Loftferðir

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 16:40:01 (5636)

1998-04-21 16:40:01# 122. lþ. 108.5 fundur 201. mál: #A loftferðir# (heildarlög) frv. 60/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[16:40]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. formanni samgn. fyrir innlegg hans í umræðuna og sérstaklega þar sem hann vék að 7. gr. frv. Það skýrir fyrir okkur hvers vegna tillögur eru gerðar um lagabreytingar, hvaða efnisleg rök liggja þar að baki. Ég minni hv. þm. á að það er þetta sem ég er að reyna að fá fram í dagsljósið, hvað það er sem vakir fyrir löggjafanum með þeim lagabreytingum sem hann er að leggja til og ætlar að festa í lög. Þinginu á að vera fullljóst hvað það er sem hér hangir á spýtunni.

Hv. þm. segir að það sé svo önnur spurning hvað menn geri varðandi einkaframkvæmdina en ég vek athygli á því að fulltrúi sömu ríkisstjórnar, hæstv. fjmrh., nú hæstv. fyrrv. fjmrh., tilkynnti þjóðinni að til stæði að skoða einkaframkvæmd á Reykjavíkurflugvelli sérstaklega. Þegar hv. samgn. kemur síðan fram með tillögu um lagabreytingu af þessu tagi er ekki óeðlilegt að menn taki slíkt til umfjöllunar og inni menn eftir því sem eru ábyrgir fyrir þessum tillögum hvað það er sem fyrir þeim vakir.