Lyfjalög

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 19:22:05 (5662)

1998-04-21 19:22:05# 122. lþ. 108.16 fundur 652. mál: #A lyfjalög# (Lyfjamálastofnun o.fl.) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[19:22]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég ætla að segja nokkur orð um þetta frv. til laga um breytingu á lyfjalögum. Eins og kom fram í framsögu er verið að setja verkefni tveggja stofnana undir eina, þ.e. verið er að sameina Lyfjaeftirlit ríkisins og lyfjanefndina í einni stofnun og tekur sú stofnun yfir öll verkefni hinna fyrri stofnana auk nokkurra viðbótarverkefna. Þar er skráning og eftirlit með verkunum og aukaverkunum lyfja og síðan einnig umsjón með skráningu og eftirlit með lækningatækjum.

Það er auðvitað mjög mikilvægt að sinna þessu eftirliti með lækningatækjum og ég fagna því að það verkefni skuli falla hér undir. En ég velti því fyrir mér hvort ekki þurfi að breyta heiti á lögunum svo menn átti sig á því að eftirlit með lækningatækjum falli undir þessi lög því heitið bendir til að þessi lög fjalli alfarið um lyf --- þetta eru lyfjalög --- og hvort ekki þurfi að breyta heitinu á lögunum í þá veru að það vísi að einhverju leyti til þess að í lögunum sé einnig fjallað um lækningatæki. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort henni finnist ekki eðlilegt að í nafni laganna komi fram að þarna er komið verkefni sem hefur ekki heyrt undir lögin áður.

Í upptalningu yfir verkefni þau sem þessari nýju stofnun er ætlað að sinna og kemur fram í frv. er fjallað um auglýsingar á lyfjum. Þar segir að í auglýsingu á lyfjum komi aðeins fram nafn lyfs. Ég velti því fyrir mér hvaða breytingu þetta hafi í för með sér frá gildandi reglum um auglýsingar á lyfjum. Má nú ekki segja við hverju lyfið er? Ef verið er að auglýsa verkjalyf, svefnlyf eða hvað það er, má þá ekki geta þess við hvaða kvillum þetta lyf er heldur aðeins nafn lyfsins? Ég hefði gjarnan viljað fá svar við þeirri spurningu.

Í sömu útskýringu er talað um að það megi miðla með bæklingum upplýsingum til sjúklinga um notkun tiltekinna lyfja og það eiginlega gefur líka í skyn að það sé aðeins með bæklingum sem megi miðla þessum upplýsingum en ekki með auglýsingum. Ég hefði gjarnan viljað fá svar við þessari spurningu við 1. umr.

Annars tel ég, herra forseti, að þetta frv. sé allt til bóta svo langt sem ég hef skoðað það en við þetta tvennt geri ég athugasemdir, þ.e. hvort ekki beri að breyta heitinu til að vísa til þessa nýja hlutverks, þ.e. eftirlitsins með lækningatækjunum, og svo hvaða breytingar þetta hefur í för með sér sem snýr að auglýsingunum, hvort verið sé að koma í veg fyrir að það megi nefna við hverju þessi lyf eru.