Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 14:57:45 (5617)

1998-04-21 14:57:45# 122. lþ. 108.3 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál. 18/122, 509. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (gjald af flugvélabensíni) frv. 56/1998, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[14:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er furðulegt að maður skuli ekki mega nefna á nafn flugstöðina í Keflavík, Leifsstöð, án þess að það sé kallað andstaða við hana eða pirringur út í hana eða eitthvað því um líkt. Er þetta heilög kýr sem ekki má nefna á nafn í augum hv. þm. sem búa á Suðurnesjum? Ég lít ekki á það sem gælumál Suðurnesjamanna hvernig rekstri er háttað þarna. Þetta er millilandaflugstöð fyrir allt Ísland og varðar okkur auðvitað öll hvernig með er farið. Ég var að vísa þar til hönnunarinnar á byggingunni og hvernig að þeim framkvæmdum öllum var staðið og ég stend við hvert orð í því að hún var út í hött sú hönnun. Þetta var montbygging og hún varð allt of dýr. Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík er nú þegar orðin of lítil og það þarf að byggja við hana fyrir marga milljarða króna, bara t.d. til að anna vaxandi umferð fram til ársins 2010. Á sama tíma og hún var í byggingu höfðu nýlega verið reistar flugstöðvar, t.d. í Helsinki sem áttu að taka þrefalt meiri umferð og hafa síðan reynst anna þeirri umferð og þær kostuðu minna en íslenski hlutinn í flugstöðinni í Keflavík. Þær eru þannig úr garði gerðar þar fyrir utan að auðvelt er að stækka þær. Það eru álmubyggingar sem auðvelt er að bæta við til beggja enda. En það á ekki við um flugstöðina í Keflavík eins og kunnugt er og það skapar m.a. þau vandamál að núna við stækkunina þarf að byggja nýja byggingu við endann á landganginum af því kassinn sem þarna var byggður með þessum tilþrifum og steypuhlunkum út úr þakinu er þannig úr garði gerður að ekki er nokkur leið að tengja nokkurn skapaðan hlut við hann. Tilraunir til að tengja innanlandsflug við millilandaflugið í Keflavík mistókust einnig m.a. vegna þess að ekki var nokkur leið að koma aðstöðu fyrir innanlandsflug sómasamlega fyrir í þessari stóru byggingu, vegna þess hvernig hún var hönnuð. Getur hv. þm. staðið á því að það sé ekki hönnunargalli að gera ekki ráð fyrir því í þessu mikla húsi að þar geti t.d. verið eitthvert svæði fyrir innanlandsflug? Ég held að hv. þm. sé algerlega berskjaldaður með þann málflutning að þarna hafi ekki ýmislegt farið úr böndunum og við ættum nú að ræða málin á einhverjum öðrum nótum en þeim.