Lyfjalög

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 19:29:11 (5666)

1998-04-21 19:29:11# 122. lþ. 108.16 fundur 652. mál: #A lyfjalög# (Lyfjamálastofnun o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[19:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð í tilefni af 1. umr. um þetta frv. Í fyrsta lagi vakna spurningar um það hvort tilefni sé til þess í ljósi þeirra verkefna sem þarna eru á ferðinni að setja á fót heila stofnun eins og frv. felur í sér. Það má kannski segja að Lyfjaeftirlit ríkisins hafi verið það. En alla vega finnst mér vera dálítið meiri stofnanalykt af þessu máli eins og það er upp sett, að þarna verði til samkvæmt orðanna hljóðan Lyfjamálastofnun Íslands sem verði eins konar undirstofnun undir heilbrrn. og þá er spurningin auðvitað hvers eðlis þessi stofnun er. Það starf sem þarna hefur verið unnið er að ég best veit fjármagnað með sértekjum. Er stofnun sem heyrir beint undir ráðuneytið á þennan hátt stjórnsýslustofnun eða hrein og klár eftirlitsstofnun? Kemur þessi stofnun til með að falla undir lög um eftirlitsstarfsemi eða eftirlit með eftirliti hins opinbera sem eru með til umfjöllunar á hinu háa Alþingi ef svo verður eða verður þetta meira fagleg stofnun, eins og stjórnsýsluapparat undir heilbrrn., hliðstætt við Fiskistofu sjútvrn. o.s.frv.?

Staðreyndin er náttúrlega sú að þegar farið er betur í saumana á hlutverki margra stjórnsýslu/eftirlitsaðila af þessu tagi, þá er oft ekki alveg ljóst hvað er hvað, hvað er stjórnsýsla, hvað er eftirlit, hvað er eðlilegt að sé fjármagnað með gjöldum og hvað ætti að greiða með fjárveitingum af hálfu hins opinbera.

Í öðru lagi, fyrir utan þessar spurningar um eðli hinnar nýju stofnunar og stjórnsýslulega stöðu hennar og hlutverk, vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig standi á því að það skuli þurfa að breyta lyfjalögum jafnoft og raun ber vitni. Ég man ekki hve oft er búið að taka á því lotur á Alþingi á undanförnum árum að gera gagngerar breytingar á þessum blessuðu lyfjalögum. Þó að hér hafi sérstaklega verið vitnað í athugasemdir vegna tilskipana á Evrópska efnahagssvæðinu sem okkur ber að uppfylla, og hér er löng og skrautleg númeraruna í fylgiskjölum á bls. 7 með frv., þá kem ég ekki auga á þar að skipulagsbreytingin sem slík sé samkvæmt þeim ábendingum sem þaðan hafa komið þannig að það er væntanlega séríslensk ákvörðun að sameina lyfjanefndina og Lyfjaeftirlit ríkisins eins og frv. gengur út á. Hér virðist sem sagt vera blandað saman tvennu, þ.e. annars vegar þessum athugasemdum frá evrópsku aðilunum vegna tilskipana þar og hins vegar ákvörðunum um breytingar vegna þess sem menn hafa ákveðið að eigin frumkvæði uppi á Íslandi. Reyndar er langur listi á bls. 8 þar sem talið er upp hverju eigi að breyta.

Að lokum vil ég nefna aðeins eitt athyglisvert ákvæði í greinargerð með frv. Það segir neðst á bls. 7 í 3. mgr. athugasemda við lagafrv., með leyfi forseta: ,,Frumvarpið byggir að hluta til á tillögum Lyfjaeftirlits ríkisins og lyfjanefndar ríkisins.``

Ég vildi gjarnan fá útskýringar á því hvað liggur á bak við þessi orð ,,að hluta til`` á tillögum þessara aðila. Er það vegna þess að ekki hafi borist þaðan fleiri tillögur eða er það vegna þess að heilbrrn. var ekki sammála þeim hugmyndum sem Lyfjaeftirlitið og lyfjanefnd höfðu um fyrirkomulag þessara mála nema að hluta til? Er þarna hugsanlega verið að vísa í að ágreiningur, falinn á bak við þetta orðalag, hafi verið um það hvort t.d. þessi skipulagsbreyting væri að öllu leyti skynsamleg?