Loftferðir

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 16:29:18 (5635)

1998-04-21 16:29:18# 122. lþ. 108.5 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv. 60/1998, Frsm. meiri hluta EKG
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[16:29]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum núna, frv. til laga um loftferðir, hefur fengið sérlega mikla umfjöllun Alþingis. Í 1. umr. var að sjálfsögðu gerð mjög ítarleg grein fyrir frv. Þetta er í annað skipti sem það kemur fyrir þingið. Í samgn. Alþingis var þetta sent út til umsagnar mjög margra aðila, þeirra sem við gátum látið okkur detta í hug að hefðu áhuga á þessu máli eða teldu sig þetta varða. Þær umsagnir komu frá mjög mörgum aðilum, ítarlegar, vandaðar og málefnalegar, og samgn. Alþingis fór ofan í þetta mál á ótal fundum.

[16:30]

Frv. fékk með öðrum orðum mjög vandaða málefnalega umfjöllun í samgn. þar sem allir samgöngunefndarmenn, meirihlutamenn jafnt sem minnihlutamenn, komu að málinu.

Ef við skoðum þær brtt. sem lágu fyrir Alþingi við 2. umr. málsins, sýnist mér að þær væru um 30. Það liggja tvær brtt. fyrir um þetta mál nú við 3. umr. málsins, önnur frá hæstv. samgrh., hin frá meiri hluta samgn. Af þessu sést að þó stundum sé tilefni til þess að tala sem svo að mál fari á færibandi í gegnum Alþingi, fái ekki eðlilega umfjöllun og þingið taki ekki pólitíska sjálfstæða afstöðu til málanna, á það alveg sérlega illa við í umræðunni um þetta mál. Ég vil þess vegna láta það koma mjög skýrt fram að ég tel að það hafi verið fremur ómakleg orð hjá hv. 17. þm. Reykv. að gefa það til kynna að við, sem berum ábyrgð á þessu máli, a.m.k. hér, bæði hæstv. samgrh. og ég, hefðum ekki reynt að taka efnislega fullan þátt í þeirri umræðu sem fram hefur farið um málið. Það gerði ég svo sannarlega við 2. umr. og ég var að sjálfsögðu reiðubúinn til að gera það við 3. umr., þurfti að grípa til þess í tvær mínútur eða eina mínútu að fara fram í símann vegna skuldbindinga sem ég var afboða mig frá og það var skýringin á því að ég stóð handan við þilið til að koma því á framfæri og annað var það ekki.

Ég vil hins vegar segja að ég tel mjög eðlilegt að við ræðum málið ítarlega hér eins og annars staðar vegna þess að hér er um að ræða grundvallarlagasetningu. Þetta er grundvallarlagasetning um loftferðir sem tekur til ákaflega mikilvægrar atvinnugreinar. Atvinnugreinar sem þúsundir manna taka þátt í og eru auðvitað grundvöllurinn að samgöngum okkar við útlönd og grundvöllurinn að ferðaþjónustunni í landinu svo dæmi sé tekið. Ég er að sjálfsögðu tilbúinn til að ræða þessi mál vel og ítarlega vegna þess að ég tel að frv. verð\-skuldi fulla umræðu og verðskuldi mikla athygli og þetta er kannski dæmi um mál sem fer ekki mikið fyrir í opinberri umræðu. Hér er um að ræða mál sem er grundvallarlagasetning, stórt mál en vekur hins vegar kannski ekki mikla opinbera athygli.

Ég vil líka segja, virðulegi forseti, alveg skýrt og greinilega að 7. gr. þessa frv. fékk að sjálfsögðu líka sína athygli. Það var hins vegar um að ræða pólitískan ágreining um málið í nefndinni. Minni hluti samgn. var annarrar skoðunar en meiri hlutinn. Meiri hlutinn komst að þeirri niðurstöðu að halda bæri óbreyttri 7. gr. eins og frv. gerði ráð fyrir. Hæstv. samgrh. hefur hins vegar lagt til að gera nokkra breytingu á sem er eðlilegt að hæstv. samgrh. sjálfur geri grein fyrir.

Þá skulum við velta aðeins fyrir okkur vegna þess að 7. gr. er til umræðu, ekki bara brtt. hæstv. ráðherra því að hún snertir efnisatriði 7. gr., hvers vegna það var sem við komumst að þeirri niðurstöðu í meiri hluta samgn. að skynsamlegt væri að halda þessari grein þarna inni. Í því sambandi vil ég sérstaklega vekja athygli á og vísa til umsagnar um 7. gr. sem birtist í frv. sem varpar ljósi á tilgang og þýðingu þess að grein af þessu taginu sé til staðar í frv. og opni þær lagaheimildir sem þarna er verið að opna á. Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, í þessu sambandi að lesa upp úr þessari greinargerð:

,,Á undanförnum árum hefur verið mikil umræða um rekstur ríkisstofnana, hlutverk þeirra og hvernig hagkvæmni þeirra verði aukin.

