Fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 13:21:40 (5695)

1998-04-22 13:21:40# 122. lþ. 109.92 fundur 315#B fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 122. lþ.

[13:21]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir að fara fram á þessa utandagskrárumræðu um fjárhagsvanda FSA. Ég bendi þó á að þótt fjárhagsvandi FSA sé mikill þá er hann aðeins hluti af þeim geigvænlega vanda sem blasir við sjúkrahúsunum í landinu. Ég á sæti í fjárln. og tók þátt í þeirri vinnu sem þar fór fram við að útbúa fjárlög fyrir 1998. Ég lýsi því yfir hér og hef reyndar gert það áður að mig tók það þungt að skilja við þá vinnu eins og raunin var. Þar blasti við að ef ekkert yrði að gert í fjárhagsmálum sjúkrahúsanna yrði uppsafnaður vandi 2,8 milljarðar í lok þessa árs. Þetta er náttúrlega gríðarlegt vandamál. Til að taka á þessu voru búnir til tveir pottar, 200 millj. sem átti að taka á vanda sem safnast hafði upp fyrir síðustu áramót á landsbyggðinni og 300 millj. sem áttu að taka á heildardæminu.

Allir sjá að þetta er eins og dropi í hafið, enda flækist það fyrir hinum rómuðu sérfræðingum sem til eru kallaðir, að skipta pottinum. Þeir hafa nú verið að störfum æði lengi og læðist að manni sá ótti að drjúgur hluti af þessum potti muni jafnvel fara í nefndarlaun til þeirra sérfræðinga sem þar véla um. Nú mun vera von á niðurstöðum einhvern tímann í næsta mánuði eftir því sem hæstv. heilbrrh. segir og vonandi að hún hjálpi einhverjum en það verður afskaplega lítil hjálp. Það blasir við vegna þess að 300 millj. eru smámunir í þessu samhengi.