Samræmd gæði tölvubúnaðar í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 14:22:46 (5705)

1998-04-22 14:22:46# 122. lþ. 110.3 fundur 427. mál: #A samræmd gæði tölvubúnaðar í framhaldsskólum# þál., Flm. ÁMM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[14:22]

Flm. (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þál. um samræmd gæði tölvubúnaðar í framhaldsskólum, sem ég flyt ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og Sturlu Böðvarssyni.

Ályktunin felur í sér annars vegar það að fela menntmrh. að gera átak til að samræma gæði tölvubúnaðar í framhaldsskólum og hins vegar að fela menntmrh. að gera áætlun um samræmda endurnýjun á tölvubúnaði framhaldsskólanna í framtíðinni.

Ástæðan fyrir því að við flytjum þessa tillögu er sú að við höfum orðið varir við það, í leik okkar og starfi í þjóðfélaginu ef svo má segja, að tölvubúnaður framhaldsskólanna er mjög mismunandi. Tölvubúnaðurinn skiptir sífellt meira máli í starfi skólanna og starfi og leik almennt í þjóðfélaginu. Það er því jafnréttismál að nemendur búi við sams konar gæði í tölvubúnaði, sama hvaða skóla þeir sækja, sérstaklega vegna þess að þeir hafa í fæstum tilfellum val um mismunandi skóla.

Við höfum einnig rekið okkur á að endurnýjun á tölvubúnaði er ekki mjög markviss. Hraðinn í þróun tölvubúnaðar er gríðarlega mikill. Ef menn ætluðu jafnóðum að fylgjast með öllu sem fram kemur, þá stæði hver tölva stutt við í tölvuverum skólanna því alltaf kæmi nýtt módel.

Við teljum skynsamlegt að samræma áætlun um það hversu hratt á að endurnýja búnað í skólum. Á að gera það í hvert skipti sem kemur ný tegund af tölvu eða á að gera það á einhverju ákveðnu árabili? Væri hugsanlega hægt að endurnýja búnaðinn þegar önnur eða þriðja ný tegund kemur fram á sjónarsviðið? Alltént teljum við að þetta þurfi að meta skipulega þannig að þetta gerist í öllum skólum og engir verði út undan.

Þetta gengur ekki út á að ekki geti verið um samkeppni á þessu sviði á milli skóla að ræða. Tilgangurinn er að tryggja grundvallargæði í þeim tölvubúnaði sem boðið er upp á í skólunum. Ef skólarnir vilja bæta búnaðinn umfram það sem menntmrn. er tilbúið að leggja til þess, þá verða þeir að leita annarrar leiða til að fjármagna þau kaup, t.d. frá velvildarsamtökum skólanna eða fyrri nemendum. Eins mætti hugsa sér að ef skólum tekst að spara á einhverju tilteknu rekstrarsviði í skólanum umfram það sem áður hefur tekist, þá gætu þeir fengið að njóta þess með því að fjárfesta í nýjum og auknum tölvubúnaði. Eftir sem áður ætti að vera hvati til að hafa einhverja samkeppni á milli skólanna á þessu sviði og jafnvel til þess að menn reyndu að lækka kostnað á einu sviði til þess að geta fjárfest í tölvubúnaðinum.

Grundvallarhugmyndin í tillögunni er sú að gert verði átak til að samræma gæði tölvubúnaðar í framhaldsskólum og að gerð verði áætlun um samræmda endurnýjun á tölvubúnaði framhaldsskólanna.

Ég legg til, herra forseti, að tillögunni verði vísað til hv. menntmn.