Í því sambandi hefur samstarf ríkisstofnana við íslensk og erlend fyrirtæki aukist og frekari aukning í vændum, enda eru tækifærin mörg. Markmið samstarfs af þessu tagi er bæði að efla þekkingu og framfarir hér á landi, auka rannsóknir, bæta áætlunargerð og enn fremur að koma á framfæri á erlendum mörkuðum búnaði og þekkingu sem fyrir hendi er hér á landi og selja þjónustu. Það er því nauðsynlegt að hlutaðeigandi stofnanir hafi svigrúm til að taka þátt í þessu samstarfi, t.d. með stofnun hlutafélaga eða annarri þátttöku í fyrirtækjarekstri í þessu markmiði. Slíkt svigrúm hafa stofnanir ekki í dag að óbreyttum lögum. Með því að heimila þeim þátttöku í fyrirtækjarekstri er stofnuninni gert kleift að nýta tækifæri sem gefast til að auka sjálfstæði þeirra, ná meiri hagkvæmni og bæta afkomu á breyttum tímum.``

Síðan segir enn fremur: ,,Ákvæði greinar þessarar hafa þríþættan tilgang. Í fyrsta lagi er lagarammi settur um samstarf eins og samstarf Flugmálastjórnar og Kerfisfræðistofu verkfræðideildar Háskóla Íslands sem hefur staðið árum saman og lýtur að þróun hugbúnaðar fyrir flugumferðarþjónustu. Er um þetta fjallað í 1. mgr. en fyrirmynd hennar er sótt í gildandi lög um Háskóla Íslands.

Jafnframt er lagt til að Flugmálastjórn verði heimilað að stofna fyrirtæki til að selja þjónustu stofnunarinnar.

Samkvæmt 3. mgr. er hins vegar opnuð leið fyrir þann möguleika að færa hluta af starfsemi Flugmálastjórnar í hendur sjálfstæðra aðila sem starfa mundi í nánum tengslum við embættið en erlendis er nokkuð tíðkað að stofna sérstök félög um t.d. flugumferðarþjónustu.``

Ég held, virðulegi forseti, að þetta séu ákaflega mikilvæg rök. Þetta skiptir máli og þetta eru efnisleg rök og við tókum efnislega afstöðu til málsins og við lýstum okkur sammála því sjónarmiði sem þarna er sett fram og kristallast að sjálfsögðu í 7. gr. eins og hún birtist í þessu frv.

Hægt er að tíunda ýmislegt annað í þessu sambandi. Ég vek t.d. athygli á því sem ég tel sjálfur að sé veigamikið innlegg og það er innlegg minni hluta samgrn. sem vekur athygli á því í minnihlutaáliti sínu við 2. umr. málsins að að sumu leyti væru ákveðnir agnúar á skipulagi Flugmálastjórnar. Annars vegar væri um að ræða framkvæmdaaðila sem sér um framkvæmd og það að starfrækja flugvallarnetið í landinu og síðan erum við með eftirlitsaðila sem líka yrði Flugmálastjórn og hefur eftirlit að nokkru leyti með sjálfri sér. Ég er að vísu ekki sammála þeirri niðurstöðu sem minni hlutinn kemst að en ég held hins vegar að þetta sé athyglisverð ábending sem okkur beri að líta á. Ég segi, virðulegi forseti, hér er verið að opna þann möguleika að auka skilin á milli annars vegar framkvæmdaþáttarins er verkast vill og hins vegar eftirlitsþáttarins. Þess vegna held ég, virðulegi forseti, að þessi grein sé liður í því að koma til móts við það sjónarmið að það sé eðlilegra að við höfum annars vegar framkvæmdaþáttinn og hins vegar eftirlitsþáttinn. Ef við skoðum þróunina í lagasetningu einmitt á þessu sviði hefur hún verið í þessum anda.

Fyrir örfáum árum voru afgreidd lög á Alþingi um rannsókn flugslysa. Niðurstaðan þar var sú að taka þann þátt út úr Flugmálastjórn og gera hann sjálfstæðan einmitt vegna þeirrar röksemdafærslu sem birtist í áliti minni hluta samgn. að auka beri sjálfstæði og slíta þarna á milli.

Hv. 17. þm. Reykv. fór mikinn varðandi einkafjármagnið. Þetta eru hins vegar líka pólitískt deilumál. Ég lít ekki þannig á að það sé verkefni okkar að útkljá þá deilu. Ef beitt yrði einkafjármögnun varðandi Reykjavíkurflugvöll eða einhver önnur verkefni á vegum ríkisins er það auðvitað sjálfstæð ákvörðun. Hér er annars vegar um það að ræða að við erum að fjalla um 7. gr. sem opnar tilteknar heimildir og hins vegar er hér um að ræða þá skoðun hv. þm. að einkafjármögnum sé ekki heppileg leið til þess að annast framkvæmdir á vegum hins opinbera. Það eigi að fara aðrar leiðir. Það er hins vegar sjónarmið hans sem ég virði fullkomlega þó að ég sé ekki endilega sammála því.

Virðulegi forseti. Meðal annars vegna þeirra orða hv. þm. sem hann lét falla í þessari umræðu um ósjálfstæði þingsins og menn tækju ekki eðlilegan þátt í þinglegri umræðu fannst mér nauðsynlegt að ég gerði aðeins grein fyrir þeim þankagangi sem bjó að baki umfjölluninni í hv. samgn. varðandi þetta mjög mikilvæga mál sem frv. til laga um loftferðir er. Ég ítreka að ég tel að þetta sé eitt af stóru málunum sem Alþingi er núna að fást við, þ.e. að setja þessa heildarlagasetningu og ég held þess vegna að það sé mjög mikilvægt að okkur takist vel til og ég trúi því að það verði niðurstaða Alþingis á þessum vordögum.