Fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 13:31:55 (5699)

1998-04-22 13:31:55# 122. lþ. 109.92 fundur 315#B fjárhagsvandi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 122. lþ.

[13:31]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég man ekki betur en að við afgreiðslu fjárlaga í vetur hafi formaður fjárln. gefið þá yfirlýsingu að tillögur þær, sem nefnd sú fjallar um sem starfar á vegum heilbrrh. um skiptingu fjárveitinga á milli sjúkrahúsa, yrðu kynntar á Alþingi áður en þinghlé yrði gert þannig að Alþingi hefði tíma til þess að kynna sér málið.

Nú kemur í ljós hjá hæstv. heilbrrh. að rætt er um að nefndin skili tillögum sínum um miðjan maí. Af því má draga þá ályktun að ekki eigi að gera það fyrr en eftir að þingið er farið heim. Ég hef, virðulegi forseti, ekki haft aðstöðu til að kanna orðrétt ummæli formanns fjárln. en ég spurði hann að því í sæti mínu hvort það væri ekki rétt munað hjá mér að hann hafi gefið þessa yfirlýsingu og hann staðfesti það að hann myndi sjálfur ekki betur.

Ég vil, virðulegi forseti, óska eftir því að forsn. Alþingis kanni þetta mál og geri síðan þingmönnum og þingflokkum grein fyrir því ef þær fullyrðingar sem ég hef farið hér með eru ekki réttar. Þetta mál varðar miklu fleiri sjúkrahús en bara sjúkrahúsið á Akureyri. Þetta varðar öll stóru sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi, og Alþingi var heitið því að niðurstöður nefndarinnar um skiptingu yrðu kynntar Alþingi áður en það færi heim í sumarleyfi. Ég krefst þess að við þær yfirlýsingar formanns fjárln. sé staðið og vænti þess að hæstv. heilbrrh. staðfesti í ummælum sínum á eftir að það verði gert.

(Forseti (ÓE): Þetta er nú kannski tæplega viðfangsefni forsn. en forseti mun athuga þessar athugasemdir hv. þm.)