Bæjanöfn

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 19:46:01 (5672)

1998-04-21 19:46:01# 122. lþ. 108.8 fundur 164. mál: #A bæjanöfn# (örnefnanefnd) frv. 40/1998, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[19:46]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ósammála hv. þm. um að tryggilega sé frá þessu gengið. Allt hennar mál laut einungis að því starfi og afkomu örnefnanefndar sem varðaði landabréf sem eru gefin út á vegum Landmælinga Íslands eða með leyfi þeirrar stofnunar. Ég tók ekki eftir því að hv. þm. gæti bent á neitt sem varðaði landabréf sem kynnu að vera gefin út af öðrum stofnunum. Mér þykir þetta vera nokkur galli, kannski ekki mjög mikill en galli eigi að síður á lausn hv. nefndar á þessu máli en ég tek auðvitað eftir því af hverju hann er. Hann er vegna þess að hér hefur ekki verið kvaddur til fulltrúi Landmælinga Íslands nema út af einu tilteknu atriði eins og kom fram í framsögu hv. þm., þ.e. fulltrúi Landmælinga Íslands var kvaddur til til þess að ræða þær breytingar sem gerðar voru, til bóta að mínu viti, á stjórnsýslulegum þáttum sem í frv. eru. Mig undrar auðvitað, herra forseti, að samráðið var haft við umhvrn. og fulltrúa Landmælinga Íslands varðandi einmitt þennan þátt sem varðar úrskurðarvaldið.

Ég velti fyrir mér af hverju ekki var rætt við fulltrúa Landmælinga Íslands um önnur atriði þessa frv. Ég er satt að segja undrandi á því fyrst verið er að hafa fyrir því að kalla fulltrúa Landmælinga til fundar við nefndina að þá skuli hann einungis vera fenginn til þess að ræða þetta tiltekna atriði. Ég held nefnilega, herra forseti, að erfitt sé að afgreiða þetta frv. án þess að fyrir liggi hvort einhver landabréf séu gefin út á vegum annarra en Landmælinga Íslands eða ekki endilega með leyfi Landmælinga. Ég spyr ekki algerlega út í loftið, herra forseti, vegna þess að mér hefur verið bent á þetta atriði af starfsmönnum Landmælinga Íslands.