Bindandi álit í skattamálum

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 20:13:09 (5679)

1998-04-21 20:13:09# 122. lþ. 108.10 fundur 552. mál: #A bindandi álit í skattamálum# frv. 91/1998, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[20:13]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir brtt. og nál. frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um bindandi álit í skattamálum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín fulltrúa frá fjmrn., sent málið til umsagnar allnokkurra aðila og upplýsingar um það hverjir sendu nefndinni umsagnir eru í nefndaráliti. Nefndin gerir tillögu til breytinga á frv. sem eru í fimm liðum og mun ég nú gera grein fyrir þeim.

Í 1. lið brtt. er gerð tillaga um að orða eilítið öðruvísi hvernig beiðni skuli fram sett um bindandi álit. Það er ekki mikil efnisbreyting þar á en tekin upp tilvísun í hvaða atvik afmarki beiðnina auk álitaefna.

Enn fremur er gerð sú tillaga til breytinga á 3. gr. að ríkisskattstjóri verði að láta í ljós álit sitt innan ákveðins tímafrests.

Þá er þess að geta að við 5. gr. er styttur þriggja mánaða frestur samkvæmt tillögu nefndarinnar í þrjá mánuði. Þar er átt við kærufrest til dómstóla þegar úrskurður yfirskattanefndar liggur fyrir.

Í 4. lið brtt. er orðalagsbreyting.

Í 5. lið brtt. er endurorðun á ákvæðum um gjaldtöku og sett inn tillaga um nýtt ákvæði sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Til að mæta þeim kostnaði sem ríkisskattstjóri hefur af gerð bindandi álita skal greiða gjald er miðast við þá vinnu sem hann hefur af gerð álits í hverju tilviki. Þegar beiðni um álit er lögð fram skal greiða grunngjald að fjárhæð 10.000 kr. Viðbótargjald sem miðast við umfang máls skal greiða áður en ríkisskattstjóri lætur álitið uppi. Um fjárhæð viðbótargjaldsins fer eftir gjaldskrá sem fjármálaráðherra setur, en gjaldið má ekki nema hærri fjárhæð en 40.000 kr.``

Hæstv. forseti. Efh.- og viðskn. skrifar öll undir þetta álit án nokkurs fyrirvara en Sólveig Pétursdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.