Fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 13:26:47 (5697)

1998-04-22 13:26:47# 122. lþ. 109.92 fundur 315#B fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 122. lþ.

[13:26]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mér finnst merkilegt að hlusta á þær upplýsingar sem hér hafa komið fram um þá nefnd sem á að véla um pottagaldur hv. fjárln. Við skulum ekki gleyma því að það var ekki hæstv. heilbrrh. heldur fjárln. sem kom fram með hugmyndina um þennan pott sem átti að bjarga m.a. Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.

Í umræðum um fjárlög kom fram af hálfu hv. þm. Jóns Kristjánssonar, form. fjárln., að gert væri ráð fyrir að sú nefnd mundi skila af sér, ekki seinna en í mars. Nú er ljóst að ekki verður hægt að búast við skilum frá nefndinni fyrr en í maí. Er það nema von, segi ég, herra forseti, þegar 10 manna nefnd sem þar að auki hefur þrjá menn í fullu starfi við að úthluta þessu fé gengur ekki betur að sinna verki sínu, að sjúkrahúsið eða forráðamenn sjúkrahússins á Akureyri kynni neyðaráætlun. Þeir hljóta eðlilega að grípa til einhverra ráða þegar þeir sjá fram á að ekkert gengur í þeirra málum. Mér finnst það í hæsta máta eðlilegt. Ég get ekki tekið undir orð hæstv. heilbrrh. um að það hafi verið ábyrgðarhluti. Ég heyrði ekki betur en hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir ýjaði að því að það kynni að stafa af því að ekki hafi komið rétt skilaboð frá heilbr.- og trmrn.

Engum þarf að koma á óvart að sjúkrahúsið á Akureyri skorti fjármagn. Við fjárlagaumræðuna var mörgum sinnum farið rækilega yfir það. Þá kom fram að uppsafnaður halli sjúkrahússins væri um 90--100 millj. Þá kom einnig fram að vanta mundi milli 50 og 65 millj. í reksturinn á þessu ári. Ekkert hefur gerst í málefnum sjúkrahússins. Hins vegar liggur fyrir að það hefur tekið til sín fleiri aðgerðir, héraðshlutdeild þess hefur verið að hækka. Það hefur meira að segja fengið sjúklinga af öðrum landsvæðum, t.d. til bæklunaraðgerða, en fjármagnið hefur ekki fylgt í hlutfalli við þessa auknu starfsemi. Þess vegna er þessi staða er komin upp.

Herra forseti. Ég vil að síðustu ítreka að vandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri er hinn sami og vandi stóru sjúkrahúsanna hér í Reykjavík. Þau búa líka við fjársvelti og nú nýlega hafa Ríkisspítalarnir orðið að draga saman um 10%, kransæðavíkkanir, opnar hjartaaðgerðir og svo mætti áfram telja. Þetta hefur verið boðað í heilbr.- og trn., herra forseti.