Bæjanöfn

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 19:44:10 (5671)

1998-04-21 19:44:10# 122. lþ. 108.8 fundur 164. mál: #A bæjanöfn# (örnefnanefnd) frv. 40/1998, Frsm. SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[19:44]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Nefndin kannaði það atriði ekki sérstaklega. Það segir í 1. gr. frv. að örnefnanefnd fari með ákvörðunarvald eins og það er orðað hér sem við erum reyndar að breyta. Við breytum því í brtt. okkar. En hún ákveður jafnframt hvaða örnefni verða sett á landabréf sem gefin eru út á vegum Landmælinga Íslands eða með leyfi þeirrar stofnunar og sé ágreiningur eða álitamál um það efni þá sker nefndin úr ágreiningi. Síðan er talað um hverjir eigi málsaðild. Það eru Landmælingar, aðrir kortagerðarmenn eins og það er orðað hér o.s.frv. en síðan er gert ráð fyrir reglugerð sem sé sett af ráðherra. Þar á að kveða nánar á um starfsemi örnefnanefndar. Það er nákvæm útfærsla á því hér. Þar á t.d. að vera ákvæði um undirbúningsferli ákvörðunar nefndarinnar um nafnsetningar á landabréf og þar á meðal um að örnefni, sem ágreiningur er um, skuli auglýst fyrir almenningi með hæfilegum fyrirvara þannig að hverjum þeim sem telja sig búa yfir vitneskju eða ábendingum er að haldi koma gefist færi á að kynna nefndinni álit sitt og einnig má setja þar ákvæði um sambærilegt undirbúningsferli að annars konar ákvörðunum nefndarinnar. Ég held að það sé tryggilega frá þessu gengið í frumvarpinu.