæla gegn því. Að sjálfsögðu verður flugstöðin í Keflavík og landgangar þar og önnur aðstaða að anna þeirri umferð sem þar fer um á fullnægjandi hátt. Það er engin deila um það en hitt liggur alveg fyrir að hönnunin og þar með talið að einhverju leyti kostnaðurinn og jafnvel framkvæmdahraðinn er verulega háður þeim forsendum sem menn gefa sér um aðild eða ekki aðild Íslands að Schengen. Hvort í Keflavík verða ytri landamæri Evrópusambandsins eða ekki. En um það snýst málið. Verði þar ytri landamæri Evrópusambandsins þarf að koma upp þar allri þeirri aðstöðu og þeim búnaði sem þar þarf að vera til að taka hundruð þúsunda og jafnvel seinna meir milljónir farþega frá öðrum svæðum, aðallega þó frá Norður-Ameríku, inn í Evrópusambandið í gegnum þau hlið sem þá yrðu þar á grundvelli Schengen-samningsins, á Íslandi inn að þeim samningi.

Hefur hæstv. samgrh., sem ég veit ekki hvort er jafneldheitur áhugamaður um aðild Íslands að Schengen í sjálfu sér og hæstv. utanrrh., einhverjar fréttir af þessu máli og er hann tilbúinn að svara fyrir það? Það hlýtur reyndar að gilda einu eftir að Framsfl. og Sjálfstfl. sameinuðust úr hvorum flokknum ráðherrann kemur sem svarar. Sem kunnugt er er formaður Framsfl. orðinn varaformaður Sjálfstfl. og öfugt. Þeir gegna nú störfum hvor fyrir annan, forsrh. og utanrrh., bara eftir hendinni og tala þar af leiðandi einum rómi. Ég geri ráð fyrir að það gildi einnig um aðra ráðherra í ríkisstjórninni að hér eftir skipti ekki máli hvort þeir tilheyri ,,tilfældigvis`` Sjálfstfl. eða Framsfl. Mér þætti vænt um, herra forseti, ef hæstv. samgrh. gæti aðeins upplýst okkur um þetta mál.