Bæjanöfn

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 19:49:16 (5674)

1998-04-21 19:49:16# 122. lþ. 108.8 fundur 164. mál: #A bæjanöfn# (örnefnanefnd) frv. 40/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[19:49]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. menntmn. fyrir þá vinnu sem hún hefur sýnilega lagt í frv. því það hefur greinilega og svo sannarlega ekki veitt af. Staðreyndin er sú að niðurstaða menntmn. er staðfesting á því að þetta frv. eins og það kom hingað inn til þingsins var meingallað og ég tel að menntmn. vaxi í áliti við það að hafa haft kjark til að gera á því umtalsverðar breytingar og snúa því að nokkru leyti við í ákveðnum greinum og það sé í öllu falli í mun skárri búningi til afgreiðslu nú en það var þegar það kom inn á þing. Ég átti ekki kost á að taka þátt í 1. umr. um málið en satt best að segja þegar ég renndi yfir þetta frv. skömmu síðar vegna þess að í tilefni af því varð nokkur fjölmiðlaumræða um ákvæði þess, þá varð ég forundrandi þegar ég las sérstaklega 1. gr. frv. og ekki síst það ákvæði sem hv. menntmn. leggur nú til að verði gjörbreytt og þá á ég við 2. efnismgr. 1. gr.

Það er mjög mikilvæg úrbót í þessu máli að úr því endanlega og algera valdi sem örnefnanefnd átti að fela um býlanöfn í landinu sé dregið og satt best að segja var með ólíkindum að mönnum skyldi detta í hug að ætla með einni stuttri setningu í lok þessarar 2. mgr. 1. gr. að kippa úr sambandi öllu sem heitir eðlileg málsmeðferð ágreiningsmála innan stjórnsýslunnar í anda nýlega settra stjórnsýslulaga og í samræmi við hefðir um málskotsrétt manna til æðra stjórnsýslustigs o.s.frv. svo ekki sé talað um að menn geti skotið ágreiningsmálum til dómstóla, en það er eins og höfundar frv. hafi aldrei heyrt af því að þeir væru til í landinu. Það er því stórkostleg framför að nefndin leggur til að úrskurðir örnefnanefndar eða álit verði ekki endanlegir, nefndin fari sem sagt ekki með endanlegt ákvörðunarvald um býlanöfn heldur fjalli hún um nafngiftir býla og geri við þær athugasemdir ef hún sér ástæðu til sem sjálfsagt er og þá ekki síður þessi grundvallarbreyting að úrskurðum nefndarinnar verði hægt að skjóta upp á æðra stig, þ.e. til ráðherra og síðan sú breyting sem er í 4. gr. frv. um að úrskurðir samkvæmt 6. gr. laganna verði kæranlegir.

Herra forseti. Ég tel að málið sé stórum skárra og vænlegra til afgreiðslu með þessum breytingum eftir að dregið hefur verið úr því --- ég veit ekki hvort á að kalla það stjórnlyndi, það jaðrar nánast við ofbeldi sem þarna átti að viðhafa --- að einn aðili gæti á þennan hátt tekið af mönnum ef honum sýndist svo jafnmikilvægan rétt og ég tel það vera að ráða nafngift t.d. á heimili sínu því að býli manna er ekkert annað og það jaðrar við að vera eins og menn fái ekki lengur að ráða því sjálfir hvað þeir heita.

Auk þess hefur mér alltaf fundist, herra forseti, afar fyndið í sambandi við þetta mál að áhyggjur manna skuli hafa verið svona miklar af því að bændur eða þeir sem á býlum búa gerðust svo fram úr hófi óþjóðlegir að það yrði að fara í alveg sérstaka hörku gagnvart því að þeir nefndu ekki bæi sína einhverjum skrípisnöfnum. Miðað við það sem ég hef séð umhverfis mig í þjóðfélaginu hefði ég haft meiri ástæðu til að hafa efasemdir um hversu þjóðlegir ýmsir aðrir aðilar, aðrir geirar þjóðfélagsins, væru heldur en þeir sem aðallega standa í því að gefa bæjanöfn að svo miklu leyti sem það er gert lengur á Íslandi því að ekki er mikið um nýbýli eða annað því um líkt sem fá sjálfstæð nöfn lengur enda búið að leggja niður nýbýlalögin, landnámið og allt það.

Einu vil ég skjóta inn í, herra forseti, þó að kannski megi segja að það sé á jaðri dagskrármálsins að ræða það hér, og þó, því að Landmælingar koma við sögu og ákvörðunarvald í því hvaða örnefni skuli sett á landabréf. Það vill svo til að ræðumaður hefur haft svolítil kynni af því um dagana og hafði sérstaklega á fyrra æviskeiði sínu vegna fags síns að vinna með landabréf, kort og sérstaklega með kortagrunninn og þurfa að rekja sig áfram eftir þeim og átta sig á örnefnum til að vita hvar hann væri staddur í tilverunni, m.a. við þá iðju að færa skipan jarðlaga inn á kortagrunn. Það þarf ekki löng kynni af slíkum störfum til að átta sig á því hversu hroðalega illa við vorum a.m.k. og erum að mörgu leyti enn á vegi stödd í því að koma þeirri miklu arfleifð sem fólgin er í örnefnunum og upplýsingum þeim tengdum rétt og skilmerkilega inn á kort eða á annað aðgengilegt form. Í raun og veru, herra forseti, er til skammar hversu lengi og mikið við höfum vanrækt það að vinna sjálf upp upplýsingagrunninn að þessu leyti. Kortagrunnur Íslands hefur til skamms tíma nánast alfarið byggst á vinnu erlendra aðila, fyrst herforingjaráðsins og þess starfs sem unnið var á vegum þess og síðan annarra erlendra aðila sem komu inn í landið. Það var mjög misjafnt og oftast var mikill misbrestur á því að sú vitneskja sem til staðar var hjá heimamönnum kæmist óbrengluð og óbrjáluð inn á þau gögn sem verið var að taka niður og skrá. Örnefni voru og eru röng. Örnefni eru flutt til í stórum stíl. Þau eru afbökuð og ekki skráð neitt nándar nærri því eins og þó væru til upplýsingar í landinu að gera. Ef einhverjir hér inni hafa lent í því t.d. að leggja drög að eða búa út kort fyrir svonefnt fyrirbæri sem stundum er kallað útsýnisskífa og heitir á fínu máli hringsjá, þá er það svo að á slíkum fyrirbærum er kannski reynt að koma fyrir svona frá 70 upp í 150 örnefnum og vísað til þeirra með stefnu. Ég hef lent í því í slíku verki að a.m.k. 20 stórfelld vafamál komu upp af þeim 120--130 atriðum sem til umfjöllunar voru í því tilviki, þ.e. óvissan hvað varðaði örnefnin á því svæði og á þeim kortum sem þar komu við sögu var svona 15--20% hvað varðaði heildarfjölda örnefna. Þarna gætum við svo sannarlega tekið miklu betur á og vel kann að vera að menn ætli sér í framhaldi af þessari lagasetningu að gera þarna einhverja bragarbót á.

Herra forseti. Ég fagna þessum breytingum sem tvímælalaust eru verulega til bóta frá þessu frv., jafnmeingallað og það var þegar það var lagt fyrir þingið af hinu háa ráðuneyti og geri ráð fyrir því að Alþingi sé alveg óhætt að afgreiða málið með þeim breytingum sem hér eru lagðar til.