Fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 13:02:04 (5689)

1998-04-22 13:02:04# 122. lþ. 109.92 fundur 315#B fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 122. lþ.

[13:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess vanda sem blasir við stjórnendum Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og reyndar stjórnendum fjölmargra annarra heilbrigðisstofnana í landinu.

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefur óumdeilanlega verulega sérstöðu í hópi sjúkrahúsa utan Reykjavíkur. Það er langstærsta og mikilvægasta stofnun sinnar tegundar á landsbyggðinni. Það þjónar víðáttumiklu landsvæði um norðan- og austanvert landið. Á aðalupptökusvæði þess sem sérgreinasjúkrahúss búa um 40--50 þúsund manns, en reyndar má segja að upptökusvæði FSA hafi á síðustu árum í vaxandi mæli verið allt landið hvað vissa þjónustu snertir.

Stefnumörkun stjórnvalda gengur út frá þríþættu hlutverki Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, þ.e. sem héraðssjúkrahús fyrir um 20 þúsund manna byggð við Eyjafjörð, sérgreinasjúkrahús fyrir Norður- og Austurland og aðalvarasjúkrahús landsins, eina stóra sérgreinasjúkrahúsið á öðru landsvæði eða áhættusvæði en sjúkrahúsin í Reykjavík.

Í samræmi við þetta hefur verið unnið að uppbyggingu og rekstri FSA undanfarin ár. Nýjar sérgreinar hafa bæst við, sjúklingum hefur fjölgað, dýrum aðgerðum og dýrum rannsóknum hefur fjölgað, sjúklingum sem áður þurfti að senda suður er nú hægt að sinna á heimaslóðum.

Fjárveitingar hafa hins vegar ekki fylgt á eftir ákvörðunum um nýjar stöður og aukið umfang í rekstri FSA sem um mörg undangengin ár hefur fengið hrós fyrir ráðdeildarsemi í rekstri og að halda sig innan ramma fjárlaga hefur nú tvö ár í röð verið rekið með halla. Rekstrarhalli síðasta ár var um 56 millj. og uppsafnaður vandi um síðustu áramót 90--100 millj. kr. Fjárvöntun vegna rekstrar á þessu ári, m.a. vegna aukningar í starfsemi, er af stærðargráðunni 60--70 millj. kr.

Eins og menn muna, herra forseti, átti að heita svo að þannig væri tekið á vanda sjúkrahúsanna fyrir síðustu áramót að búnir voru til pottar í fjáraukalögum og fjárlögum. Fyrir sjúkrahúsin á landsbyggðinni voru þetta 200 millj. í fjáraukalögum vegna ársins 1997 og hlutdeild í 300 millj. sameiginlegum potti allra sjúkrahúsa í landinu á fjárlögum þessa árs, ársins 1998. Um þessa potta eiga menn svo að bítast, svo geðslegt sem það er.

Þessi mikli vandi, uppsafnaður, og vegna yfirstandandi árs þýðir að stjórnendur FSA, og auðvitað fjölmargra annarra sambærilega settra sjúkrastofnana, standa frammi fyrir ákvarðanatöku um annað tveggja; áframhaldandi hallarekstur eða stórfelldan og sársaukafullan niðurskurð og skerta þjónustu. Á FSA hefur verið samin áætlun um stórfelldar lokanir, samdrátt í þjónustu, lokanir á endurhæfingadeild, geðdeild og fleiri viðkvæmum þáttum í starfseminni. Auk þess hefur verið gerð sérstök neyðaráætlun, ef ekkert rætist úr um fjárveitingar.

Það tekur svo steininn úr, herra forseti, þegar í ljós kemur að enn er ekki búið að skipta því fé sem nota átti úr pottunum til að lina aðeins þrautirnar. Menn eru því í algerri óvissu enn þá þegar þriðjungur er að verða liðinn af árinu hvað kemur í þeirra hlut úr pottinum vegna vandans á síðasta ári og úr pottinum vegna rekstrar í ár. Þetta eru, herra forseti, óþolandi aðstæður. Það er ekki hægt að bjóða mönnum, stjórnendum og starfsfólki upp á svona vinnuskilyrði.

Ég tek það fram, herra forseti, að að mínu mati er hér ekki aðeins við hæstv. heilbrrh. að sakast. Meiri hluti hv. fjárln. og meiri hluti Alþingis lagði blessun sína yfir þetta fyrirkomulag í desembermánuði sl. og ber einnig á því fulla ábyrgð.

Ég vil því að lokum spyrja hæstv. heilbrrh. af þessu tilefni eftirfarandi spurninga:

Í fyrsta lagi. Hefur núverandi ríkisstjórn breytt um stefnu hvað varðar hið mikilvæga þríþætta hlutverk FSA og áframhaldandi uppbyggingu þar í samræmi við það?

Í öðru lagi. Hvenær verður lokið við að skipta pottunum samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum, hvað mega stjórnendur FSA búast við að fá í sinn hlut úr þeim og hvaða skýringar gefur hæstv. ráðherra á þeim seinagangi sem þarna er á ferðinni?

Í þriðja lagi. Verður því sem á vantar til þess að hægt sé að halda á a.m.k. óskertri FSA starfsemi eins og hún er nú eftir umfangsaukningu undanfarinna ára, bætt við sem viðbótarfjárveitingu?