Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 15:17:58 (5622)

1998-04-21 15:17:58# 122. lþ. 108.3 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál. 18/122, 509. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (gjald af flugvélabensíni) frv. 56/1998, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[15:17]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til að þakka fyrir að hæstv. ráðherra reynir þó að vera þátttakandi í umræðunni. Það breytir því ekki að hæstv. ráðherra er einfaldlega að segja allt aðra hluti en fram komu í samgn. Ég fer þess á leit við hv. 1. þm. Vestf., formann nefndarinnar, að hann lýsi túlkun sinni í þessum efnum því að þráspurt var um það. Það er ósköp einföld spurning þess efnis: Mun það ekki verða tryggt á þeim þremur árum, á árinu 1999, árinu 2000 og árinu 2001, að það komi hækkun á framlagi úr ríkissjóði sem nemur þeim tölum sem hér hafa verið margraktar, 17 millj. 1999, 19 millj. árið 2000 og 21 millj. árið 2001? Mér nægir það ekki, virðulegi forseti, að menn fabúleri um einhver skekkjumörk. Það er allt annar hlutur. Ég tel eðlilegt að menn ljúki þessari áætlun á núlli. Það getur vel verið að einhver afgangur verði á yfirstandandi ári. Það getur vel verið að menn hrökkvi yfir á yfirstandandi ári. Það er auðvitað einhver óvissa sem menn vita ekkert um. En það er eðli áætlunargerðar að hún gangi upp og ef hún gengur ekki upp þá liggi fyrir alveg klárt og kvitt áform um hvernig eigi að brúa það bil. Í þessu ljósi er fyrirspurn mín. Er ráðherrann ekki tilbúinn til að bakka upp yfirlýsingar stjórnarþingmanna í samgn. um að þessir fjármunir verði brúaðir við fjárlagagerð þeirra ára sem um ræðir? Ef hann er það ekki verður nefndin að taka málið aftur upp og ræða það milli umræðna. Það gefur auga leið. Þá er líka hæstv. ráðherra búinn að gera eigin flokksmenn að ómerkingum og það er enn þá verra.