Vinnuumhverfi sjómanna

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 14:11:24 (5703)

1998-04-22 14:11:24# 122. lþ. 110.2 fundur 500. mál: #A vinnuumhverfi sjómanna# þál., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[14:11]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Auk mín eru hv. þm. Gísli S. Einarsson, Guðjón Guðmundsson, Kristinn H. Gunnarsson og Stefán Guðmundsson flm. að þessari till. til þál. Ég gat um það fyrr að við eigum allir sæti í nefnd sem fjallar um öryggismál sjómanna og vorum skipaðir af hæstv. samgrh. Þáltill. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stuðla að því að vinnuumhverfi sjómanna sé bætt. Meðal annars þarf að huga að mengunarvörnum um borð í skipum, eftirliti með meðferð matvæla og meðferð hættulegra efna, auk þess sem gefa þarf gaum að vinnuvernd um borð í fiskiskipum og kaupskipum á þann hátt að um vinnuumhverfi sjómanna gildi \mbox{vinnu-,} hollustu- og mengunarvarnareglur sambærilegar við þær sem gilda hjá öðrum starfsstéttum.``

Í greinargerð segir, með leyfi forseta:

,,Að undanförnu hefur mikið verið rætt um mengun hafsins og útblástur skipa, en lítið hefur verið fjallað um mengun um borð í skipum. Á Íslandi eru ekki í gildi lög sem taka á mengun í skipum. Eftirlit samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit hefur náð fram á bryggjubrún, en ekki um borð í skipin. Sama má segja um eftirlit af hálfu Vinnueftirlits ríkisins, nema ef slys verða um borð í skipi í höfn.

Nú er þó von á úrbótum því að 21. október sl. lagði umhverfisráðherra fram frumvarp til laga um hollustuhætti og er það nú til umfjöllunar í þinginu. Í frumvarpinu er mælt fyrir um það merka nýmæli að lög um hollustuhætti taki til farkosta sem ferðast undir íslenskum fána. Skýringar með ákvæðinu eru að vísu rýrar, en af því má draga þá ályktun að eftirlit Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðiseftirlits muni í framtíðinni ná til allra skipa sem sigla undir íslenskum fána. Í kjölfar samþykktar nýrra laga um hollustuhætti verði þannig sama eftirlit með hollustuháttum á vinnustöðum í landi og í skipum. Mikilvægt er að fylgja þessari lagabreytingu eftir og huga sérstaklega að vinnuumhverfi sjómanna.``

Virðulegi forseti. Að lokinni 1. umr. legg ég til að þessari þáltill. verði vísað til hv. umhvn.