Aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum

Miðvikudaginn 22. apríl 1998, kl. 14:45:44 (5711)

1998-04-22 14:45:44# 122. lþ. 110.5 fundur 592. mál: #A aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum# þál. 27/122, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 122. lþ.

[14:45]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég er einn af flm. þessarar tillögu og vil þakka 1. flm. það frumkvæði sem hún átti að þessu máli. Ef tími væri til væri gaman að fara aftur í aldir og ræða svolítið um söguna og þær hugmyndir sem voru ríkjandi um konur sem m.a. sneru að því hvort konur hefðu sál eins og karlar og hvort þær væru nú yfirleitt menn og þótti ekki við hæfi að veita konum yfir höfuð nokkur réttindi fyrr en á 19. öld að þær voru teknar í tölu manna og kostaði reyndar töluverða baráttu, t.d. að fá kosningarétt. (GMS: Það er svartur blettur.) Það er svartur blettur, það er rétt hjá hv. þm., en þarna er vissulega að leita orsakanna fyrir því að hlutur kvenna t.d. í stjórnmálum er enn þá mun lakari en karla. Það er ósköp einfaldlega búið að vera að segja á ýmsan hátt við konur að þetta væri ekki þeirra staður. Það eru skilaboðin sem konur hafa löngum fengið og það tekur langan tíma að breyta slíku hugarfari.

En það er líka annað sem veldur ef við hugsum fyrst og fremst um þá tíma sem við lifum á núna og það er allt stjórnmálaumhverfið sem við lifum í. Það verður að segjast eins og er að stjórnmál og hvernig þau eru skipulögð er óskaplega fjölskyldufjandsamlegt. Þegar það hefur verið kannað t.d. hvers vegna konur endast mun skemur en karlar í sveitarstjórnarmálum hefur einkum tvennt verið nefnt. Annars vegar vinnutíminn, fundartíminn, sem oft er að loknum almennum vinnudegi og síðan nefna konur líka greiðsluna. Þetta eru illa launuð störf miðað við þá miklu vinnu sem fólk leggur af mörkum og konum finnst þetta hreinlega ekki þess virði að fórna svo miklu af tíma sínum og láta hin miklu störf bitna á fjölskyldunni. Þetta er hlutur sem nauðsynlega þarf að athuga og á einnig við hér á Alþingi. Ég get nefnt til fróðleiks að þegar við í félmn. vorum áðan í hádeginu að fara yfir væntanlega fundi hjá okkur kom í ljós að við munum funda hér mestallan laugardaginn og var þá nefnt að þetta væri aldeilis ekki vinsamlegt fjölskyldunni. En svona er þetta og er vissulega eitt af því sem þarf að veita athygli þegar stjórnmál eru skipulögð þannig að þau komi betur heim og saman við fjölskylduhagi fólks.

Vegna þess að það kom fram hjá flm., og ég hef lesið það m.a. frá Noregi, að það eru ekki bara konur sem hætta vegna þess hve erfitt er að samræma fjölskyldulíf og stjórnmál heldur er það líka farið að gilda um karlmennina. Íslenskir þingmenn sem eru í Norðurlandasamstarfi hafa nefnt það í mín eyru að athygli hefur vakið að ýmsir ungir karlkyns stjórnmálamenn á Norðurlöndum hafa ákveðið að hætta vegna þess að þeim finnst ekki fjölskyldulífinu til fórnandi. Þetta er auðvitað mjög sterkur þáttur sem þarf að athuga vel.

En ég er ekki alveg sammála hv. 1. flm. um að hér ríki stöðnun. Þegar sjálfar kosningatölurnar eru skoðaðar hefur að vísu ekki orðið mikil þróun í allra síðustu kosningum en okkar kerfi er þó þannig, og það sýnir kannski stöðuna, að þegar karlar hætta koma konur inn. Á þessu kjörtímabili hér á Alþingi höfum við tvö dæmi um þetta, hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur og hv. þm. Ástu B. Þorsteinsdóttur. Það hefur fjölgað um tvær konur á þessu kjörtímabili. Og ég reikna með að hv. þm. Friðrik Sophusson muni yfirgefa okkur jafnvel í haust eða um næstu áramót, og ef ég veit rétt, þá kemur kona í hans stað. Staðan er þannig núna að konur eru 28,5% þingmanna en fara upp í 30% þegar og ef hv. þm. Friðrik Sophusson hættir. Þá fer nú talan að verða þannig að maður geti litið kinnroðalaust framan í konur t.d. á Norðurlöndum þó að gera þurfi auðvitað miklu betur. Þetta speglar það kerfi sem við búum við.

Það er þrennt sem þarf að gera í þessum málum. Í fyrsta lagi að greina orsakir þeirrar stöðu sem hér ríkir. Í öðru lagi að finna leiðir til úrbóta og í þriðja lagi að grípa til aðgerða í kjölfar slíkra tillagna. Ég tek undir að við höfum tækifæri einmitt núna á næstu dögum til að koma þessari tillögu og styrkja hana inn í jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar. Tillagan er í samræmi við þá tillögu og það má styrkja þennan þátt. Af því sem þarf að gera vil ég nefna þetta tvennt sem ég gerði að umtalsefni í upphafi máls míns, þ.e. að reyna að bæta vinnutímann og greiða betur fyrir stjórnmálastörf og þá ekki síst fyrir sveitarstjórnarstörfin. Það þarf að skoða kosningakerfið betur og kanna hvort og hvernig það hamlar og hvernig hægt væri að bæta það þannig að staða kynjanna yrði jafnari. Það þarf að styrkja sjálfsöryggi kvenna og efla þær til dáða. Eins og ég nefndi áðan fá þær iðulega þau skilaboð að þær eigi ekki erindi í stjórnmálin. Þó að hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson telji að þangað sé ekkert að sækja, þá er það nú þannig að í stjórnmálum eru teknar stefnumarkandi ákvarðanir og þar eiga konur auðvitað að vera eins og karlar. Það er ekki annað en rétt og eðlilegt. Það þarf líka að beina sjónum að körlum og hugmyndum karla um konur. Konur verða fyrir ýmsu hér innan dyra sem annars staðar. Síðast en ekki síst þarf að minna okkur öll á að við erum aðilar að alþjóðasáttmálum sem kveða á um jafna stöðu karla og kvenna og kveða á um aðgerðir og er ég m.a að vísa til aðgerðaáætlunar Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var í Bejing 1995. Hér er því sannarlega verk að vinna, hæstv. forseti.

Eins og ég nefndi áðan er nú tækifæri til að koma þessari tillögu a.m.k. áleiðis til framkvæmda inn í tillögu ríkisstjórnarinnar um jafnréttisáætlun sem við munum vonandi afgreiða frá okkur í hv. félmn. á allra næstu dögum.