Blóðbankaþjónusta við þjóðarvá

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 14:15:12 (5704)

1998-04-22 14:15:12# 122. lþ. 110.4 fundur 300. mál: #A blóðbankaþjónusta við þjóðarvá# þál. 23/122, Flm. SF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[14:15]

Flm. (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um blóðbankaþjónustu við þjóðarvá. Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa nefnd sem hafi það verkefni að leggja fram tillögur um hvernig öryggi blóðbankaþjónustu skuli tryggt við stórslys og við þjóðarvá. Nefndin skal skipuð fulltrúum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, Blóðbankans, Almannavarna ríkisins, landlæknisembættisins, hjálparsveita og Rauða krossins.``

Í dag eru engar skýrar reglur til um nauðsynlegar forsendur fyrir því að öryggi blóðbankaþjónustu sé tryggt þegar stórfellt átak ber að höndum eins og við þjóðarvá. Brýnt er að settar verði lágmarksreglur þar að lútandi þar sem mikils magns blóðhluta getur orðið þörf á skömmum tíma við þjóðarvá og hópslys, t.d. flugslys.

Í hópslysanefnd Almannavarna ríkisins var fyrir nokkrum árum vakin athygli á því að kanna þyrfti nauðsyn sérstakra ráðstafana í hópslysatilfellum þar sem verulegur hluti skráðra blóðgjafa kæmi úr röðum þeirra sem yrðu kallaðir út í slíkum tilfellum, svo sem björgunarsveitar-, slökkviliðs- og lögreglumanna. Í framhaldi af því var samin á vegum hópslysanefndar greinargerð um hópslysablóðgjafir sem miðuðust einungis við Reykjavík og nágrenni. Nýleg björgunaræfing, Samvörður 97, sem haldin var hér á síðasta sumri, beindi augum manna að nauðsyn og lykilhlutverki blóðbankaþjónustu við alvarlegar aðstæður.

Blóðgjafir eru nauðsynleg forsenda nútímaheilbrigðisþjónustu. Þess vegna er mjög brýnt að þessi mál séu í lagi, sérstaklega í tilvikum eins og við þjóðarvá.

Í dag er fjöldi virkra blóðgjafa hér á Íslandi í kringum 8--9 þús. Þetta jafngildir því að 5--6% þjóðarinnar, sem eru á blóðgjafaraldri, gefi blóð. Um 3,5% þjóðarinnar eru þá virkir blóðgjafar. Þetta hlutfall er ekki ýkja frábrugðið því sem gerist víða erlendis en það er þó lægra hlutfall en hjá mörgum öðrum þjóðum.

Ef þjóðarvá skapast þarf í fyrsta lagi að tryggja húsakost Blóðbankans eins og kostur er, þ.e. að hann standi af sér slíkar aðstæður. Blóðbankinn hefur í 45 ár verið í sama þrönga húsnæðinu og þyrfti að bæta úr því.

Í öðru lagi þarf að tryggja að rafmagn, vatn, tölvukostur og önnur stoðþjónusta sé til staðar.

Í þriðja lagi þarf skýrar og samræmdar reglur um lágmarksbirgðir hráefna, t.d. vírusskimunar, blóðpoka, næringarlausna og annarra slíkra hráefna. Ef blóðþörf mundi skyndilega aukast þyrfti að vera alveg skýrt hvaða lágmarksbirgðir við þyrftum að hafa. Þetta er sérlega mikilvægt vegna einangrunar landsins.

Í fjórða lagi þarf að styrkja Blóðbankann í því starfi að tryggja nægjanlegan fjölda blóðgjafa sem hægt er að kalla til blóðgjafar. Eins og áður sagði munu þeir stóru hópar sem menn geta leitað til í dag vera uppteknir í öðru við þjóðarvá. Björgunarsveitarmenn, lögreglumenn og slökkviliðsmenn verða á vettvangi, þannig að væntanlega þyrfti að leita til annarra aðila, t.d. framhaldsskóla, Stýrimannaskólans, Tækniskólans, íþróttafélaga, kóra, þjónustuklúbba og annarra slíkra hópa.

Í fimmta lagi þarf að tryggja nægilegan fjölda starfsmanna til blóðsöfnunar og stoðþjónustu þegar þörf fyrir blóðsöfnun og blóðhlutavinnslu fjór- til tífaldast á skömmum tíma. Í dag er safnað 40 til rúmlega 100 einingum blóðs, en við þjóðarvá þá þyrfti að safna jafnvel þúsundum skammta á skömmum tíma. Mikinn mannafla þarf til þess að sinna því.

Í sjötta lagi þarf að vera hægt að sinna blóðsöfnun á öruggan hátt utan Blóðbankans við þjóðarvá. Best væri að hér væri bíll sem keyrt væri á milli staða og hjálpað við að safna blóði, þ.e. blóðsöfnunarbíll. Rauði krossinn hefur gefið dágóða upphæð í slíkan bíl. Mér skilst að Rauði krossinn hafi gefið um 13 milljónir en hann kostar upp undir 24--28 milljónir án opinberra gjalda. Slíkur bíll yrði mjög mikilvægur hlekkur í að tryggja blóðsöfnun utan Blóðbankans. Bifreiðin gæti farið á milli landshluta, hún mun búin fimm blóðtökubekkjum, en vinnsla blóðsins þyrfti hins vegar að fara fram í Blóðbankanum. Ég hef heyrt að erlends fari 25--60% söfnunar á blóði fram utan hefðbundins blóðbanka, þ.e. með t.d. bílum.

Í sjöunda lagi þyrfti að gera samninga við nágrannalönd okkar um aðstoð á sviði blóðbankaþjónustu ef þess gerist þörf. Þrátt fyrir að áðurgreindum skilyrðum yrði fullnægt þá þyrftum við hugsanlega erlenda aðstoð tímabundið. Í því samhengi er eðlilegast að líta til Norðurlandanna en þar er blóðbankaþjónusta með svipuðum hætti og við eigum að venjast. Þess má einnig geta að herstyrkur Bandaríkjamanna hér á landi gerir ráð fyrir sendingu blóðs þar sem hernaðarátök eiga sér stað, en jafnframt við þjóðarvá. Að mínu mati væri bæði auðveldara og eðlilegra að hafa samstarf við Norðurlöndin.

Í áttunda lagi þarf að auka fræðslu meðal barna og unglinga um nauðsyn blóðgjafa og á sama tíma reyna að tengja það átak baráttu fyrir heilsusamlegum lífsstíl.

Að lokum, herra forseti, vil ég minna á að 23. maí eru sveitarstjórnarkosningar hér á Íslandi. Þann dag er einmitt alþjóðlegi blóðgjafardagurinn. Mér skilst að hjá Blóðbankanum sé ætlunin að halda upp á alþjóðlega blóðgjafardaginn. Ef það verður gert þá væri mjög heppilegt, þegar fólk fer á kjörstað, að greiða ekki einungis atkvæði sitt heldur gefa einnig blóð í leiðinni.