Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 15:45:51 (5631)

1998-04-21 15:45:51# 122. lþ. 108.3 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál. 18/122, 509. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (gjald af flugvélabensíni) frv. 56/1998, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[15:45]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvað vakir fyrir hv. þm. Hann talar um sleifarlag í samgrn. eða hjá Flugmálastjórn eða hjá hverjum? Kannski hjá hv. borgarstjóra sem er fjarverandi umræðurnar. Fyrir liggur að deiliskipulag er ekki frágengið.

Í gær og í dag voru bréfaskipti milli flugmálastjóra og borgarinnar. Eins og fram kemur í þessum bréfum leggjum við áherslu á að samstarfsnefnd Flugmálastjórnar og borgarstjóra geti hist mjög fljótlega og ég vona að þar verði samkomulag um orðalag. Vitanlega er ljóst að ekki er hægt að bjóða út verk fyrr en deiliskipulag liggur fyrir og stöðuleyfi flugvallarins, þar sem hann er núna. Ég skil ekki hvernig hv. þm. dettur í hug að búast við að hægt hefði verið að ljúka framkvæmdum við flugvöllinn eða hefja endurbætur á flugvellinum kannski fyrir þremur árum, löngu áður en borgin hafði farið yfir þau mál hjá sér, gert sér grein fyrir framtíðarstöðu flugvallarins og þar fram eftir götunum.

Auðvitað er stöðuleyfi flugvallarins forsenda þess að hægt sé að ráðast í endurbætur. Við erum að tala, herra forseti, um hálfan annan milljarð króna í endurbætur á flugvellinum. Ef við tölum um flugstöðina til viðbótar þá snýst þetta um tvo milljarða króna. Það er því ekki hægt að hlaupa í slíkt nema fullkomið samkomulag sé milli Flugmálastjórnar og borgaryfirvalda um það hvernig halda skuli á málinu. Ég átta mig ekki á því hvað hv. þm. á við með sleifarlagi. Má vera að hv. þm. finnist vera sleifarlag á því hvernig haldið hafi verið á þessum umræðum af hálfu borgarstjóra og samgrh. sameiginlega? Má vera.