Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 15:10:49 (5619)

1998-04-21 15:10:49# 122. lþ. 108.3 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál. 18/122, 509. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (gjald af flugvélabensíni) frv. 56/1998, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[15:10]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert að hæstv. ráðherra ræddi um að sú vöntun sem væri að finna á áætluninni allri, á yfirstandandi ári 13 millj., á næsta ári 17 millj., á þriðja ári 19 millj. og á fjórða ári 21 millj., væri innan skekkjumarka. Til að gefa hæstv. ráðherra hugmynd um hvaða stærðargráður þetta eru, við skulum segja á fjórða árinu, sem er 21 milljón, þá er það svona svipuð tala og fer til framkvæmda á Reykjavíkurflugvelli í ár. Það er jafnhá tala og fer til framkvæmda á Húsavíkurflugvelli í ár. Þetta er svona innan skekkjumarka þannig að það má þá vænta þess að menn geti gleymt, ef illa fer, framkvæmdinni á Húsavík kannski.

En auðvitað ljúka menn ekkert við mál á þennan hátt. Og vissulega er það þannig að ef ekki reynist unnt að halda sig innan þessara marka, þá kemur til kasta fjáraukalaga.

En spurning mín var hins vegar sú hvort hæstv. ráðherra gæti ekki svarað fyrir fullt og fast að í forsendum næstu fjárlagagerðar verði ekki gripið til þess ráðs að segja við t.d. Flugmálastjórn og/eða aðra rekstraraðila í fluginu: Nú skuluð þið skera niður um þessar 17 millj. Við skulum ná niður þessum kostnaði og minnka viðhald og minnka endurbætur, eftirlit eða hvað eina. Hvort hæstv. ráðherra geti ekki einfaldlega sagt hér við þingheim, eins og hv. stjórnarþingmenn fullyrtu í samgn., að þessir viðbótarfjármunir, þessar 17 millj., 21. millj. og 23 millj., kæmu á næstu þremur árum á fjárlögum þessara ára úr ríkissjóði. Þetta var ósköp einföld spurning og ég átti satt að segja von á því að ég gæti fengið einfalt svar við henni. Get ég það, virðulegi forseti?