Fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 13:12:52 (5691)

1998-04-22 13:12:52# 122. lþ. 109.92 fundur 315#B fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 122. lþ.

[13:12]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka frummælanda fyrir að taka þetta mál upp. Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að heilbrigðisstefna núv. ríkisstjórnar er orðin að helstefnu gagnvart sjúkrahúsum landsins. Það er ekki einungis það að sjúkrahúsin séu svelt jafnframt því sem verkefni þeirra eru aukin heldur er ósætti má segja í hverri einustu heilbrigðisstofnun í landinu vegna þess að ráðuneyti heilbrigðismála ræður ekki við verkefnið á þessu sviði. Það er sífellt að koma betur og betur í ljós og sést af þeim svörum sem ráðherra gaf við spurningunum í hvaða óefni er komið. Það er skammast út í forsvarsmenn Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri fyrir að vinna eftir þeim fjárlögum sem voru afgreidd á síðasta ári. Þó að liðinn sé þriðjungur af árinu er ekki búið að skipta þessum potti og það eru engin svör nema sagt er eina ferðina enn: Það er verið að vinna að málunum. Það fer bráðum að verða liðið hálft ár og enn er verið að vinna að málunum. Um leið og forsvarsmenn Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eru að reyna að vera innan þess ramma sem þeim er skammtaður, þá eru þeir skammaðir fyrir það, sagt að það komi á óvart og verið sé að vinna að málunum í ráðuneytinu.

Það sést alltaf betur og betur, herra forseti, varðandi þetta mál að þessi stefna gengur ekki lengur. Verkefni sjúkrahússins á Akureyri hafa verið aukin. Jafnframt því hafa fjárframlög ekki fylgt þeim auknu verkefnum. Er ráðherrann að segja að minnka eigi þjónustuna á Akureyri? Þá er best að ráðherrann segi það skorinort en komi ekki hér og skammi þá aðila sem eru að vinna að hennar eigin stefnumörkun.

Ég held, herra forseti, að þetta mál sýni okkur einn hlut eina ferðina enn, þ.e. að hæstv. heilbrrh. ræður ekki við verkefni ráðuneytisins. Það er sennilega þó ekki nóg að skipta um heilbrrh. í þessari núv. ríkisstjórn. Ég held að það þurfi nýja stefnu og nýja ríkisstjórn.