Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 15:34:07 (5628)

1998-04-21 15:34:07# 122. lþ. 108.3 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál. 18/122, 509. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (gjald af flugvélabensíni) frv. 56/1998, KH
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[15:34]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég get ekki orða bundist við þessa umræðu því að mér óar við því að það eigi að samþykkja áætlunina eins og hún liggur fyrir. Ég segi það alveg eins og er. Því miður hef ég ekki getað fylgst með störfum hv. samgn. sem áheyrnaraðili eins og ég gerði undanfarin tvö ár. Ég hef því ekki átt þess kost að heyra öll rök í þessu máli. En ég hef auðvitað fylgst með þeirri umræðu sem hefur farið hér fram og það veldur mér mjög miklum vonbrigðum að ekki hafi verið gerð breyting á áætluninni eins og hún var lögð fram.

Þá á ég fyrst og fremst við það fjármagn sem er ætlað til Reykjavíkurflugvallar. Mér finnst ábyrgðarhluti af hv. Alþingi að ætla að samþykkja tillöguna eins og hún liggur fyrir með aðeins 29 millj. kr. framlagi til endurbóta á Reykjavíkurflugvelli. Ég legg áherslu á að þetta er ekki dæmigert kjördæmamál heldur er um að ræða hagsmuni landsmanna allra og áhugamál landsmanna allra. Það er kannski ekki síður hagsmunamál landsbyggðarmanna sem nota þessa lífæð mikið.

Menn hafa stundum rætt í fullri alvöru að innanlandsflugið þyrfti að flytjast í burtu frá Reykjavík, völlurinn væri fyrir í skipulaginu og við vitum að skoðanir eru skiptar um það efni. Ég held að það verði ekki gert, a.m.k. ekki í náinni framtíð og ekki með samgöngur eins og þær eru, t.d. við Keflavíkurflugvöll. Þeir sem hafa reynt það, og margir landsmenn hafa reynt það, að bíða eftir flugi út á land og þurft að hafa samband mörgum sinnum á dag til þess að kanna hvort flogið yrði eða ekki, hugsa til þess með hryllingi ef völlurinn væri fluttur.

Ég segi að það sé ábyrgðarhluti að samþykkja fjárhæðina eins og hún er. Ég þarf ekki að leita annarra raka en þeirra sem koma fram í grg. með ályktuninni þar sem fjallað er um ástandið á Reykjavíkurflugvelli. Vitnað er til skýrslu sem gerð var árið 1995 um ástand flugbrauta, akbrauta og flughlaða. Helstu niðurstöður þeirrar skýrslu, sem orðin er þriggja ára gömul, eru að ástand flugbrautanna sé alls óviðunandi.

Hér er talið upp í átta liðum hvað gera þurfi til þess að bæta um þannig að öryggismálum sé sómasamlega fyrir komið. Það er fjallað um ýmislegt í þessum liðum og helstu einkunnirnar eru ,,mjög víða ófullnægjandi``, og ,,almennt alls ófullnægjandi``, ,,akbrautir uppfylla nánast engar af þeim rúmfræðilegu kröfum sem til þeirra eru gerðar``, ,,merkingum áfátt``, ,,ljósabúnaður rangt staðsettur``, malbikið er í misjöfnu ástandi``, ,,steypan sums staðar heilleg en annars staðar mikið brotin``, ,,burður nokkuð misjafn`` og í áttunda lið er t.d. sagt svo: ,,Hins vegar benda falllóðsmælingar til að burður sé hlutfallslega lakari þar sem steypan er brotin og þar sem hana vantar en þar sem steypan er enn í góðu lagi.`` Og skyldi nú engan undra að svo sé eins og hér er lýst.

Þessu lýkur með orðunum: ,,Eins og fram kemur er ástand flugbrautanna alls óviðunandi þegar það er borið saman við þá staðla sem Alþjóðaflugmálastofnunin setur sem skilyrði og/eða mælist til að notaðir séu fyrir flugvelli.``

Þetta ástand getur auðvitað ekki gengið. Þær umsagnir sem flugmenn hafa gefið um ástand þessa flugvallar sem þeir þurfa að nota eru ófagrar og nánast hrollvekjandi lýsingar. Hægt væri að vitna í margt af því sem þeir hafa sagt en það verður ekki gert hérna. Ég legg áherslu á að þetta er ástand sem við eigum ekki að sætta okkur við og það er ábyrgðarhluti að samþykkja þetta.

Ég hef hlustað á rökin sem hafa komið fram í máli hæstv. samgrh. og talsmanna þessarar áætlunar en ég er ekki sátt við viðhorf þeirra. Vísað er til þess að nýlega sé búið að ná samkomulagi um deiliskipulag og fyrirkomulag þessara mála en enginn þarf að segja mér að eftir að þessar skýrslur hafa verið gerðar og athuganir og niðurstöður fengnar sé ekki búið að gera einhverjar áætlanir um úrbætur. Það ætti ekki að þurfa mikinn undirbúning til þess að vinda sér í þær framkvæmdir sem bráðnauðsynlegar eru. Þetta er öryggismál og brýnt hagsmunamál landsmanna allra. Ég segi enn og aftur að það er ábyrgðarhluti að ætla að samþykkja tillöguna eins og hún er með svona lítið fjármagn til þeirra bráðnauðsynlegu endurbóta sem þurfa að fara fram á Reykjavíkurflugvelli og það þegar í stað.