Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 18:13:40 (5650)

1998-04-21 18:13:40# 122. lþ. 108.17 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[18:13]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér fannst athyglisvert að hlýða á mál hv. þm. einkum vegna þess að ég átti kannski von á að það kæmi upp svolítið annar flötur hjá hv. þm. Hér eiga menn að sjálfsögðu fullan rétt á því að hafa hvaða skoðun sem er sem betur fer.

Ég er ekki sammála hv. þm. um að málið sé vel unnið. Mér duttu í hug ummæli Snorra um háðið þegar hv. þm. hafði þau orð uppi hversu vandaður undirbúningurinn væri.

Ég hef líka ákveðnar efasemdir um það að upplýsingar af þeim toga sem hér um ræðir séu gerðar að markaðsvöru og fyrst og fremst litið á þær út frá því sjónarhorni. Ég leyfi mér að vísa til III. kafla í samþykkt ráðherranefndar Evrópuráðsins og samninginn um verndun mannréttinda og mannlegrar reisnar að því er varðar beitingu líffræði og læknisfræði.

Í III. kafla, Einkalíf og réttur til að fá upplýsingar, er kveðið á um þessi efni með þeim hætti að ég held að það sé nauðsynlegt að menn skoði þetta mál í tengslum við það. Þar segir í 10. gr. um einkalíf og rétt til að fá upplýsingar:

,,1. Allir eiga rétt á að einkalíf þeirra sé virt, að því er varðar upplýsingar um heilbrigði þeirra.

2. Allir eiga rétt á að fá að vita um hverjar þær upplýsingar eru sem safnað er um heilbrigði þeirra. Hins vegar skal virða óskir einstaklinga um það, að þeim verði ekki veittar upplýsingar á þennan hátt.

3. Í þágu sjúklingsins er í undantekningartilvikum í lögum hægt að takmarka beitingu þess réttar, sem felst í annarri málsgrein.``

Síðan eru fleiri kaflar eins og IV. kafli og V. kafli í þessari samþykkt. Ég held að það greiði ekkert götu málsins, sem mér finnst mikillar athygli vert sem slíkt, en kallar hins vegar á það að menn vandi sig mjög verulega við athugun málsins vegna þess að það hefur líka fordæmisgildi. Þá finnst mér það ekki ná nokkurri átt að ætla að ganga blindandi í þennan leik eins og hv. þm. er í rauninni að mæla með.